Fréttamiðlum hignar, bullið tekur við
24.2.2011 | 09:17
Fyrir áhugamann um fréttir hefur það löngum verið áhyggjuefni hversu mikil áhersla er lögð á einskisverða innlenda umfjöllun. Yfirskinið til að fylla upp í sekúndur og mínútur í sjónvarpi og útvarpi og í dálka í dagblöðum er margvíslegt og kannski allt gott og blessað enda erfitt að finna raunverulegar fréttir í svona litlu þjóðfélagi.
Auðvitað er innlent efni of fátæklegt til að uppfylla þarfir þessara fjölmiðla fyrir efni og því er nú orðið vinsælt að fara einfaldlega á YouTube og finna þar eitthvað. Fyrir vikið er sáralítið orðið varið í marga þessara miðla enda gengur nú flest út á einhvers konar slúður og bull en fréttir sem skipta máli gleymast.
Maður veltir því fyrir sér hvort ástæðan sé einfaldlega sú að auðveldara er að sópa upp einhverri meðalmennsku á YouTube og kjaftasíðum heldur en að vinna að viti í blaðamennsku. Líklegast er þó meginskýringarinnar að leita í stjórnun. Ungt og óreynt fólk fær að leika lausum hala og enginn sem reynslu hefur af blaðamennsku sinnir ritstjórn.
Sorgleg þróun þegar fréttamiðlum hnignar en Se og Hör stefnunni eflist ásmegin með tómt bull sem skiptir ekki nokkru máli þegar upp er staðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.