Engin list að skrifa góða grein
11.10.2011 | 09:47
Alltof margir eiga erfitt með að skrifa góða grein til birtingar í dagblöðum, vefsíðum eða bloggi. Jafnvel stjórnmálamenn sem ættu að vera sjóaðir í bransanum skrifa lélegar greinar. Svo má stundum lesa skínandi góðar greinar frá fólki sem fyrirfram mætti halda að væri óvant og kynni ekki mikið til þessarar listar.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er engin list að koma hugsunum sínum á blað. Fyrsta boðorðið er einfaldlega að hafa einhverja skoðun ... engin skoðun er auðvitað ávísun á efnisrýra grein svo ekki sé meira sagt. Svo þarf að hafa það í huga að skrifa skipulega. Millifyrirsagnir hjálpa bæði þeim sem ritar og ekki síður lesendum. Þessu gleyma margir.
Í Morgunblaðinu eru í dag tvær greinar hlið við hlið á blaðsíðu 20. Önnur er eftir Sigurbjörn Þorkelsson fyrrverandi forseta Gídeonfélagsins. Hann skrifar um ákvörðun borgarstjórnar að leyfa ekki félaginu að gefa nemendum 5. bekkjar í skólum borgarinnar að þiggja Nýja testamentið að gjöf. Hin greinin er eftir Guðmund F. Jónsson sem titlar sig formann Hægri grænna, flokks fólksins. Hann skrifar umstöðu íslensku bankanna og hefur áhyggjur af því að nýtt bankaslys sé í uppsiglingu.
Báðar þessar greinar gætu verið góðar en eru aðeins þokkalegar. Sigurbjörn notar millifyrirsagnir en Guðmundur ekki. Fyrir vikið er sú fyrrnefnda læsilegri. Hætt er við að margir missi af boðskapnum í þeirri síðarnefndu vegna þess að þeir nenna ekki að lesa massívan texta.
Vandi beggja þessara manna er hinn sami, þeir skrifa of langar greinar og hvorugur virðist vera gagnrýninn á eigin skrif. Sigurbjörn endurtekur sig alltof mikið, málgreinar eru oft of langar og svo örlar á mærð sem dregur greinina niður. Guðmundur er allur annar. Hann er eins og hríðskotabyssa, dritar út upplýsingum og ályktunum. Hann lætur sér í léttu rúmi liggja hvernig þetta allt fer með lesandann sem illa getur áttað sig á hvað sé frá höfundi komið og hvað séu almennar upplýsingar. Þetta er í mörgum tilfellum mein stjórnmálamanna og þeirra sem vilja vera slíkir, margir blanda saman staðreyndum og skoðunum.
Við þurfum að hafa í huga, að grein á opinberum vettvangi á í bullandi samkeppni við allan anna texta. Hvers vegna les einhver eina grein en sleppir annarri? Fáir lesa allan texta í dagblöðum eða vefsíðum. Flestir velja sé lestrarefni, en hvernig? Ég fullyrði að þrennt skipti máli, fyrirsögn, upphaf greinar og millifyrirsagnir.
Ég hef áður bent á reglur Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, um stíl, þær er að finna á www.jonas.is. Reglur hans eru átta, afar einfaldar og skynsamlegar
Ástæða er til að bæta við nokkrum almennum reglum:
- Markmiðið með greininni, hafa það á hreinu
- Skipuleggja greinina; upphaf, miðja og endir
- Nota alltaf millifyrirsagnir
- Fyrirsögnin skiptir mjög miklu, hafa hana stutta og lýsandi
- Byrja á áhugaverðu atriði sem lagt er út frá í aðalhluta greinarinnar
- Enda greinina í stíl við upphaf eða meginmál
- Vanda val á mynd af greinarhöfundi
Ég man þá tíð er Gunnar Thoroddsen var áberandi í stjórnmálalífi landsins. Hann var afskaplega fróður maður og vel máli farinn. Oft byrjaði hann ræður sínar á sögulegum nótum. Vinir, samherjar og andstæðingar tóku þetta oft upp í góðlátleg gríni og sögðu: Góðir Íslendingar. Fyrir ellefu hundruð árum námu norrænir menn hér land ... Og svo leið og beið og loks, kannski tveimur klukkustundum síðar, kom Gunnar að kjarna málsins. ... og hefur ríkisstjórnin því ákveðið að fella gengið ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2017 kl. 23:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.