Foss hefur breiða merkingu
14.6.2011 | 08:56
Nokkuð langt er síðan Morsárjökul tók að slitna og því viðbúið að í hömrunum mynduðust fossar. Sama er eflaust að gerast innst inni í Kálfafellsdal. á báðum stöðum er fallið mikið.
En hvað er foss? Ég hef oft velt þessari spurningu fyrir mér. Stórkostlegur munur er til dæmis á Seljalandsfossi og Breiðafossi í Botnsá. Sá fyrrnefndi fellur glæsilega, óslitinn, ofan af brún og niður í hylinn djúpa. Sá síðarnefndi er allt öðru vísi. Hann er bylgjast eiginlega um þrep í landslaginu en fellir í raun ekki.
Gymur er vatnsmikill og fellur ofan í djúpt gljúfur meðan Háifoss í Þjórsárdal snertir ekki hamrana að baki sér. Dynjandi fyrir vestan er einn glæsilegasti foss landsins, en fellur þó ekki óbrotinn heldur kembist niður hamrabelti, fegurri sjón er varla að finna á gjörvöllu landinu.
Einhver sýndi mér litla bunu í Grímsá (minnir mig) á Snæfellsnesi og var hún varla hefur verið meira en rúmur meter á hæð en engu að síður bar hún nafnið Fjallfoss.
Foss er í hugum okkar flestra vatnsfall sem hefur rúma merkingu. Allt frá því að vera aðeins meira en óslitið rennsli og sjáanlegt fall, meira en flúðir.
Stórfenglegir fossar í klettabelti innst á Morsárjökli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Facebook
Athugasemdir
Þessi skilgreining hefur lengi vafist fyrir mér og þá sérstaklega þegar ég starfaði sem leiðsögumaður og ferðalangar spurðu: Hvað er foss ? Ég var búinn að koma mér upp eigin skilgreiningu sem er svohljóðandi: Foss er vatnsfall með fallhæð yfir einum metra og rennsli allan ársins hring. Vatnsmagnið skiptir ekki máli, svo lengi sem það er viðvarandi.
Þetta er náttúrulega ekki nein vísindaleg skilgreining en dugði í flestum tilfellum til skýringar. Svo má kannski flokka fossana; það eru til svokallaðir slæðufossar, samanber Fjallfoss (Dynjandi) en þar ekki neitt lóðrétt frjálst fall en engu að síður er það foss.
Svo eru fossar með lóðréttu frjálsu falli og eru þeir fleiri en ég get talið upp en við þekkjum öll Gullfoss og Dettifoss ásamt mörgum fleiri fallegum fossum um allt land.
Flúðir eru svo annar handleggur, en þar er fallið takamarkað og sjaldnast meira en nokkrar gráður á heildarlengd flúðanna. En svo er kannski hægt að flokka flúðir eftir stærð. En á maður nokkuð að flokka náttúruna ? Er ekki bara best að hafa hana óflokkaða svo hún henti öllum ?
Kveðja frá Danmörku, þar sem er náttúra, en bara öðruvísi en á Fróni.
Steinmar Gunnarsson, 14.6.2011 kl. 11:04
Þakka þér fyrir innlitið, Steinmar. Þetta er vel og skynsamlega athugað og skiptingin er rökrétt.
Jú, það getur verið gaman að flokka náttúruna núorðið er þaðgert oftast til hagsbóta fyrir áhugasama ferðalanga. Náttúran hefur raunar verið flokkuð frá örófi alda. Tungumálið okkar vitnar best um það. Við eigum nöfn yfir allt sem hugsast getur í náttúrunni og þar af leiðandi er umræðan oft svo skemmtileg. Slæðufossar er fínt orð. Mætti kannski líka kalla suma fossa „fokfossa“ af því að þeir eiga það til í hvössum vindi áveðurs að fjúka upp í mót, t.d. Foss á Síðu!!
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.6.2011 kl. 11:39
Það er rétt Sigurður, að tungumálið er elsta flokkunarkerfið og ef ég man rétt eru til fossar með nöfnunum; Rjúkandi, Beljandi og Sveljandi og ekki ólíklegt að til séu fleiri nöfn í þessa veru, þ.e. með endinguna -andi.
Annars minnir endingin -andi mig á aðra góða anda sem Birgir Brynjólfsson tengdi jeppamennsku, en um þá anda þarf að skrifa sér grein.
Steinmar Gunnarsson, 14.6.2011 kl. 14:12
Rétt, Steinmar. Dynjandi og Mígandi. Fjalli var alltaf kjaftfor og sveigði tungumálið á mikilli náttúru.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.6.2011 kl. 14:59
Bara að minna á fossinn heitir Fjallfoss en ekki Dynjandi.
Sigurður Helgason, 14.6.2011 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.