Góðar greinar í Mogganum í morgun

Einn af mörgum ágætum blaðamönnum Morgunblaðsins er Pétur Blöndal. Hann er skemmtilega ritfær og í ofanálag ágætlega hagmæltur. Til skiptist rita blaðamennirnir í dálk á miðopnunni sem einfaldlega nefnist Pistill. Í morgun er komið að Pétri og hann segir i upphafi í tæru gríni:

Hann varð undrandi maðurinn sem gripinn var við að fara út með ruslið á Snæfellsnesi. Þar voru liðsmenn nýrrar eftirlitssveitar sem leitar uppi fólk í svartri vinnu. Það var gripið í öxlina á kauða og hann spurður: „Hvað ertu að gera?“ Ekki stóð á svari: „Konan mín segir að ég geri nú mest lítið.“ 

En skammt er í alvöru málsins hjá Pétri og hann segir eftirfarandi sem ég get fyllilega tekið undir:

En þrátt fyrir allar skattahækkanirnar standast ekki áætlanir um að loka gatinu á fjárlögum og skeikar þar tugum milljarða. Á sama tíma og stjórnvöld eru upptekin við leitina að nýjum skattstofnum og fólki í svartri vinnu bólar hvergi á frumkvæði að framkvæmdum sem áttu að ýta undir hagvöxt og lofað var í tengslum við gerð kjarasamninga. 

Og Pétur gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega:

Það er líka áhyggjuefni að margar þær framkvæmdir sem talað er um að ríkið ráðist í eru óarðbærar og óskynsamlegasta hugmyndin af þeim öllum er að reisa nýjan spítala. Engin þörf er á því að setja skattpeningana, sem skrapað hefur verið saman úr skjóðum landsmanna, í steinsteypu á sama tíma og ekki eru til peningar til að borga læknum viðunandi laun. Það var vægast sagt auðmýkjandi þegar velferðarráðherrann fór bljúgur í norska fjölmiðla með bónina: „Ekki taka frá okkur læknana.“ Og það er glöggt dæmi um viljaleysi stjórnvalda til að ráðast að rót vandans.

Annar en ónefndur blaðamaður ritar Víkverja á bls. 23. Sá hefur svo meinholla sýn á lífið að maður fyllist aðdáun, en auðvitað er hann bara að spauga:

Golf er dæmi um algerlega tilgangslausa iðju. Þetta er leikur sem gengur út á að slá kúlu ofan í holu. Síðan þegar kúlan er komin á sinn stað er hún tekin upp úr og aftur reynt að slá hana í holu.

Önnur tilgangslaus iðja sem margir borga fyrir er að veiða lax. Hámark fáránleikans er að rembast eins og rjúpan við staurinn við veiðarnar og sleppa laxinum svo þegar búið er að veiða hann. Það ætti auðvitað að kæra fólk fyrir brot á dýraverndunarlögum fyrir svona fáránlegt athæfi. Það er þá meira vit í því að fara á sjóstöng. Þar getur maður mokað upp afla á skömmum tíma og haldið síðan með hann heim í frystikistuna. Ef vel aflast ætti hann að duga fram að jólum. Talandi um jólin, er nokkurt jafn tilgangslaust fyrirbæri til og jólin?  

Eftir misheppnaða ferð í gær á golfvöllinn er ég fyllilega sammála blaðamanninum. Þvílík della að eltast þetta við kúlu og berja hana með sérhönnuðum kylfum. Svo skoppa kúlurnar út og suður og sjaldnast fyrr en um síðir ofaní þess holu sem um er rætt. Ég hef líka tekið þá ákvörðun að hætta golfiðkun, fer kannski út á völl seinnipartinn og tékka á því hvort einhverjar breytingar hafi orðið á lunderni kúlanna frá því í gær.

En mikið bölvuð vitleysa er þetta í blaðamanninum þegar hann ræðir um jólin. Þau eru fyrir kaupmanninn svo hann megi lifa því kristnihaldið hefur lotið í lægra haldi fyrir mammon. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góður!!

Gunnar Heiðarsson, 8.8.2011 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband