Afspyrnuslæm fjármaálstjórn velferðarstjórnar
16.8.2011 | 14:44
Þrátt fyrir stórhækkaða skatta vinstri velferðarstjórnarinnar hafa tekjur ríkissjóðs ekki hækkað, þvert á móti hafa þær lækkað. Fjármálaráðherra reynir síðan að fela þessa staðreynd með því að gorta af útgjaldalækkun, rétt eins og hún hafi orðið til vegna pólitískrar stefnumörkunar norrænu velferðarstjórnarinnar.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fjármálaráðherra, ritar grein í Fréttablaðið í dag og skorar þar eiginlega Þorstein Pálsson á hólm. Heldur því fram að ótvíræður árangur hafi náðst í ríkisfjármálum, þvert á það sem Þorsteinn heldur fram.
Þegar skattar hækka, meira en helmingur heimila í landinu eiga í fjárhagserfiðleikum, atvinnuleysi hefur sjaldan verið meira, landflótti er staðreynd, fyrirtækin í landinu eiga í erfiðleikum og vermætasköpun situr á hakanum þá er ekki boðlegt fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við velferð að gorta af útgjaldalækkun.
Hvers vegna hafa útgjöld ríkissjóðs lækkað?
Steingrímur heldur því fram að halli ársins 2008 hafi verið vegna taps Seðlabankans á hrunárinu 2008. Það varð til vegna björgunaraðgerða bankans í efnahagshruni. Sú staðreynd að það kom í hlut Steingríms að bókfæra tapið segir ekkert um dugnað og hæfileika hans eða ríkisstjórnarinnar.
Á árinu 2009 var hallinn 140 milljarðar krónar sem að sögn Steingrím hefði getað orðið meiri ef ekki hefði komið til aðalds- og niðurskurðaraðgerðir. Eru það hæfileikar eða forsjálni að skera niður ríkisútgjöld við svona aðstæður? Það hefðu allir fjármálaráðherrar þurft að gera, skiptir engu úr hvaða flokki þeir hefðu komið. Niðurskurður var eina ráðið. Samt var tapið 140 milljarðar. Hvers vegna? Stóð Steingrímur sig ekki í stykkinu? Gat hann ekki gert neitt á þessu ári en það sem sjálfsagt þykir?
Umfangsmiklar aðgerðir á árinu 2010 ... segir Steingrímur. Engu að síður var hallinn á rekstri ríkissjóðs þetta ár um 123 milljarðar króna. Hvað klikkaði eiginlega hjá Steingrími? Eða var stærsti hluti hallans útgjöld sem hann sjálfur stofnaði til með því að leggja fjármuni ríkisins í einhver fyrirtæki sem hann vildi rétta við? Hann einkavæddi jú bankana en fékk ekkert fyrir ... Hvað með Sjóvá, Sparisjóð Keflavíkur ...? Hefðu kannski útgjöldin getað verið lægri?
Í ár áætlar fjármálaráðherrann að tap ársins verði 37 milljarðar. Og ráðherran gumar af því að líkast til verði tekjur hærri en gjöld á árinu ... Hann getur auðvitað spekúlerað um það eins og við hin.
Hvers vegna aukast ekki tekjur?
Aðalatriðið eru ekki útgjöldin þó svo að þau séu vissulega mikilvæg. Það sem mestu máli skiptir er að sjálfsögðu tekjuöflun ríkissjóðs. Þrátt fyrir stórhækkaða skatta og gjöld sem velferðarstjórnin hefur staðið fyrir hafa tekjur ríkissjóðs lítið breyst. Eiginlega hafa þær lækkað. Hvað klikkaði þá? Jú, Steingrímur er einn af þessum gamaldags pólitíkusum vinstra liðsins sem hefur ekki skilning á hvetjandi áhrifum ríkisvaldsins.
Velferðarstjórnin skilur ekki að koma þarf atvinnulífinu í gang svo verðmæti skapist. Hún skilur ekki að á annan tug þúsunda landsmanna sem hefur ekki vinnu skapar ekki verðmæti. Hún skilur ekki að þeir Íslendingar sem flýja atvinnuleysið til útlanda skapa ekki veltu hér á landi.
Á meðfylgjandi töflu má sjá hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa þróast. Þarna sést svart á hvítu að eiginlega hefur ekkert breyst nema tíminn. Ekkert hefur verið gert til að koma atvinnulífinu í gang.
Hvernig hefði nú ríkisreikningurinn fyrir síðustu ár litið út hefði velferðarstjórnin fengið því ráðið að Icesave skuldbindingin hefði verið lögð á landsmenn? Hafi fjármálaráðherrann einhvern tímann talið að ríkisstjóður gæti ráðið við Icesave klafann, þann fyrri eða seinni, þá hlýtur hann að hafa í pokahorninu einhverja fjármuni. Kannski væri hægt að efla samgöngur útfrá höfuðborgarsvæðinu, undirbúa aðstöðu fyrir erlend fyrirtæki sem hugsanlega vilja fjárfesta hér á landi, ráðast í virkjanir ... Nei, ég held að Steingrímur sé jafnblankur og ríkissjóður. Hann var bara orðinn þreyttur á þessu þrasi um Icesave og taldi sér og mörgum öðrum trú um að klafinn væri eitthvað annað.
... eða ef til vill væri hægt að losa þjóðina við þessa ómögulegu ríkisstjórn sem ekkert gerir en segist vera á fullu. Ugglaust er afskaplega gaman að vera í ráðherra en þegar ekkert gerist kárnar gamanið fyrir þjóðina.
Ég er fyrir löngu orðinn þreyttur á þesssari ríkisstjórn. Í raun og veru hefur hún ekkert gert, þykist hafa stuðlað að sparnaði og staðið fyrir niðurskurði en þess í stað hefur nú valdið tug milljarða útgjöldum sem hún heldur að við, almenningur, séum búin að gleyma. Og fjármálaráðherrann hefur eiginlega ekkert gert annað en það sem allir fjármálaráðherrar hefðu gert við þessar kringumstæður, skorið niður ríkisútgjöld. Hins vegar hefur hann eða velferðarstjórnin aldrrei nokkurn tímann hvatt þjóðina til dáða. Í þau fáu skipti sem ríkisstjórnin hefur ætlað að stappa stálinu í landsmenn hafa efndirnar verið svik á borð við skjaldborgina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þó skárri en íhaldið. Guði sé lof fyrir að vera laus við hana. Guð gefi að langt verði þangað til að það komist aftur til valda. Vonandi aldrei. Við verðum lengi að borga voðaverk íhaldsins.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 16.8.2011 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.