Tilgangurinn að njósna um einn þingmann?
22.1.2011 | 09:30
Líklega eru skýringar lögreglunnar réttar svo langt sem þær ná. Hins vegar eru fagmenn ekki á einu máli um tilganginn með aðskotatölvunni á skrifstofum Alþingis. Bent er á að tilgangurinn geti verið nokkuð annar en lögreglan lætur í veðri vaka.
Ítarlegustu opinberu skýringarnar á tölvumálinu hafa komið frá Marinó G. Njálssyni, ráðgjafa. Hann segir á bloggi sínu, marinogn.blog.is:
Ég er sannfærður um að tölvan hafi verið notuð til þess að njósna um samskipti við ákveðna tölvu sem tengd var við sömu tengigrind og umrædd tölva. Þetta var því hlerunarbúnaður en vélin var líklegast ekki sett upp til þess að sækja gögn af neti Alþingis. Góðir fagmenn hafðu farið tiltölulega létt með að brjótast inn á kerfi Alþingis utanfrá hafi það verið tilgangurinn. Vélin hefur verið sett upp líkt og kollegar mínir lýsa með sérstökum hugbúnaði, hugsanlega í vinnsluminni, en gæti líka hafa verið falinn á þeim hluta af diski tölvunnar sem ekki virðist vera í notkun. Þetta er kunnugleg aðferð hjá þeim sem stunda það að stela kortaupplýsingum. Hlutverk forritsins var líklegast að endurvarpa samskiptum við ákveðna tölvu, sem ég geri mér bara í hugarlund hver er, til þess aðila sem setti upp "njósnatölvuna". Þetta er aftur þekkt aðferð og hefur náð mikilli útbreiðslu meðal hakkara sem eru að stela kortaupplýsingum. Hvort við köllum þetta "man-in-the-middle" árás eða dulgervingu skiptir ekki máli. Niðurstaðan er sú sama. Ástæðan fyrir því að net Alþingis tekur ekki eftir þeirri umferð sem kemur frá tölvunni er að hún er dulgerð sem umferð frá upprunalegu tölvunni og á sér stað meðan sú tölva er tengd við netið.
Ég sé fyrir mér að að tilgangurinn hafi verið að hlera öll samskipti við þessa tilteknu tölvu. Dulkóðuð eða ekki skiptir ekki máli, þar sem ég er sannfærður um að sá sem setti tölvunar upp hafi haft allan þann búnað sem þurfti til afkóða þau samskipti. Auk þess fylgja hverjum samskiptapakka alls konar upplýsingar sem veita upplýsingar um tölvu ætlaðs móttakanda.
Það er að minnsta kosti mjög rökrétt að álykta eins og Marinó gerir, að hægt sé að hakka sig inn á kerfi Alþingis utanfrá sé fyrir því vilji. Stærri og meiri stofnanir hafa orðið fyrir barðinu á snjöllum tölvuþrjótum heldur en ein lítil löggjafarsamkoma á Íslandi. Og hvað er það hjá Alþingi sem ekki þolir dagsins ljós? Raunar ekkert.
Þá liggur beinast við að spyrja hvort ætlunin að ná sambandi við einhverja eina tölvu og hver var tilgangurinn? Er ekki eftir meiru að slægjast hjá einstaka þingmönnum en stofnuninni sjálfri? Var til dæmis verið að njósna um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í þeirri von að finna eitthvað til að halda áfram þeirri ófrægingarherferð sem staðið hefur gegn honum í langan tíma?
Eða eru hugsanleg fórnarlömb önnur og tilgangurinn einfaldlega sá að afla efnis fyrir fjölmiðla? Líklegast er þó að þeir sem standa að svona njósnum ætli sér að fara í einhvers konar ófrægingarherferð gegn einum tilteknum einstaklingi. Að öllum líkindum hefur tölvuþrjóturinn, hvers svo sem hann er, tekist að afla upplýsinga í rúman mánuðu áður en upp komst. Hann hefur þá úr einhverju að moða og kannski hefur hann allan tölvupóst frá tilteknum einstaklingi ...
Rannsókn stóð í nokkrar vikur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:32 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki líklegra ef þessi skýring Marinós er rétt, að tilgangurinn hafi verið að hlera samskipti Birgittu Jónsdóttur? Hún er þekktur aktivisti og átti á þessum tíma í samskiptum við m.a. Julian Assange sem var undir eftirliti margra ríkja.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.1.2011 kl. 10:28
Ég þakka þér, Sigurður, fyrir að vekja athygli á skrifum mínum.
Marinó G. Njálsson, 22.1.2011 kl. 13:41
Jóhannes, þetta eru nú bara spekúlasjónir hjá okkur báðum, ekki flugufótur fyrir neinu.
Ekkert að þakka, Marinó. Finnst þú hafa oftast mjög margt til þíns máls og fylgist vel með því sem þú skrifar. Málefnaleg skrif mættu vera miklu algengari í íslensku bloggi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.1.2011 kl. 13:52
Svo skemmir nú ekki fyrir, að þetta er einmitt sérsvið Marinós.
Varst þetta nokkuð þú sem varst þarna að verki Marinó?
Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2011 kl. 14:04
Nei, Guðmundur, þingmennirnir á þessari hæð ráða engu, þannig að ekki þarf að hlera þá
Marinó G. Njálsson, 22.1.2011 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.