Ár frá gosinu á 5VH, upprifjun

dsc_0862.jpg

Fyrir nákvæmlega gerðist nokkuð sem gerði það að verkum að mér krossbrá og ég fékk dálítið kvíðakast. Jú, það er rétt, þann 21. mars 2010 hófst gosið á Fimmvörðuhálsi. Nákvæmlega þá var ég staddur á heimili sonar míns og tengdadóttur og ég var að passa.

Og svo gerist það um eitt leytið að tilkynning kemur um að gos sé hafið og það sé líklega í Eyjafjallajökli. Ég var nokkuð snjall þessa nótt og dró fram tölvuna og bloggaði. Leitaði heimilda og sá m.a. að bjarminn frá gosinu sást á vefmyndavél RÚV á Búrfelli. Engum hafði hugkvæmst á þessum tíma að skoða hana. Með því að miða út bjarmann sá ég fljótt að gosið var á Fimmvörðuhálsi. En hvar? Ég var ekki viss. 

Sem sagt, mér brá við fréttirnar um gosið og að mér sótti kvíði þegar mér skildist að gosið væri á Fimmvörðuhálsi sem ég þekki svo vel. Ég var mjög svartsýnn og skrifaði þetta kl. 01:47 um nóttina:

Samkvæmt ógreinilegri mynd á mbl.is er trúlegast að eldsumbrotin séu á Fimmvörðuhálsi eða mjög neðarlega í Eyjafjallajökli austanverðum. Sama er að segja með vefmyndavélina á Búrfelli. Bjarminn virðist lýsa upp austurhlið Eyjajfallajökuls. Þetta hefur fengiðst staðfest á viðmælanda hjá fréttastofu Útvarps sem segir að kosið sé beint norðan við Skógafoss. Þar með má búast við að Fimmvörðuskáli sé farinn eftir tuttugu ár.

dsc_0215_1071539.jpg

Við hjá Útivist höfðum byggt skála á Fimmvörðuhálsi 1991, lent þar í hrikalegum vandræðum og málferlum við vont fólk, en haft sigur. Nú var ég reglulega hræddur um að Fimmvörðuskáli væri horfinn. Ég velti málunum fyrir mér og bloggaði aftur kl. 02:16 og sagði þá meðal annars:

Sé þetta rétt að gosið sé ekki í jökli þá er lítil hætta á vatnsflóði. Á móti kemur þá hraun og mikið öskufall. Fimmvörðuskáli stendur á háum hrygg og fyrir norðan hann er mikil slétta sem var áður full af ís en er nú svo til tóm. Handan sléttunnar er hryggir og þar norðan við hallar niður í Hvannárgil og nokkru austar í Hruna. 

Ég sá fram á mikið öskufall en ekki mikið hraun. Hins vegar reyndist hraunið vera mikil skemmtun fyrir fréttamenn og ferðamenn og þá var orðið „sjónarspil“ svo ofnotað að jaðraði við misnotkun.

Svo þykknaði þó í mér þegar fréttamenn fór ítrekað rangt með staðarnöfn og kölluðu Goðaland æ ofan í æ Þórsmörk. Rugl í landafræði mega ekki gerast hjá fjölmiðlum og þess vegna sagði ég í blogginu:

Svo er ekki úr vegi að beina því til fréttamanna að þeir fari rétt með staðarnöfn. Norðan undir Fimmvörðuhálsi er Goðaland og raunar fleiri svæði. Þórsmörk er norðan Krossár.

dsc_0383.jpg

Reyndar þurfti ég sífellt að þurfa að leiðrétta fjölmiðla en enginn las bloggið mitt nema vingjarnlegt fólk sem tók undir mér mér. Verra var þegar yfirvöld; lögregla, sýslumaður, almannavarnir og fleiri gáfustofnanir beruðu þekkingarleysi sitt í landafræði. Síðar átti ég samtal við lögreglumann í Básum sem vissi varla hvar á landinu hann var staddur - eða þannig ... en það er nú önnur saga.

Mér var stórskemmt þegar ég fékk hringingu um tvö leytið um nóttina frá félögum mínum, þeim Óla Þór Hilmarssyni og Reyni Sigurðssyni, fjallamönnum í Útivist, en þeir voru komnir á stjá og reyndu hvað þeir gátu til komast framhjá lögreglunni sem lokað hafði Suðurlandsvegi.

Um síðir gátu þeir komist að Keldum og sáu þar nægilega mikið til gosstöðvanna að þeir gátu staðfest við mig að gosið væri norðan í Bröttufannarfelli. Okkur félögunum var mikið létt. Fimmvörðuskáli var þá óhultur. Og þá bloggaði ég meðal annars klukkan 03:02:

Viðmælandi Rúv í Fljótshlíðinni lét svo um mælt fyrir nokkrum mínutum að gosbjarmann bæri í Rjúpnafell. Það þýðir einfaldlega að gosið er á miðjum Hálsinum. Öruggt má telja að þetta sé gos í einum gíg og úr honum komi hraun sem fellur að öllum líkindum niður í Hvannárgil. Má þá telja að Básar séu ekki í hættu en Hvannárgil er langt en mynni þess horfir í Langadal þar sem skáli Ferðafélagsins er. Fylgi hraunrennsli þessu gosi má ætla að langur tími líði þar til hraunið nái út úr gilinu nema það sé þeim mun þunnfljótandi.

Sem betur fer var ég ekki sannspár um að hraunið myndi ná út úr Hvannárgili. Hraun féll ekki í það fyrr en í lok gossins. Mest féll í Hrunárgil, það tók lengi við og entist gosið ekki til að fylla það né að koma hrauninu út úr gilinu.

Næst bloggaði ég kl. 04:41 og skammaðist þá enn einu sinni vegna bágborinnar landfræðiþekkingar fréttamanna og annarra sem um gosið fjölluðu.

Eftir þetta fór ég bara að sofa. Sem betur fer voru barnabörnin góð og vær og ég gat haft mína hentisemi í blogginu.

Sex tímum síðar vaknaði ég með andfælum, datt í hug, eiginlega í svefni, að nota myndir og kort með pistlunum. Það reyndist hið mesta þjóðráð enda var mikil þörf á slíku.

kort.jpg

Á meðfylgjandi korti sem fengið var að láni hjá ja.is hefur sprungan verið merkt inná með rauðum lit. Þó er ekki víst að hún sé svona löng. Gossprungan er í stefnunni norðaustur, suðvestur sem er nokkuð þvert á hefðbundnar stefnur á Hálsinum en þá liggja flestar í austur vestur. Smella má á mynd og kort til að stækka.

Þar sem gossprungan er hallar niður í eitt af afgilum Hvannárgils. Hallinn er lítill á þessum slóðum en eftir því sem komið er nær gilinu eykst hallinn.

Ég held að nákvæmlega á þessum slóðum hafi orðið eitthvað jarðsig fyrir nokkrum árum. Margir töldu það fyrirboða um eldsumbrot en svo gerist ekkert fyrr en mörgum árum síðar.

Samkvæmt myndum virðist hraunrennslið ekki vera mikið og öruggt má telja að ekkert bendi enn til þess að hraun sé farið að renna niður í Hvannárgil. 

Kortið var eiginlega með þeim fyrstu sem birtust og sýndu staðsetningu gossins. Önnur kort birtust ekki fyrr en líða tók á daginn. Eftir þetta skrifaði ég hver pistilinn á fætur öðrum og afköstin voru slík að ég náðu óskiljanlegum hæðum á vinsældarlista bloggsins á mbl.is, nokkuð sem ég hafði aldrei hugsað um. Var svona frekar montinn þegar heimsóknir náðu dag eftir dag yfir tuttugu þúsund. Mest urðu þær 24.292 þann 28 mars. Það met held ég að ég muni seint slá.

Mestu skipti um vinsældir bloggsins að ég notaði kort og myndir. Setti örnefni inn á myndir, lýsti staðháttum og reyndi að gefa lesendum mínum eins góðar upplýsingar og þekking mín leyfði. Því miður fór ég stundum fram úr mér. Enga þekkingu hef ég til dæmis á jarðfræði en lét það bar alls ekki trufla frásögnina og fékk stundum bágt fyrir. Það sem gladdi mig þó mest voru vinsamlegar athugasemdir, hrós og hvatningar sem ég fékk á meðan ég skrifað um gosið á Fimmvörðuhálsi og síðar í Eyjafjallajökli.

Toppurinn var að birta góða pistla með skýringarmyndum og kortum. Verst var að fara rangt með og það alversta var eitt sinn er ákefðin þeysti fram úr skynseminni og ég bullaði eitthvað um jarðskjálfta á 99 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Vinsamlegir lesendur bentu mér í kurteisi á að ég hefði mislesið töflu um jarðskjálfta hjá Veðurstofunni og tekið 99% áreiðanleika fyrir 99 km dýpi. Ég eyddi færslunni um leið og þetta komst upp og hef skammst mín síðan.

img00107-20110312-1503.jpg

Jæja, þessi færsla var nú bara til minningar um gosið á Fimmvörðuhálsi. Þykir afar vænt um þann stað rétt eins og Eyjafjallajökul þó hann sé nú mikið spjallaður.

Örlögin höguðu því þannig að aldrei komst ég að gosstöðvunum meðan Óli Þór og Reynir vinir mínir voru þar nánast fastagestir og sáu jafnvel jörðina rifna og nýjan eldgíg verða til. Ég fékk einhverja fjandans flensu og komst ekki á ról fyrr en í lok gossins og þá var eiginlega allt fjörið búið. 

Áðurnefndir félagar mínir gengu um daginn á á Eyjafjallajökul og lituðust um við gíginn. Auðvitað átti ég að vera þar en hvar var ég þess í stað?

Jú, ég var að passa barnabörnin, rétt enn einu sinni. Þeim hafði nýlega fjölgað um eitt. Og hvaða sjéns á einn jökull á móti þremur fallegum börnum. Ekki nokkurn!

En félagar mínir spyrja í forundran hvers konar kelling ég sé orðinn. Meðfylgjandi mynd létu þeir helvískir taka af sér, glottandi þarna við gíginn stóra, Guðnasteinn í baksýn. Og svo símsendu þeir mér hana bara til að ergja mig. Mér er svosem alveg sama, þetta hefur örugglega verið hundleiðinleg ferð ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Er allur hiti farinn úr gýgnum ? Þessum sem myndaðist þann 13. Apríl 2010.

Jón Frímann Jónsson, 22.3.2011 kl. 11:32

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Síðast er ég kom þarna var sjóðandi hiti. Séð myndir af glóandi hrauni undir. Næst ætla ég að grilla þarna lærasneiðar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.3.2011 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband