Icesave tilboð bæjarstjórnar Akureyrar

Lengi hafa tíðkast tilboðin. Kunnugt er að mafían gerir tilboð sem útilokað er að hafna. Sagt er að alræmdur mótorhjólaklúbbur í Noregi lofi þarlendum margvíslegri vernd borgi þeir mánaðarlegt gjald til þeirra.
 
Jafnvel fyrrtæki sem ekki eru í mótorhjólabransanum og einstaklingar sem aldrei hafa litið slík hjól hýru auga borga sjá sitt óvænna og borga skilvíslega. Samningafundir hafa án efa verið haldnir en þeir eru einhliða.

Foreldrar barna í skólum Reykjavíkur hafa verið boðaðir á álíka samningafundi en þar hafa þeir ekki mátt mikið segja um sameiningu skóla. Allt er fyrirfram ákveðið og fundirnir einungis einungis fyrir útlitið, ef svo má að orði komast. Tilboðið var ekki til að hafna, svona gnarr-stíll.

Bretar og Hollendingar krefjast þess að íslenskir skattborgarar greiddu tap ríkissjóðs þessara landa vegna gjaldþrots banka. Íslensk stjórnvöld hafa síðustu tvö árin gengið erinda þeirra og reynt að finna út aðferðir til að fá þjóðina til að borga. Það hefur gengið illa enda ekki ljóst hvers vegna við eigum að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Og samningafundir hafa ekki verið til annars en að krefjast greiðslu, tilboðið er ekki til annars en að samþykkja.

Hverra hagsmuni á að ræða?
Bæjarstjórn Akureyrar hefur boðað bæjarstjóra Blönduósbæjar og sveitarstjórna Húnavatnshrepps á fund.
Hún vill breytingar á aðalskipulagi Blönduóss og Húnavatnshrepps svo hægt sé að stytta þjóðveginn framhjá Blönduósi. Þarna smellur saman líkingin við Icesave: Húnvetningarnir eiga að bera skaðann við vegabætur.
 
Á fundinum verður líklega lagt fram tilboð sem ekki er hægt að hafna. Nema því aðeins að bæjarstjórnin sé í einhverjum vandræðum með skoðun sína á hringveginum við Blönduós. Nei, varla, ekki frekar en að sveitarstjórn Húnavatnshrepps eða bæjarstjórn Blönduóss myndu vilja viðræður við bæjarstjórann á Akureyri um að leggja af umferðaljós á hringleiðinni í gegnum bæinn. Óumdeilt er að það myndi flýta fyrir umferðinni vestur í Húnavatnssýslur.
 
Nei, fundurinn er því miður hluti af áróðurs- og þvingunaraðgerði sem staðið hefur lengi með þátttöku Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, bæjarstjórnar Akureyrar og þingmönnum Norðausturkjördæmis og fleiri. 

Sveitarfélög í landinu bera lögum samkæmt ábyrgð hvert fyrir sig á aðalskipulagi sínu. Það er gott fyrirkomulag því þá fyrst færi nú allt í óefni þegar hreppar fara að gera kröfur til þátttöku í gerð aðalskipulags í fjarlægu sveitarfélagi. Orðið hrepparkrytur fengi þá nýja merkingu.

Húnvetningar hagnast á þjóðveginum
Og hvers vegna leggjast Húnvetningar gegn breytingum á hringveginum í gegnum Blönduós? Jú, einfaldlega vegna þess að íbúarnir hagnast beint og óbeint á þjóðveginum, hann er óumdeilanlega auðlind. Ekki aðeins kemur fjöldi fólks inn í bæinn og nýtur sér þá þjónustu sem þar er í boði heldur skipta vöruflutningar einnig miklu máli.
 
Það er mikill misskilningur að aðeins ein sjoppa hagnist. Á Blönduósi er fjöldi fyrirtækja sem ferðamenn nýta sér og það geta allir sé sem leggja leið sína um bæinn, sumar og vetur. Þvílík fáviska að halda því fram að ekki dragi úr viðskiptum á Blönduósi verði hringvegurinn færður?
 
Og Alþingi látið berja á Húnvetningum
Heimska er jafnan fylgifiskur letinnar. Nú hafa tveir tveir þingmenn Norðausturkjördæmis, þeir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson, lagt fram þingsályktunartillögu sem krefst breytinga á þjóðveginum við Blönduós og ekki spyrja þeir um vilja heimamanna.
 
Hvað vita þessir menn og hverra erinda ganga þeir? Hafa þeir lagt það á sig að kynna sér afstöðu Húnvetninga? Nei, auðvitað ekki, því hafa þeir ekki nennt auk þess sem það er ekki liður í yfirstandandi áróðurs- og þvingunaraðgerð gegn Húnvetningum.
 
Hef ég misskilið eitthvað? Ég hélt að sveitarfélög og þingmenn hefðu það fyrir reglu að ástunda samvinnu en ekki rjúka af stað með offorsi fyrir eitt sveitarfélag gegn öðru eða etja sveitarfélögum saman. Nei, engin virðing er borin fyrir náunganum heldur vegið á báðar hendur.

Forgangsröðun í samgöngumálum
Og hvað myndi ég nú segja fengi ég að mæta á fundinum með bæjarstjórn Akureyrar? Jú, ég myndi fyrir hönd Húnvetninga samþykkja háæruverðuga kröfu Akureyringanna en þó aðeins með einu skilyrði. Eitthvað verða nú Húnvetninga að græða á svona fundi nema því aðeins að hann eigi að vera ígildi Icesave samningafundar og kröfugerðar mótorhjólasamtaka í gnarr-dúr.

Að sjálfsögðu er rétt að stytta hringveginn eftir því sem kostur er. Fyrst skulum við þó lagfæra hringveginn sem og sambærilegan vegi á Vestfjörðum. Þetta er það sem ég vil setja í algjöran forgang:
  • Hringvegurinn verði allur með bundnu slitlagi.
  • Hvergi verði einbreiðar brýr.
  • Hringvegurinn verði alls staðar jafn breiður (það er hann alls ekki).
  • Skilið verði alls staðar á milli akstursstefna.
  • Af verði teknar „þúfurnar“, hringvegurinn verði einfaldlega sléttur.
  • Kröppu beygjurnar verði lagaðar af.
  • Vegarhlutar þar sem slys hafa orðið verði endurhannaðir.
  • Vegrið verði tekin upp þar sem hætta er á útafkeyrslu.
  • Öfugur hliðarhalli verði hvergi á hringveginum.
  • Lögð verði áhersla á að tvöfalda hringveginn.
Er þetta til of mikils mælst? Að minnsta kosti þykur okkur landsbyggðafólki það ekki og ég veit að þeir sem stunda ferðalög um landið í fríum eru mér sammála sem og atvinnubílstjórar, flutningafyrirtækin og aðrir þeir sem hafa hag af því að senda vörur á milli landshluta. 
 
Að sjálfsögðu samþykkja Akureyringar þetta enda eru þeir gott fólk rétt eins og aðrir landsmenn. Þeir gera sér áreiðanlega grein fyrir því að svona lagæringar munu stytta ökutímann frá Reykjavík til Akureyrar um líklega eina klukkustund. Mestu skiptir þó að vegir landsins verði öruggari en almennt er boðið er upp á í dag.
 
Og kátir getum við þá farið að huga að styttingu hringvegarins framhjá Blönduósi um 9 mínútur sem kostar aðeins 3.000.000.000 króna hið minnsta:
 
  • 300.000.000 krónur á mínútuna
  • 214.000.000 krónur á hvern kílómetra
Hvað skyldi vera hægt að klára margt af upptalningunni hér fyrir ofan fyrir þrjá milljarða króna?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband