25.685 í alvarlegum vanskilum, 11.294 atvinnulausir ...

aa vanskil

Þetta er ótrúlegt, en 25.685 manns eiga í alvarlegum vanskilum samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Þetta er stórfrétt og umfjöllun um hana er birt í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Er svo einhver hissa á því að fólk lemji á tunnur á Austurvelli og kasti eggjum í stjórnmálamenn?

Efnahagshrunið fór illa með stóran hluta þjóðarinnar. Skuldir verðtryggðra lána stórhækkuðu fyrst og fremst vegna þess að fjármálafyrirtækin tóku enga ábyrgð. Klyfjar verðbótanna voru alfarið lagðar á lántakann. 

Og núna, daginn eftir stefnuræðu forsætisráðherra, kemur frétt í Morgunblaðinu um að 8,5% þjóðarinnar er í alvarlegum vanskilum.

Nú eru 11.294 einstaklingar án atvinnu og það segir ríkisstjórnin að sé bara harla gott, atvinnulausum hafi fækkað.

Hvað eigum við að gera með ríkisstjórn sem er gerir ekkert vegna atvinnuleysisins og lýgur í þokkabót. Hvað með þessa 12.500 einstaklinga sem flutt hafa af landi brott frá því 2008? Þetta eru líklega 3100 fjölskyldur eða 6200 fyrirvinnur ...

Jú, ríkisstjórninni er margt til lista lagt. Til að spara atvinnuleysisbætur, þessa lúsarögn, hrekur hún þúsundir manna úr landi. Um leið lítur hlutfall atvinnulausra miklu betur út. Iðnaðarráðherra sagði í gær að 6,9% atvinnuleysi sé bara harla gott á vesturlöndum.

Og ofan í kaupið kemur í ljós að 25.685 manns eiga í alvarlegum vanskilum. Þetta sannar bara eitt. Þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur fest í sessi virka ekki. Þetta bull um 110% leið er bara rugl. Um leið fitna fjármagnsfyrirtækin, bankanir standa með pálmann í höndunum, skila ótrúlegum hagnaði.

Ég hef haldið því fram að samfélagið megi ekki við því að missa 35 milljarða króna úr veltunni á hverju ári. Þetta eru þau laun sem atvinnulausir hefðu haft til umráða og tapaðar skattatekjur af þessu sama fólki eru 13,5 milljaðar króna á ári.

Séu þeir teknir með sem flúið hafa frá landinu vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar má gera ráð fyrir að árleg töpuð velta samfélagsins sé nærri 50 milljarðar króna og tapaðar skatttekjur ríkissjóðs séu um 20 milljarðar króna.

Og, kæri lesandi, 20 milljarðar króna er sú fjárhæð sem ríkissjóður greiðir á hverju ári í atvinnuleysisbætur. Til viðbótar má reikna þessa ríkisstjórn til helvítis vegna þeirrar sorgar og skemmdar sem hún hefur valdið fólki sem ekki fær tækifæri til að vinna fyrir sér, lendir í vanskilum, tapar heimilum sínum og fjölskyldur sundrast. Þetta gengur ekki lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband