Er stjórnarandstaðan utan Alþingis?

Sjálfstæðisflokkurinn gaf nýlega út blað um efnahagstillögur sínar og dreifði því í öll hús á landinu. Í kjölfarið hafa formaður, varaformaður og þingmenn flokksins haldið stjórnmálafundi víða um land. Ég var á einum slíkum í gærkvöld.

Ég hef lítið gert að því að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn hér en get þó ekki orða bundist. Þingmaðurinn sem stóð fyrir svörum á fundinum í gærkvöldi hafði flest svör á reiðum höndum og mæltist að flestu leyti vel.

Hins vegar vafðist honum tunga um höfuð þegar ég gerði að umtalsefni hversu illa flokkurinn hafi staðið að kynningarmálum sínum. Ég veit ekki hvort honum var misboðið með gagnrýni minni eða honum væri ami að návist minni - ef til vill hvort tveggja.

Kannski erum við bara ekki nógu snjöll, kunnum ekki nógu vel að koma málum okkar á framfæri, sagði hann og breytti um umræðuefni. Þetta er auðvitað ekkert svar en alveg dæmigert fyrir rútíneraðan stjórnmálamann sem eftir tuttugu ára dvöl við kjötkatlanna kann að snúa fundum eftir því sem honum hentar best.

Þingmaðurinn hélt því fram að líftími mála stjórnarandstöðunnar væri mjög skammur. Held að það sé rétt hjá honum. Einhverju hlýtur þó að skipta hvernig að kynningunni sé staðið. Efnahagstillögur sem aðeins verða til á dagblaðapappír endast auðvitað ekki. Fylgja þarf þeim eftir á Alþingi, flytja þingsályktunartillögur byggða á efni þeirra, frumvörp til laga, breytingatillögur og svo framvegis. Er það gert?

Það getur ekki verið verkefni ríkisstjórnarinnar einnar að leggja fram mál í þinginu. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki verið svo skammsýnn að hann haldi að efnahagstillögurnar einar breyti einhverju. Þær þarf að ræða, leggja fram á þingi og ekki síst kynna ítarlega fyrir landsmönnum. 

Það er annars umhugsunarefni hversu slöpp stjórnarandstaðan er. Hefur hún alla burði til að ná árangri. Hún á við að etja málaefnalega lélega ríkisstjórn sem ekkert kemur undan sem almenningi og atvinnulífi er til góðs.

Hið eina raunverulega aðhald sem ríkisstjórnin fær er frá þjóðinni. Það var hún sem barði niður Icesave, það er hún sem krefst aðgerða varðandi skuldavanda heimilanna, það er hún sem krefst þess að atvinnuleysinu verði útrýmt, það er hún sem sýnir fram á að staða almennings er miklu, miklu lakari en ríkisstjórnin lætur í veðri vaka.

Hin raunverulega andstaða kemur frá Hagsmunasamtökum heimilanna og fjölda einstaklinga sem stunda sjálfstæðar samfélagsrannsóknir og birta reglulega niðurstöður sínar. Fólk með eldmóð og kraft sem Alþingi skortir svo sárlega um þessar mundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel mælt og alveg sammála.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.10.2011 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband