Frábær ár með Steve Jobs

Fréttir um að Steve Jobs hafi sagt af sér sem forstjóri Apple koma alls ekki á óvart. Raunar hefur hann aðeins gegnt starfinu í orði kveðnu. Veikindi mannsins hafa verið mikil og hann lítur alls ekki vel út eftir að hafa fengið krabbamein.

Steve Jobs er mikið ólíkindartól. Metnaður hans er gríðarlegur en samskiptahæfileikar hans voru framan af honum til lítils sóma. Enginn efast þó um hæfileikana. Hann stofnaði og byggði upp Apple. Þegar vel tók að ganga ýttu fjárfestar honum til hliðar en þá fór allt á verri veg hjá Apple undir stjórn manns sem hafði það sér til ágætis að hafa verið forstjóri Pepsíkólas. Þrautaráðið var nokkrum árum síðar að fá hann til baka. Það reyndist afskapleg farsæl ráðning.

Apple er stórveldi með Makka, iPod, iPhone og iPad og frábær stýrikerfi og stórkostleg forrit.

Það var 1984 eða 85 að góðir vinir, hjónin Helga Ólafsdóttir og Guðmundur Björnsson, sýndu mér skrýtna tölvu sem þau kölluðu Macintosh, rétt eins og nammið. Þetta var upphafið en farsælli notkun á tölvu sem ég sé ekki fyrir að ég hætti nokkurn tímann að nota.

Ég hef aldrei séð eftir því að hafa notað Makka. Stundum var það þó erfitt, sérstaklega á þeim tíma sem Apple taldi Steve Jobs vera óþarfan. Oftast hefur verið frábært að nota Makka og sérstaklega síðustu árin. Og alla tíð hef ég afþakkað PC tölvu þar sem ég hef unnið en komið með Makkann minn á vettvang.

Auðvitað hefur maður orðið fyrir aðkasti. Margir gáfumenn hafa reynt að telja mér trú um að Makkinn væri alveg ómögulegur. Fæstir þekktu þó tölvuna af eigin raun. Sá var nú eiginlega munurinn á mér og þeim að ég átti lengi tölvu með Windows stýrikerfi, notaði hana fyrst og fremst fyrir bókhald á þeim árum sem gott bókhaldsforrit fékkst ekki á Makka.

Þrátt fyrir mótbyr sem fyrst og fremst hefur byggst á ati og gríni í minn garð hefur uppreisn mín með Makkann byggst á því að hann er öruggur í rekstri, bilar lítt og er svo ákaflega skemmtilegur í notkun. Ánægjulegast hafa þau augnablik verið þegar andskotar mínir hafa komið og beðið mig um að gera einhver viðvik á Makkann sem þeir kunna ekki á Windows. 

Ég nota núna MacBook Pro fartölvu, 2.66 GHz og Intel Core i7, 8 GB minni og stýrikerfið er Mac OX Lion 10.7.1. Frábær tölva sem þolir að fá kókglas yfir hnappaborðið (mæli samt ekki með slíku). Með tölvunni nota ég svo 23" skjá frá Apple sem ég keypti fyrir sex árum. Þetta er afskaplega skemmtileg vinnustöð þó svo að ég þurfi nú að fá mér nýjan og stærri skjá.

Í vor ætlaði ég að kaupa iPad en þess í stað fékk ég með iPhone sem mig hefur dreymt um frá því hann kom á markaðinn árið 2007.

iPhone er gjörbreyting á viðhorfi til síma. Í raun og veru er ekki hægt að bera saman iPhone og hefðbundna gsm síma. Þetta er allt annað tæki, eiginlega tölva. Síminn er aðeins hluti af því.

Steve Jobs er búinn að marka línuna. Þó hann hætti hjá Apple þá vita þeir sem við taka sem og allt fyrirtækið hvert markmið þess er og á að vera. Apple verður vonandi um ókomna tíð frumherji og neytendavænt fyrirtæki. Steve Jobs er vinur minn, jafnvel þó hann viti ekki af því, og ég óska honum langlífis.


mbl.is Jobs hættir sem forstjóri Apple
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband