Með frábærum KR-ingum á bikarúrslitaleik

DSC_0134

Mikið óskalega skemmti ég mér vel á Laugardalsvellinum í gær. Þar áttust við KR og Þór frá Akureyri í nokkuð góðum útslitaleik í bikarkeppni KSÍ. Og í fögnuði mínum gerist ég kannski helst til persónulegur í þessum pistli mínum.

Jú, veðrið var frábært og öll umgjörð leiksins var til fyrirmyndar, raunar miklu skemmtilegri en leikurinn sjálfur. Mikið stuð strax og inn á leikvanginn var komið. Stuðningsmenn beggja liða voru í banastuði og hreint ótrúlega gaman að fylgjast með þróttmiklum hvatningarsöngvum Þórsara og ekki síður KR-inga.

Þarna var alveg stórkostlegt að vera og ekki spillti félagsskapurinn fyrir. Ég og frændur mínir Tyrfingur Kárason og Kári Steinn Benediktsson sammæltum okkur á völlinn. En svo bættust við fleira frábært fólk. Fyrst ber að telja þrjú afabörnin mín, Íris (fjögurra ára), Rakel (tvegga ára( og Unnur (fimm mánaða) og þær eru allar Grétarsdætur. Fengu að fara á völlinn og fylgjast með pabba sínum spila með KR. Eftirtektin var nú svosem ekkert til fyrirmyndar. Vissu líklega fæst af því sem fram fór en engu að síður voru allar í KR-treyjum og mjög stoltar af því.

En þarna voru fleiri góðir KR-ingar. Fyrsta skal auðvitað telja tengdadóttir mína hana Sonju Arnarsdóttur og foreldrar hennar og ömmu. Bróðir Sonju er Viktor Bjarki, leikmaður KR. Álfrún Pálsdóttir, kona hans, var auðvitað á leiknum sem og Halla, þriggja ára, dóttir hennar. Halla sat í fangi mínu hluta leiksins enda kallar hún mig yfirleitt afa rétt eins og frænkur hennar gera.

Mér þótti líka ákaflega vænt um að sjá gamlan kunningja á vellinum og sá kastaði hvatningarkveðju til okkar. Þetta var KR-ingurinn Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir lítur bara betur út en ég bjóst við miðað við þá ofboðslegu árás sem skipulögð var að honum af meirihluta vinstri manna á Alþingi. Þessi málarekstur hlýtur að taka óskaplega mikið á hann og fjölskyldu hans. Þau eiga stuðning minn óskiptann enda Geir mikill sómamaður.

Og Þórsararnir töpuðu. Fullyrða má að það hafi verið naumt tap, þeir skoruðu eitt og KR-ingar annað, en því miður fyrir Þór voru þau bæði í mark norðanmanna.

Við stuðningsmenn KR fögnuðum bikarnum. Ég segi „við“ en verð endilega að taka það fram að ég ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Og hvað með það, jú, þar var Valur upphaf og endir tilverunnar fyrir fríska stráka og innst inni er maður rauður ... Og ekki endar ruglið þar hjá mér. Ég er orðinn svo mikill landsbyggðarmaður að ég hefði vel getað unnt Þór sigri. Hef áður sagt það og endurtek hér að góður árangur liða utan höfuðborgarsvæðisins í íþróttum hefur mikið að segja fyrir landsbyggðina. Lífið er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Fólk ætti bara að prófa að flytjast út á land. Þvílík paradís að búa þar víða, t.d. fyrir barnafólk.

Meðfylgjandi mynd er af KR-fjölskyldunni ásamt Vilhelm Bjarka Viðarsyni, fóstursyni Grétars, og Kára Steini Benediktssyni, frænda okkar (fyrir miðri mynd). Sagan af honum er alveg stórkostleg. Hann er sonur systurdóttur minnar, Úllu Káradóttur, og Benedikts Bogasonar. Benni er mikill Frammari og börnin þeirra fjögur hafa eðlilega ekki farið varhluta af skipulagðri innrætingu lögmannsins í fótboltafélagsmálum. Nema hvað, Kári Steinn, stóð varla út úr hnefa, rétt farinn að tala, þegar hann lýsti því yfir að hann væri KR-ingur eins og Grétar frændi, og þannig hefur það verið síðan. Frammari er hann sko ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband