Erfiðleikar Grikkja eru illviðráðanlegir

Margt hefur verið skrifað, skrafað og fundað um vandamál Grikkja. Bent hefur verið á að mikill munur sé á menningu og viðhorfum þeirra og þjóða norðar í álfiunni. Oftar en ekki eru Þjóðverjar dregnir til samanburðar og bent á hversu skipulagðir og agaðir þeir séu, ekki síst í fjármálum.

Þannig má eflaust stunda mannjöfnuð að reyna að gera lítið úr einum á kostnað annars. Ég dvaldi um tíma á Grikklandi fyrir nokkrum árum og varð dálítið hugsa yfir þjóðarbragnum. Margt heillaði mig en yfir öðru varð ég forviða. Síðan hef ég aflað talsverðra upplýsinga um þjóðina og þjóðarbúskapinn og margt af því er ekki til eftirbreytni. Ég vil þó taka það fram að Grikkir eru stórkostleg þjóð og óvíða hef ég kynnst meiri manngæsku og hlýju en þar í landi.

Ég man sérstaklega eftir umferðarmenningu Grikkja. Mér fannst eins og umferðarreglur væru svona í besta falli einhvers konar viðmiðun en ekki óbreytanlegur fasti eins og við flest álítum. Ef til vill er þetta viðhorf skýringin á hrakförum grísku þjóðarskútunnar.

Þetta leiðir hugann að því hvers vegna Grikkjum veitist erfitt að komast úr efnahagslegum þrengingum og hvers vegna skuldastaðan er svona mikil. Mér skilst um áratugi hafi tíðkast að falsa ríkisreikningana svo þeir líti betur út fyrir Evrópusambandið. Lítið hafi verið gert úr skuldastöðu ríkisins fyrr en allt var komið í bál og brand.

Nú er þess krafist að Grikkir vendi um og taki á sínum málum. Rætt hefur verið um skattahækkanir, hækkanir á virðisaukaskatti, vaxtahækkun og fleira.

Borin von er að þetta skili sama árangri og í norðurhluta Evrópu. Staðreyndin er sú að það tíðkast almennt ekki að greiða skatta á Grikklandi. Aðeins lítill hluti þjóðararinnar greiðir skatta. Virðisaukaskattkerfið er vanþróað, gríðarlegur fjöldi fyrirtækja greiðir ekki skatt.

Það vantar þó ekki að Grikkir eru duglegir. Út um allt eru litlar verslanir, hótel og veitingastaðir, flest allt lítil fjölskyldufyrirtæki, sem greiða engan virðisaukaskatt af starfseminni og komast auðveldlega upp með það.

Einna helst er að vaxtahækkanir muni skila árangri en það þýðir einfaldlega hið sama og hér á landi. Markaðsverð eigna, ekki síst íbúða, hefur hrunið í Grikklandi eins og víða annars staðar og vaxtahækkun eykur aðeins á þann klafa sem hinn almenni húseigandi á við að etja.

Þegar upp er staðið og litið framhjá staðbundnum aðstæðum í hverju landi kemur í ljós að ástæðan fyrir erfiðleikum er óráðsía banka og fjármálastofnana, ótrúleg fjárráð þeirra hafa valdið offjárfestingu í húsbyggingingum af ýmsu tagi og við það hafa markaðir hrunið.

Sama er með framúrkeyrslu ríkissjóðs Grikklands sem og fjölmargra landa. Skuldastaða þeirra er afar slæm og vermæltasköpunin lítil sem engin og hagvöxtur hefur stöðvast.

Og nú er ætlunin hjá ESB að láta skattheimtuna draga vagninn, koma í veg fyrir tap fjármálastofnana sem voru fyrir hrun óhræddar að lána til fjölmargra ríkja sem raunar átti fyrir í miklum erfiðleikum.

Ekki aðeins eiga Grikkland, Ítalía, Spánn, Portúgal, Írland og Belgía í vanda. Bandaríki Norður Ameríku hafa lengi átt í sama vanda en hafa getað rúllað honum á undan sér vegna stærðar sinnar.

Margir sérfræðingar eru á þeirri skoðun að annað hrun sé yfirvofandi. Evrusvæðið eigi t.d. ekki neinn möguleika til framtíðar vegna þess hversu ólík ríki ESB eru innbyrðis og samræmdar kröfur til innri fjármála veikar. Svo bætist þar ofaná vandi ESB sem ríkjasambands, en það er önnur saga. 


mbl.is Grikkland stöðvast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Friðriksson

Það er eins og grískur almenningur hafi ekki borgað skatta í ríkissjóð í 50 ár!

Hvernig í óskupunum getur fjárhagur landsins farið svona gjörsamlega úr böndunum!

Grikkland þarf 120 milljarða evra til viðbótar við 110 milljarða evra sem landið er nýbúið að fá og samtals gerir þetta 230 milljarða evra!...þetta er bara geðveiki!

Það gefur auga leið landið getur aldrei nokkurn tímann greitt þessa skuld til baka.

Friðrik Friðriksson, 28.6.2011 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband