Hver er eiginlega týndur?
6.3.2011 | 22:10
Ég er enn að bíða eftir sófaliðinu sem bölsótast á bloggsíðum yfir því að fólk gangi á jökla og til þess eins að þurfa að láta sækja sig.
En mikið skrambi öfunda ég þessa vösku skíðamenn á jöklinum. Gæti trúað því að þeir séu að ljúka skíðaferð á Öræfajökli, komið jafnvel yfir jökulinn frá Kverkfjöllum.
Svona á fólk að gera. Takast á við náttúruöflin og sigrast á þeim. Betra en að verða kransæðastíflunni að bráð í sófanum heima.
Einkenni sófaliðisins er þung umtalseitrun. Til skýringar skal þess getið að þetta er hraðsoðið nýyrði og á við um þá sem aldrei hafa lent í aðstæðum sem þessum en tala af mikilli speki um þær, venjulegast á niðrandi hátt.
Meðfylgjandi mynd var tekin á Vatnajökli fyrir mörgum árum. Veðrið var snælduvitlaust og hafði verið svo í þrjá daga og við félagarnir hröktumst hjálparlaust niður. Hef sjaldnast séð það verra nema nokkrum sinnum á Fimmvörðuhálsi. Þá týndist einn af þessum rauðklæddu, raunar sá sem er lengst til hægri á myndinni, og þurfti þyrlu til að finna hann. Þá var hann raunar kominn af Hálsinum og því fræðilega séð ekki lengur týndur. Síðan hefur verið deilt um hver sé týndur, sá sem ekki finnst eða hinir, sem sá sem er týndur finnur ekki. Á þennan hátt verða til heimspekilegar vangaveltur sem leiða ekki til neins.
Göngumenn sóttir á snjóbíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Facebook
Athugasemdir
Þessir menn sem þarna eiga í hlut voru greinilega vel búnir og höfðu þekkingu á því sem þeir voru að gera. Engin hætta steðjaði að þeim og þeir vissu nákvæmlega hvar þeir voru.
Það verður hins vegar ekki sagt um snjósleðamennina sem sóttir voru í Hrafntinnusker. Þeir voru illa búnir og af viðtali við þann sem þurfti að graf sig í fönn, var ekki að heyra að hann hefði nokkurntímann lent í alvöru snjóbyl. Það er hægt að gagnrýna slíkt framferði.
Gunnar Heiðarsson, 7.3.2011 kl. 16:21
Það er margt hægt að gagnrýna í fjallaferðum fólks bæði á sumri sem vetri, en ég dáist af þeim sem koma sér upp úr sófanum eins og þú kallar það Sigurður.
Ég telst til þess hóps nú orðið, en var það eigi hér á árum áður, var iðin við ferðalögin sérlega á sumrin, vorin og haustin, sem betur fer þurfti aldrei að sækja þá hópa sem ég var í, en ýmislegt gerist sem maður bjargaði sér út úr.
Vil segja frá því sem móðir björgunarsveita manns að ekki eru þeir betri sem í byggð aka, á sumardekkjum og kunna ekki einu sinni að aka bíl ó snjó og hálku, það urðu oft langar og slæmar ferðir til að bjarga svona sófaliði.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.3.2011 kl. 17:53
Ágæt ábendinga hjá þér, Guðrún. Sumir kunna ekki að bjarga sér þó aðeins um byggð fari.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.3.2011 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.