Stórkostleg framkvæmd
4.10.2011 | 15:51
Loksins ber áratuga barátta Árna Stefánssonar, auglæknis, hellakönnuðar, kajakræðara og ferðamanns þann árangur að Þríhnúkagígur verður gerður að ferðamannastað.
Árni er mikill kappi. Hann seig fyrstur manna ofan í Þríhnúkagíg, líklega fyrir meira en 20 árum. Og hann sagði mér einhvern tímann að ferðin niður í kolsvart gímaldið hafi aldrei ætlað að taka enda. Talsverðan kjark þarf til að leggja á sig ferðalag ofan í svona óvissu.
Mig minnir að það séu meira en tíu ár síðan Árni sagði mér frá þessu áhugamáli sínu, að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan fyrir ferðamenn. Mér fannst þetta tóm vitleysa hjá manninum. Hann sannfærði mig þó um síðir og nú eru komnir fjársterkir aðilar að málinu og hagsmunaaðilarnir Reykjavíkurborg og Kópavogsbær. Þessu ber að fagna.
Ekki er þó kálið sopið þó í ausuna sé komið. Gera má ráð fyrir því að framkvæmdin taki tvö til þrjú ár og kostnaðurinn verði í kringum tvo milljaða króna. Þetta er stórmerkileg framkvæmd og án efa verða rekast menn á einhver vandamál á leiðinni og þau verða síst af öllu til að gera hana ódýrari.
Ég óska Árna Stefánssyni sérstaklega til hamingju með áfangann og ekki síður þeim sem leggja nú í spennandi vegferð. Öruggt er að Þríhnúkagígur verður álíka aðdráttarafl eins og Bláa lónið, Geysir og Gullfoss. Og það skemmtilegasta við málið er sú einfalda staðreynd að ekki þarf annað að gera en að opna þetta náttúruundur. Þau eru fleiri svona á Íslandi en því miður er lykillinnn ansi dýr.
Ætla að gera Þríhnjúkagíg að ferðamannastað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Spennandi. Hlakka til að sjá þetta.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.10.2011 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.