Siglfirðingar hafa svo sannarlega vaknað

Las í morgun, mánudag, stórgóða grein í Morgunblaðinu eftir Róbert Guðfinnsson, framkvæmdastjóra, á Siglufirði. Hann ræðir þar um Stykkishólm og EDEN verðlaunin sem bærinn hlaut fyrir stuttu. Í greinninni nefnir hann Rakel Olsen, framkvæmdastjóra Sigurðar Ágústssonar hf. í Stykkishólmi, en Rakel hefur verið óþreytandi í endurbyggingu húsa og lagt til þess tugi milljóna króna eftir því sem Róbert segir.

Þetta er einstaklingsframtak fjölskyldu sem vill gera vel við sitt byggðarlag. Í umræðunni um kvótakerfið og sjávarútveginn gleymist oft að benda á fyrirtæki eins og Sigurð Ágústsson hf. sem er sómi síns samfélags. Oftar eru þau fyrirtæki nefnd sem hafa farið offari eða gert stór mistök. 

Ég á uppruna minn í Stykkishólmi og þess vegna hef ég lengi fylgst með því sem Rakel Olsen, börn hennar og tengdabörn hafa verið að gert. En ég hef lengi fylgst með Siglufirði. Á þar þó engar rætur en engu að síður sterkar taugar. 

Róbert ræðir um Siglufjörðu sem gegnið hefur í gagnum endurnýjaða lífdaga. Hann segir í grein sinni:

Þar hefur Örlygur Kristfinnsson farið fremstur í flokki. Jafnt í stórmerkilegu framtaki hans í Síldarminjasafninu sem og við endurbyggingu gamalla einbýlishúsa. Þá hefur fjöldi einkaaðila lagfært hús sín og garða. Við hjá Rauðku ehf höfum reynt að leggja okkar af mörkum hvað varðar uppbyggingu á gömlum fiskvinnsluhúsum við smábátahöfnina. Á síðastliðnu sumri fékk Siglufjörður verðskuldaða athygli þegar metfjöldi ferðamanna sótti staðinn heim. Margir Íslendingar sáu það sem við sem til þekkjum vissum, að Siglufjörður hefur mikla sérstöðu meðal bæja á Íslandi. Það að hafa smábátahöfnina alveg við torg bæjarins gefur bænum mjög sterkan blæ. Bæjarstæðið er skemmtilegt og býður upp á mikla möguleika.

Róbert hvetur Siglfirðinga til dáða og ber þá von í brjósti að fasteignaverð eigi eftir að hækka í bænum og styrkja byggðina. Hann telur hins vegar að meirihluti bæjarstjórnar í Fjallabyggð sé ekki á réttri leið og vinnubrögð hans ekki til eftirbreytni.

Það sem áður var

Ástæðan fyrir því að ég staldraði við grein Róberts og las hana með mikilli athygli má rekja til þess að árið 1997 kom ég einu sinni sem oftar til Siglufjarðar. Þá blöskraði mér nú alveg og skrifaði grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Vaknið Siglfirðingar!“. Greinin hefst á þessum orðum:

Hann hafði verulegar áhyggjur af því, forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar í fréttum fyrir skömmu, að grúturinn í loftinu kunni að fæla ferðamenn frá staðnum. Eftir stutta heimsókn til Siglufjarðar finnst mér grúturinn í loftinu vera minna vandamál en áhugaleysi Siglfirðinga á ferðaþjónustunni.

Sofandi bær 

Ég hef víða farið um Ísland og síst er hægt að segja að kaupstaðurinn Siglufjörður heilli mig, en landslagið hefur alla tíð vakið áhuga minn og um daginn lét ég verða af því að fara aftur til Siglufjarðar í stutta ferð í góðum félagsskap, til þess eins að ganga yfir í Héðinsfjörð, þennan umtalaða fjörð, sem svo margir hafa hvatt mig til að skoða.

Líklega eru um tuttugu ár síðan ég kom fyrst til Siglufjarðar. Fátt sýnist mér hafa breyst. Við fyrstu sýn virðist Siglufjörður vera þreyttur staður og gleðisnauður. Ég segi við fyrstu sýn, því ég er ferðamaður og ferðamenn stoppa stundum ansi stutt við og dæma að sjálfsögðu út frá reynslu sinni og þá skiptir lengd ferðar engu máli. Í hvert skipti sem ég kem til Siglufjarðar finnst mér engu líkar en Siglfirðingar bíði eftir að eitthvað gerist, eitthvað utanaðkomandi, - ef til vill nýtt síldarævintýri. 

Ég fékk það til dæmis á tilfinninguna að Siglfirðingar vildu helst loka Strákagöngum til að koma í veg fyrir óþarfa átroðning ferðamanna. Það geta þeir að sjálfsögðu ekki og þess í stað loka þeir verslunum sínum og þjónustustofnunum og jafnvel lögreglan á staðnum lítur ekki til hins auma ferðamanns sem leitar eftir tjaldsvæði. Tjaldsvæðin virðast vera tvö, bæði illa hirt, og umferðin við nærliggjandi götur gefur hinum vegmóðu ferðamönnum lítinn grið.

Slök þjónusta

Siglfirðingar mættu líta á hvað er að gerast á stöðum eins og Akranesi, Stykkishólmi, Ísafirði, Húsavík, Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði, Skaftárhreppi, Vestmannaeyjum eða Keflavík. Þjónusta við ferðamenn á á Siglufirði er ekki sambærileg við þá sem stendur til boða á þessum stöðum.

Siglufjörður getur tekið á móti tugum þúsunda gesta á hverju ári. Í samanburðinum er ein verslunarmannahelgi slök kynning, raunar aðeins lélegt partí sem lítið skilur eftir. 

Kabarett um síldarævintýrið er forvitnilegt framtak en alls ekki nóg. Vilji Siglfirðingar skjóta stoðum undir ferðaþjónustuna þarf hugarfarsbreytingu. Ferðaþjónusta er atvinnuvegur ekki ævintýri. Siglfirðingar geta grætt á okkur ferðamönnum sjáum við okkur hag í þeirri þjónustu sem í boði er.

Í lokin er ekki úr vegi að það komi skýrt fram að mér rennur til rifja áhugaleysi Siglfirðinga um eigin hag, um umhverfi sitt og þá möguleika sem þeim bjóðast í atvinnumálum. Ég vona að Siglfirðingar misskilji ekki þennan pistil, því sá er í raun vinur sem til vamms segir.

Og þannig lauk greininni. Fjórtán ár eru ekki langur tími. Ég kom til Siglufjarðar í sumar og þvílík viðbrigði, þvílík birta, bjartsýni og gleði sem ríkir í ferðaþjónustunni. Róbert Guðfinnsson á án efa mikinn þátt í uppbyggingunni en enginn fær það tekið frá Örlygi Kristfinnssyni sem í mörg ár dró vagninn áður en hann náði eyrum og athygli annarra. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband