Blóðskattur, ónýttur tekjustofn fyrir Steingrím
10.6.2011 | 08:15
Ég las í morgun góða grein eftir kunningja minn, Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann og formann Blóðgjafafélags Íslands. Þá datt mér í hug ónýttur tekjustofn fyrir Steingrím vin okkar Sigfússon, en hann sérhæfir sig í skattlagningu á Íslandi auk þess að vera fjármálaráðherra.
Í flestum rennur blóð, nema ef vera skyldi ríkisstjórninni. Allir framleiða blóð, svo fremi sem þeir eru á lífi. Renni blóðið ekki má gera ráð fyrir að viðkomandi sé dáinn.Nú, þessi framleiðsla er náttúruleg. Og vinsælt er að halda því fram að nýting á náttúrulegum auðlindum skuli skattleggja.
Steingrímur gæti sem best skattlagt blóð landsmanna. Gert til dæmis kröfu um það að hver Íslendingur skili 25 lítrum af blóði á ári eða borgaði í beinhörðum krónum til dæmis þúsund kall per líter. Þetta myndi þýða tekjustofn upp á 35 milljarða fyrir ríkissjóð og líklega helmingurinn innheimtist í krónum.
Þetta er auðvitað hin besta hugmynd. Ólafur Helgi Kjartansson þyrfti ekki lengur að hvetja menn til að gefa blóð, það verður beinlínis tekið. Blóðgjafafélagið verður síðan nokkurs konar áróðursapparat fyrir fjármálaráðherra og formaðurinn gæti brúkað kaskeit í embættiserindum þess.
Sé alveg fyrir mér hvernig blóðbankanum verði breytt í innheimtustofnun blóðskatts. Lögreglan dragi menn inn og léti tappa af þeim ...
Embættisheiti Steingríms gæti líka lengst. Eftirlæt lesendum um að koma með tillögur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.