Erum við þrátt fyrir allt villimenn?

Dauði Gaddafís í Líbýu markar tímamót, enginn mótmælir því. Það var hins vegar hrikalegt að sjá fréttamyndir af dauða harðstjórans. Lýðurinn tók Gaddafí, misþyrmdi, niðurlægði, særði og murkaði að lokum lífið úr honum. Ekki var meðferð á líkinu mannlegri. Múgurinn fór með það eins og hvert annað þýfi.

Nú kann einhver að segja að þetta hafi Gaddafí mátulegt eftir áratuga ógnarstjórn. Vissulega var maðurinn skepna. Hann fór illa með sitt fólk, deildi og drottnaði, meiddi og myrti án efa tugi þúsunda af samlöndum sínum, jafnvel miklu fleiri. Utan Líbýu eru þúsundir sem eiga um sárt að binda vegna hryðjuverka sem beinlínis má rekja til mannsins.

Þó allt þetta skipti máli kemur veltir maður fyrir sér hvað æstur lýður getur gert. Honum er ekkert heilagt og þau mistök sem hann venjulega gerir vill enginn einstaklingur viðurkenna, lýðurinn er ábyrgðarlaus, hefur enga hugsun.

Meðferðinn á Gaddafí í andaslitrunum og dauðum var hrottaleg og öllum til skammar.

Er það svona sem mannkynið er þrátt fyrir siði, trú og menningu sem þróast hefur í þúsundir ára. Erum við innst inni bara villimenn? Er sómatilfinningin aðeins til heima í stofu en þegar við söfnumst saman hverfur skynsemin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta fólk er sjálfsagt búið að upplifa ýmislegt viðbjóðslegt  sem við hér á þessu friðsæla landi getum ekki ímyndað okkur. Það er knúið áfram af hatri sem stjórnar gjörðum þess. Já þetta er mjög ógeðfellt.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 09:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband