Greiðum niður skuldir ríkisins
17.8.2011 | 09:37
Það er staðreynd að ríkissjóður var nær skuldlaus haustið 2008 er efnahagsáföll dundu yfir heiminn með þeim afleiðingum að bankakerfið hér á landi hrundi. Fólk getur rétt ímyndað sér hvernig hversu erfitt hefði verið að takast á við hrunið til viðbótar við umtalsverðar skuldir.
Ólöf Nordal ritar mjög skorinorða grein í Morgunblaðið í dag, miðvikudag og er fyrirsögnin Greiðum niður skuldir ríkisins. Hún hvetur til þess að allar tekjur sem koma til vegna sölu ríkiseigna verði nýttar til að greiða upp skuldir ríkisins og lækka þannig þennan mikla vaxtakostnað.
Hún segir ennfremur:
Áætlaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs á þessu ári eru um 75 milljarðar króna, samanborið við tæplega 95 milljarða króna árið 2010. Samkvæmt þessu verður vaxtakostnaður ríkisins í árslok um 200 milljarðar króna frá bankahruninu 2008. Til að setja hlutina í samhengi eru þetta rúmlega tuttuguföld framlög til Háskóla Íslands á ársgrundvelli og um áttatíufalt framlag til Landhelgisgæslunnar svo dæmi sé tekið.
Undir þessa skoðun Ólafar hljóta allir að taka. Það er auðvitað hrikaleg byrði að sitja uppi með 75 milljarða króna vaxagreiðslu, takmarkar verulega getur stjórnvalda til að haga rekstri ríkisins á þann hátt sem skynsamlegur er. Um þetta segir Ólöf í lok greinar sinnar:
Það er mjög mikilvægt að ná fram hallalausum rekstri ríkissjóðs og enn mikilvægara er að þær tekjur sem koma til vegna sölu ríkiseigna hverfi ekki í þá botnlausu hít sem núverandi rekstur ríkissjóðs er. Við getum ekki lagt þær byrðar á komandi kynslóðir að láta þær sitja uppi með skuldir okkar, því er mikilvægt að vinna markvisst að því að lækka þær hratt.
Nei, líklega taka ekki allir undir með Ólöfu. Ráðherrar velferðarstjórnarinnar munu án efa vinna henni allt til foráttu: Hún er til dæmis sjálfstæðismaður, hún er stjórnarandstæðingur og engin ástæða er til að selja eignir ríkissjóðs ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.