Lygileg orðanotkun vinstri manna
25.8.2011 | 12:52
Stundum koma alþingismenn ekki auga á hið augljósa. Svipað eins og að sjá ekki tréin fyrir skóginum ... Ólína Þorvarðardóttir, segir um kvótafrumvarp sitt í Mogganum í morgun:
Við vissum það þegar við fórum að boða þessar breytingar að það væru hagsmunaöfl í landinu sem myndu krækja höndum saman til þess að standa í vegi fyrir þeim, og fjármálastofnanir eiga auðvitað hagsmuna að gæta, segir Ólína.
Er það svo undarlegt að fjármálastofnanir eigi hagsmuna að gæta hjá þeim aðilum sem þær hafa lánað til? Nei, þess vegna eru fjármálastofnanir hagsmunaöfl.
Er það svo undarlegt að Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, sjómenn og útgerðarmenn auk stjórnmálaflokka hafi lýst sig á móti kvótafrumvarpinu? Nei, auðvitað ekki.
ASÍ telur að verði frumvarpið að lögum muni atvinnuleysi aukast, SA telur gjaldþrot fyrirsjáanleg verði það að lögum og fleiri eru á þessari skoðun. Jafnvel Landsbankinn gaf út ítarlega skýrslu um málið og varar eindregið við því.
Hefði ég staðið fyrir þessu frumvarpi myndi ég líklega endurskoða afstöðu mína. Að öllum líkindum kæmist ég að þeirri niðurstöðu að frumvarpið væri gallað. En Ólína sér enga galla á málinu og veit miklu betur en allir umsagnaraðilar til samans - enda eru þeir hagsmunaaðilar ...
Þegar fjölmargir taka höndum saman og vara við atvinnuleysi, gjaldþrotum og stórkostleg tapi ríkissjóðs vegna eins frumvarps er ekki ástæða til að taka tillit til þeirra?
Svo er það alveg stórmerkilegt hvernig orðanotkun vinstri manna er lygileg. Hagsmunasamtök er greinilega vont orð og á að gera þá sem teljast til þeirra afar tortryggileg. Höfum samt í huga að öll höfum við hagsmuni af fjölmörgum málum. Sjúklingar geta myndað hagsmunasamtök sem hafa það að markmiði að tryggja faglega umönnun þeirrra. Sama er með aldraða, foreldra, atvinnurekendur, atvinnulausa og raunar allan almenning, við erum hagsmunaaðilar af ýmsu tagi. Og það er ekkert ljótt við það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.