Hvað á fráfarandi forstjóri Bankasýslunnar við?
5.8.2011 | 08:54
Þá hefði gætt þeirrar tilhneigingar að aðrar leikreglur ættu að gilda um Landsbankann en aðra banka, en hann er í meirihlutaeigu ríkisins. Dæmi um þetta væri frumvarp til upplýsingalaga og þá stöðu að laun bankastjóra Landsbankans eru ákvörðuð af kjararáði. Ljóst sé að laun bankastjóra Landsbankans standist ekki samanburð og sé það óviðunandi.
Þetta eru sláandi orð sem birtast í frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu í dag, föstudag, og þarfnast skilyrðislaust nánari skýringa. Þau eru höfð eftir Elínu Jónsdóttur, sem var að segja af sér sem forstjóri Bankasýslu ríkisins. Hún vill ekki tjá sig neitt um ástæður afsagnar sinnar en vísar til inngangs forstjóra í ársskýslu stofnunarinnar þar sem ofangreind tilvitunun er fengin.
Margir hafa undrast hversu mikið Landsbankinn hefur verið á skjön við allar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hann hefur fengið selt fyrirtæki á afar skrýtnum forsendum sem hafa sjaldnast verið í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstjornarinnar um gagnsæi í bankamálum.
Orð fráfarandi forstjóra Bankasýslunnar benda til að ekki sé allt sem sýnist. Landsmenn hafa fengið nóg af vandamálum vegna banka frá hruni. Sú grunsemd að ekki sé enn allt með felldu í eina ríkisbankanum veldur eflaust fleirum en mér ónotum. Held þó að það þurfi frískan þingmann frá stjórnarandstöðunni til að krefjast frekari upplýsinga frá fjármálaráðherra. Þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa fyrir löngu hætt að verja hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.