Fólk sem fórnar sér svo aðrir megi lifa

Hver er drifkraftur manna þegar hætta steðjar að? Mbl.is segir frá Líbíumanninum Mohammed Nabbous sem setti myndir um uppreisnina gegn Gaddafí á netið. Hann féll enda var hann líklega þegar orðinn skotmark hins alræmda einræðisherra sem þó þykist ekki annað hlutverk hafa en að vera byltingarleiðtogi. Sem slíkur hefur hann kvalið þjóð sína í þrjátíu ár.

Túnisar og Egyptar gengu fylktu liði út á göturnar, mættu byssukjöftunum og fjölmargir týndu lífi svo aðrir ættu vonarglætu um betri tíð. Í Túnis hófst byltingin með því að spillt lögregla valdstjórnarinnar hirti sölukerru af manni nokkrum sem hét Mohamed Bouazizi og þar með var fótunum kippt undan tilveru hans. Hann gat ekki lengur unnið fyrir sér og safnað peningum til að stofna fjölskyldu. Þessi sorglega saga endaði með því að hann hellti bensíni yfir sig og bar eld að um miðjan desember sl. Hann dó á sjúkrahúsi nokkru síðar og þann 14. janúar  hrökklaðist einræðisherrann Zine El Abidine Ben Ali frá. Þannig varð mótspyrna og andlát fátæks sölumanns upphafið að frelsisbyltingu. 

Fjölmiðlar hafa sagt frá hetjulegri baráttu slökkviliðsmanna og starfsmanna Fukishima kjarnorkuversins í Japan. Þrátt fyrir stórhættulega geislavirkni gera þeir sitt besta til að koma rafmagni á verið svo hægt sé að setja kælikerfið í gang. Þyrluflugmenn setja sig í stórkostlega hættu þegar þeir flytja vatn sem kastað er yfir verið. Allt gert til að tryggja öryggi samborgara sinna.

Þekktar eru sögur af slysinu í Chernobyl í Úkrainu. Hundruðir mann unnu hið óeigingjarnasta starf sem hugsast getur. Þeir komu í veg fyrir áframhaldandi geislamengun frá ónýtum kjarnaklúfi með því að hylja hann sandi og steypa loks yfir. Fyrir þetta máttu þeir gjalda með heilsu sinni og loks lífi. Þeir fórnuðu sér fyrir aðra.

Hvað fær fólk til að fórna heilsu sinni eða lífi á þennan hátt? Mannkynssagan er greinir frá svona fórnum karla og kvenna. Án efa hafa óteljandi þannig sögur glatast eða týnst og kannski fáir verið eftir til að segja frá. Lítum bara á uppgröftin í Pompeii, loftrýmin í vikrinum sem fyllt voru með gifsi og til urðu myndir af síðustu andartökum fólks sem reyndi allt hvað það gat til að verja börnin með líkama sínum. 

Grimmd mannkynsins er margrædd klisja en góðmennskan er því ábyggilega í blóð borið og flestir kjósa sér ekkert annað en frið svo þeir átt börn, alið þau upp, brauðfætt fjölskylduna og glaðst með henni og vinum á góðri stund og syrgt þegar svo ber undir. Við viljum ábyggilega öll vera í friði - í orðsins fyllstu merkingu, og flestir eru tilbúnir til að leggja mikið fyrir friðinn.


mbl.is ,,Ég er ekki hræddur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Svo sannarlega er grimmdin mikil, en hjartahlýjan og að gera allt sem hægt er til að bjarga er afar sterk í okkur.

Hver og einn verður var við það í sínu samfélagi ef sorg sækir að, þá standa allir saman og það er góð tilfinning að fá að taka þátt.

Það sem er að gerast í heiminum í dag er nauðsynlegt þó hart sé að taka svo til orða.


Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.3.2011 kl. 10:36

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Nokkrir Íslendingar hafa fórnað sér fyrir kvótakerfið, td.reyndi Ásmundur trillukarl að færa Íslendingum mannréttindi sín aftur, að fá að róa til fiskjar

á litlum bátum og mega fénýta aflann.

Þessar hetjur vita og vissu að frjálsar handfæraveiðar leysa byggða,

fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga, ekki væri þörf á meiri lántökum

væri hlustað á þá.

Aðalsteinn Agnarsson, 20.3.2011 kl. 20:06

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Maður þessi, Mohammed Nabbous, er sem aðrir þúsunda sem fórnuðu sér til þess að aðrir mættu lifa.

Við eigum í þakkarskuld við fjöldann allan hvers nöfn við ekki alltaf höfum á takteinum, þó eru nokkur þeirra á meðal, t.d Nordahl Grieg, norski flugmaðurinn og skáldið sem skotinn var niður í flugvél yfir Berlín 1943 til að verja frelsið gegn rangsleitninni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 20.3.2011 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband