Verður eldgos í Tungnakvíslajökli en ekki Kötlu?
15.10.2011 | 18:03
Nokkru áður en Eyjafjallajökull tók að gjósa þann 14. apríl 2010 veltu menn því fyrir sér hvar gosið myndi koma upp. Mörgum þótti nefnilega ekki einsýnt að það yrði í toppgígnum, sem þó varð.
Ég hafði einblínt í nokkurn tíma á staðsetningakort jarðskjálfta á vedur.is og sá að mjög margir skjálftar áttu uppök sín í rótum Steinsholtsjökuls. Sá er skriðjökull sem rennur norðan úr Eyjafjallajökli líkt og Gígjökull en nokkru austar. Þarna fannst mér tilvalið að gos kæmi upp en ekki varð ég sannspár frekar enn fyrri daginn enda hef ég ekki hundsvit á jarðfræði.
Nú segja allir að gos sé í vændum í Mýrdalsjökli og ég trúi því eins og nýju neti. Skoða oft á dag staðsetningakort jarðskjálft hjá Veðurstofunni, pæli í hlutunum og spái.
Mér þykir nokkuð ljóst að annað hvort verði gos í suðausturhorni Kötlu-öskjunnar eða utan hennar og þá í rótum Tungnakvíslajökuls. Sá rennur vestur úr Mýrdalsjökli og ofan í það svæði sem margir kalla Þórsmörk en heitir í raun Tungur og Hrunar.
Eins og má sá af jarðskjálftakortinu hafa orðið nokkrir skjálftar vestan við öskjuna en allir litlir. Raunar er það einkenni á skjálftunum á þessum slóðum að þeir eru litlir. Á tíma hélt ég að þeir væru bara vegna þess að ís væri að hrynja úr jökulstálinu. Ég hef komst þó að þeirri vísindalegu niðurstöðu að það gæti ekki verið - það væri ekki eins spennandi ...!
Og núna kemur rúsínan í pulsuendanum. Draumspakur maður heldur því fram að gos hefjist í Mýrdalsjökli 18. nóvember, kl. 17:34 - og það verði verulega stórt og óþægilegt fyrir landslýð. Ég trúi þessum draumi þó mátulega því sá sem dreymdi hefur litla reynslu á draumasviðinu.
Efri myndin er tekin á Foldum, leiðinni upp á Fimmvörðuháls. Þar sést yfir Hruna, Tungur og Tungnavíslajökull er lengst til vinstri.
Neðri myndin er af góðum vinum og Tungnakvíslajökull er í baksýn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kannski er þetta spurning um súra gúlinn undir Goðabungu sem Páll Einarsson er stundum að tala um. Ef Kötluaskjan færi af stað á sama tíma gæti það orðið mjög hættuleg blanda.
Emil Hannes Valgeirsson, 15.10.2011 kl. 21:00
Ég held að Páll dauðsjái eftir að hafa tjáð sig um súrgúlinn. Þeir sem vita af honum eru gríðarlega hræddir við hann ...
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.10.2011 kl. 21:11
Þú segir það. Reyndar hefur maður ekki heyrt neitt gúlatal upp á síðkastið.
Emil Hannes Valgeirsson, 15.10.2011 kl. 21:18
Það er nú lóðið ... Hver jarðfræðingurinn á fætur öðrum hefur verið í önnum að gera lítið úr hugsanlegu gosi í Kötlu eða Mýrdalsjökli. Hvað á maður eiginlega að halda?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.10.2011 kl. 21:20
"Hver jarðfræðingurinn á fætur öðrum hefur verið í önnum að gera lítið úr hugsanlegu gosi í Kötlu eða Mýrdalsjökli.Hvað á maður eiginlega að halda?"
....... að þeir hagi sér eins og hagfræðingar kortér fyrir hrun?
Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.10.2011 kl. 05:47
Já Jenný það er ekki laust við fleiri hugsi svona. Það væri nær að tala um hlutina svo almenningur geti þá frekar undirbúið sig ef og þegar...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 16.10.2011 kl. 11:42
Því var skotið að mér að jarðfræðingum er ekkert sérstaklega vel við að þeim sé stillt upp við vegg. Er ekki hissa á því. Hins vegar tek ég hatt minn ofan fyrir veðurfræðingum eins og Einari Sveinbjörnssyni og Trausta Jónssyni. Vísindin eru þeim svo mikið hjartans mál að þeir skrifa reglulega pistla á bloggsíður sínar til að koma okkur leikmönnum í einhvern dýpri skilning um veðrið. Þetta mættu nú jarðfræðingar gera líka. Ég undanskil auðvitað Harald Sigurðsson sem er ritar afskaplega áhugaverða pistla á bloggsíðu sínu. Ekki veit ég um fleiri jarðfræðinga sem gera slíkt.
Og þetta um hagfræðinganna. Mér virðist sem þeir séu síst af öllu sammála um staðreyndir mála og deila hatrammlega um stefnur og stjórnmál. Þá dettur mér í hug brandarinn um guðfræðinginn, verkfræðinginn og hagfræðinginn sem deildu um það hver væri elsta fræðigreinin. Verkfræðingurinn fullyrti að veröldin væri vitni um hönnun og til þess hefði þurft verkfræðing. Guðfræðingurinn mótmælti því og hélt því fram að úr óreiðunni, kaos, hefði guð skapað heiminn og því væri guðfræðin með yfirburðina. Þá glotti hagfræðingurinn og sagði: En kæru vinir, hverjir sköpuðu óreiðuna ...?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.10.2011 kl. 11:53
Er ekki Steingrímur J. jarðfræðingur?
Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2011 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.