Aldrei séð annan eins fjölda á Hornströndum
24.10.2010 | 14:50
Fyrir nokkrum árum virtist sem áhugi fólks fyrir Hornströndum hefði mikið minkað. Það var þó aðeins tímabundið. Nú eru Hornstrandir eins og Laugavegurinn, allir þurfa að fara þangað, rétt eins og engir aðrir staðir séu til útivistar á landinu en Landmannalaugar, Þórsmök, Laugvegurinn og Hornstrandir.
Ég kom fyrst á Hornstrandir 1977 og ferðuðumst við þrír vinir þar víða. Síðan hef ég komið oft þangað, sem fararstjóri með litla og stóra hópa og einnig í litlum vinahópum. Yfirleitt var fátt um manninn, sjaldgæft að hitta hópa og þeir sem maður sá voru yfirleitt á ferðum ferðafélaga eða skrýtnir útlendingar.
Í sumar fór ég í Hornvík og Reykjafjörð (sem raunar er utan friðlandsins). Í Hornvik voru hundruð manna, tjald við tjald, jafnvel stórt samkomutjald sem mér fannst nú algjör óþarfi. Ferjumenn segja mér að miklar breytingar hafi orðið í farangri fólks. Nú er ekki nógu gott að sitja á rassinum á jörðinni heldur verða nýmóðins ferðamenn að hafa með sér stóla og borð. Sumir koma jafnvel með sér rúm. Það er af sem áður var er maður ferðaðist með um 17 kg og bar allt á bakinu.
Auðvitað er ekki við öðru að búast en að fólk ferðist um landið sitt. Það er bara gott og nauðsynlegt. Hins vegar hefur maður miklar áhyggjur af átroðningi. Nú sjást víða göngustígar þar sem varla fór nokkur lifandi maður fór (af liðnum segir fátt).
Ég spái því að innan nokkurra ára verði göngustígar á Hornströndum rétt eins og á Fimmvörðuhálsi og Þórsmörk, í orðsins fyllstu merkingu úr sér gengnir og jafnvel verði komnir tvö eða þrefaldir göngustígar, því enginn gengur ofan í hnédjúpum stíg.
Jafnvel refunum hefur fjölgað þessi lifandis ósköp á Hornströndum og þeir plata ferðamenn upp úr skónum og fá þá til að gefa sér að éta. Flestir ferðamenn halda að refirnir séu gæludýr og reyna að hæna þá að sér sem er mikill misskilningur. Best af öllu er að láta þá algjörlega eiga sig, skipta sér sem minnst af dýra- og fuglalífi.
Vandamálið með stefnumörkun eins og landvörðurinn Jón Björnsson er að tala um, er að orð eru marklaus ef ekki fylgja efndir. Ég hef enga trú á því að fjármagn fáist til að laga og bæta göngustíga á Hornströndum, hvorki frá Ísafjarðarbæ né ríkinu. Hið eina sem hægt er að gera er að fá ferðumenn með í áróðri og hvetja góðrar umgengni. Útbúa til dæmis snyrtilegan bækling þar sem lögð er áhersla á góða siði og snyrtimennsku. Annað er eiginlega vonlaust nema myndarlegt fjárframlag finnist á einhverju tré fyrir sunnan.
Þess má geta að með þessari frétt mbl.is er falleg mynd af Drangaskörðum. Þau eru langt frá friðlandi Hornstranda, það vita nú allir ...
Sex þúsund á Hornstrandir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.