Tapa réttinum að finna að öðrum
15.8.2011 | 11:00
Margir blaðamenn á Morgunblaðinu eru vel skrifandi og láta frá sér fara góðar og málefnalegar greinar. Pétur Blöndal er einn þeirra. Hann skrifaði góðan pistil í Morgunblaðið í morgun. Ræðir þar um gagnrýni og rökræður og rökvillur á íslenska mátann. Hann segir:
Það er áhyggjuefni hversu oft forystumenn ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, svara gagnrýni með upphrópunum og gífuryrðum, einkum þegar málstaðurinn er vondur. Á meðan vinstri flokkarnir vilja draga aðra til ábyrgðar, axla þeir enga ábyrgð sjálfir og tíðka í ofanálag þann leik að liggja á upplýsingum og hamla með því upplýstri umræðu í þjóðfélaginu. Kannski er ekki að furða að orðræðan í þjóðfélaginu sé svona bjöguð þegar þetta er dæmið sem við höfum fyrir okkur.
Dýrmæt lexía í heimspeki á sínum tíma var að greina rökvillur. Ein algeng og alvarleg rökvilla eru persónurök, þá er grafið undan málstað andstæðingsins með því að ráðast á persónuna sjálfa. Það þekkja allir dæmi slíks úr samtímanum. Skylt því er að upphefja eigið ágæti, eins og málstaðurinn verði réttari fyrir vikið. Það er til dæmis ekki nægjanlegt að hafa doktorsgráðu til að höndla sannleikann, öfugt við það sem margir háskólamenn halda sannleikurinn finnst ekkert síður á flæmska hattinum eða í búningsklefa Magna frá Grenivík.
Post hoc-rökvillan er einkar áhugaverð, en hún felst í því að álykta, að þar sem eitt hafi gerst á eftir öðru, þá hljóti hið fyrra að hafa orsakað það síðara. Eftir hrunið hefur ástundun þessarar rökleysu nánast orðið þjóðaríþrótt.
En þrátt fyrir allt er gagnrýnin umræða mikilvæg. Með það í huga er athyglisverð deilan sem varð meðal Fjölnismanna um það hvernig taka ætti gagnrýni. Eftir að Tómas Sæmundsson var farinn heim til Íslands, hafði fengið brauð á Breiðabólstað, þá hafði hann ekki þau áhrif á ritstjórnarstefnu Fjölnis sem hann hefði kosið. En hann sendi vinum sínum í Höfn tóninn í bréfum og einna markverðust er gagnrýnin í bréfi frá 1. ágúst árið 1836:
»En eitt er eftir, sem við höfum ekki komið okkur saman um, og það er: Hversu á að taka þeim sem gerast til að skrifa á móti okkur? Ég er óvenju liberal í því efni, því mér sýnist við tapa réttinum að finna að öðrum (sem ég þarf þó svo mikið á að halda) nema við séum góðir til að taka annarra mótsögnum.«
Þetta síðasta sem Pétur hefur eftir Tómasi Sæmundssyni finnst mér aldeilis vel að orði komist og rökhugsunin tæmandi.
Auðvitað er það svo að sá sem ekki getur tekið gagnrýni sem sett eru fram með rökum er fyrirfram búinn að dæma sig úr leik ætli hann sér að gagnrýna aðra. Þetta er án efa ástæðan fyrir því að Pétur nefnir forsprakka ríkisstjórnarinnar í upphafi tilvitnunarinnar.
Þó ekki væri annað mætti kannski hér nefna nafn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hversu margir hafa ekki ráðist á þann mann með offorsi og hversu fáir andstæðinga hans hafa rætt málefnalega stjórnmálaskoðun mannsins?
Önnur hlið á þessum tengingi er sú að dæma alla stjórnmálaumræðu einstaklings vegna skoðunar hans á einstökum málum. Þetta er gryfja sem margir hafa fallið í, ekki síst sjálfstæðismenn.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég er ósammála honum. Hins vegar finnst mér Þorsteinn oft skrifa reglulega vel og rökfast um ýmis mál og því hef ég hann í hávegum og tek mark á því sem hann segir. Mættu fleiri taka á málum eins og Þorsteinn. Á móti kemur að oft er ráðist á Þorstein og málflutningur hans gagnrýndur í ljósi ESB mála þó svo að hann tali um allt annað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.