Fetað um flækjustigu
24.10.2010 | 11:23
HVERS vegna í ósköpunum skyldum við hafa hlutina einfalda ef við getum mögulega gert þá flókna?
Fleyg orð og örugglega höfð eftir einhverjum virðulegum embættismanni. Þegar nánar er að gáð virðist svo óskaplega margt flækja málin að aumur meðalmaðurinn getur varla fylgst með. Svo fylgir þessu bölvað misrétti, ég á við að skilningur minn nægir ekki til að ég átti mig á því sem aðrir fatta omgående eins og útlendingar segja.
Ég verð að viðurkenna það, svo mikill fjallakall sem ég er, að ég hef alltaf átt í bölvuðum vandræðum með fjöllin. Til dæmis þegar einhver hrúgan þykist vera 6.952 fet en ekki 2119 m þá hika ég. Það segir sig sjálft að sálfræðilega er auðveldara er að ganga á metravæn fjöll en þau fetlegu og það er skýringin á því að ég klíf ekki amerísk fjöll!
Hvað er marktækt?
Jú, sonurinn var sextán merkur, hvorki meira né minna, og allir fögnuðu nema ég, því ég veit ekki hversu þungur strákurinn var. Venjulegar vigtir sýna þyng í grömmum og kílóum, nema við fæðingu. Þá er þyngdin mæld í mörkum, nehei
ekki fótboltamörkum,
ekki í gömlum vestur-þýskum mörkum .. og alls ekki því marki sem er við endann á hlaupabraut. Nei, fæðing einstaklings er svo göfugur og fallegur atburður að barnið skal mæla í göfugri og fallegri einingu sem kallast mark eða mörk.
Lax eða ýsa?
Á bakka Þingvallavatns stend ég hróðugur og horfi á er mér fremri menn vigta silunginn. Ja, sko kallinn, er sagt. Þetta er bara átta pundari! Ég passa mig á því að hvá ekki, rigsa bara um án þess að hafa hugmynd um hvað fiskurinn var þungur og svo hrekkur upp úr mér; Já, ansi þungur miðað við stærð og aðrir líta undrandi á mig og skilja ekki frekar en ég hvað ég á við.
Pundið er ekkert venjuleg mælieining, hún er líklega fundin upp vegna þessa göfugu aðferðar að brúka prik til að krækja í lax eða silung. Engum sem veiðir þorsk með priki dettur í hug að halda því fram að fiskurinn hafi verið tíu eða tuttugu pund. Nei, svoleiðis fiskar eru kílóverur, fjögur og hálft eða tíu kíló.
Þeir sem brúka togara til að veiða fiska mæla veiðina í tonnum, en eitt tonn er nákvæmlega eitt þúsund kíló. Enginn með viti myndi segja að Engeyin hafi komið með fjögur hundruð og fimmtíu þúsund pund að landi. Nema auðvitað að andvirðið væri mælt í Sterlingspundum.
Að hætti sjómanna!
Landhelgin er í eigu þjóðarinnar rétt eins og það sem er fyrir ofan sjávarmál. Við teygjum hana út í tvö hundruð mílur og fiskurinn sem þar svamlar er líka eign þjóðarinnar. Sumir segja að hann sé bara eign þeirra einstaklinga sem samkvæmt lögum eiga skip til útgerðar, en um það mætti nú rökræða lengi. Hitt hefur þó alltaf böggað mig og enn er mér það hulin ráðgáta hvers vegna landhelgin var ekki færð út í 7,8 kílómetra, 92,6 kílómetra eða 370,4 eins og hún mun vera í dag.
Sjómennskan er göfug og falleg atvinnugrein og sjómenn tala tungu sem leikmönnum kann að reynast örðugt að skilja. Togari nefnist skipið enda þótt botnvörpungur væri fullboðlegt íslenskt orð. Hann dregur troll sem er einfaldlega botnvarpa og jafnvel þó einhverjir halda að bobbingar séu annað orð yfir stór brjóst kvenna er það algjör misskilningur ... en samlíkingin er engu að síður brosleg.
Í sumar sigldi ég í forláta fleyi frá Aðalvík til Ísafjarðar og sá sem stjórnaði sagði bátinn ganga fjórtán mílur. Ég kinkaði kolli og reyndi að vera gáfulegur á svipinn, en hann misskildi mig, hélt kannski að mér fyndist gangurinn ekki mikill. Sko, hann getur gengið sautján mílur, en þá heggur hann meira sem er ekki gott fyrir farþegana, sagði hann hróðugur.
Hin stórhættulega míla
Ég varpaði öndinni léttar og með sjálfum mér reyndi ég að rifja það upp hvort ökutæki á óravegum hafsins hafi nokkurn tímann verið mæld undir annarri mælieingingu en mílum. Nei, varla. Þessi náungi yrði örugglega rekinn ef hann segði bátinn ná tuttugu og tveggja kílómetra hraða á klukkustund.
Auðvitað er meðalhraða á sjó miklu minni en ökutækja á fjórum hjólum á landi og til að breiða yfir þessa vandræðalegu frammistöðu brúka menn mílur og svo þykir það líka flottara núorðið, ekki eins landkrabbalegt eins og að tala um kílómetra á klukkustund.
Menn átta sig þó ekki á því hversu hættuleg mælieiningin mílur eru og þess vegna ætti bara að banna hana. Í versta falli gefa einhverjum einum einkaleyfi á henni. Þetta er eins og ef orðið halló merkti ekki bara halló heldur margt annað; góðan daginn, blessuð blíðan, gott í sjóinn, kaffitími og svo framvegis. Bandaríkjamenn brúka mílu, Englendingar líka, Norðmenn, Svíar og miklu fleiri. Vandinn er að til eru sjómílur og líka landmílur. Norska mílan er mælir svo annað en sú sænska, sú enska er allt annað en þessi bandaríska. Og allir standa fast á sinni einu og sönnu mílu.
Tugakerfinu tapað
Ég kenndi ungum sonum mínum að telja upp í tíu. Börn eru fljót að átta sig á tugakerfinu og allt í einu kunna þau að telja upp í eitt hundrað, svo eitt þúsund og þau gætu talið upp í milljón ef þau nenntu þessum stöðugu endurtekningum. Allt gott og blessað með það. Svo kom að því að læra að reima skóna, en það hefur ekkert með aðrar tölur að gera en áttuna.
Klukkan átta fara menn að hátta, segir í úreltri reglu. Flest börn eiga í stökustu erfiðleikum með að læra á klukkuna og það er engin furða svo órökrétt sem hún er. Jú, hún er tólf og langt gengin í þrettán eða kannski er hún orðin tuttugu og fjögur og langt gengin í eitt eða tólf og langt gengin í eitt. Hvað veit ég?
Jólasveinarnir einn og átta þóttu ekki stíga í vitið. Kannski voru þeir sjö, átta eða níu. Svo flókið sem það er, virðast tímaeiningarnar ekkert einfaldari.
Eitt ár eru tólf mánuðir, einn mánuður er í kringum þrjátíu dagar, hver vika er sjö dagar. Hálfur sólarhringur er tólf klukkustundir. Ein klukkustund er sextíu mínútur, og ein mínúta sextíu sekúndur. Hvers konar bull er þetta? Af hverju gat einn sólarhringur ekki verið til dæmis tuttugu klukkustundir, ein klukkustund, eitt hundrað mínútur og ein mínúta eitt hundrað sekúndur?
Sko, það er vegna þess að þetta byggir allt á fornri hefð, segja þeir sem eru mér fremri að vitu og þekkingu.
Bölvað bull, segir þá fúll á móti. Í gamla daga voru dagaheitin allt önnur en þau eru núna en samt var þeim breytt. Er tugakerfið ekki brúklegt við tímamælingu?
Tommarinn
Réttu mér tútommara, sagði vinur minn við mig og ég snérist í kringum sjálfan mig, sá ekkert svoleiðis. Hann átti bara við tveggja tommu nagla. Af hverju gat hann ekki beðið mig um fimm cm langan nagla. Réttu mér fimmarann. Nei, annars, ég hefði ekkert betur fattað það.
Ég skil samt ekki hvers vegna smiðir geta ekki talað mannamál. Allar teikningar gefa upp lengdir, breiddir og hæðir í sentimetrum eða metrum en samt dregur smiðurinn upp tommustokk. Hann hefur líklega týnt sentimetrastokkinum sínum.
Hvernig er hægt að byggja hús svo nákvæmlega að hvergi skeikar millimetra og nota til þess nagla og skrúfur sem mældir eru í tommum og einhverju öðru sem ég man ekki hvað er.
Og hún mamma líka
Og ekki batnaði það þegar barnið þarf að fara út í búð og kaupa tvo desilítra af rjóma. Og þú líka, Brútus, sonur minn, sagði hinn svikni Sesar forðum. Meira að segja hún mamma, sem ég á svo mikið að þakka, kenndi mér að telja og læra á klukkuna, hún vildi fá tvo desilítra. Hefði hún beðið mig um að kaupa sex desilítra af kóki. Af hverju er ekki hægt að mæla rjómann í lítrum, heilum eða hálfum, rétt eins og kókið?
Aflið
Rosalegur kraftur í því, sagði vinur minn. Við góndum á mótorhjól við gangstéttarbrún og hann sagði að hjólið væri hvorki meira eða minna en ... eitthvað ... kúbikk. Vá! sagði ég og lyfti augabrúnum til sannindamerkis um aðdáun mína en með sjálfum mér reyndi ég að finna út hvort þetta kúbikk væri meira eða minna en hestafl sem ég þó hafði náð að skilja.
Nei, lífið er ekki einfalt
Flækjustigið hefur verið langvarandi og erfitt til skilnings. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu.
Kannski er finnst einhver hjálpsamur jafnaðarmaður á þingi sem væri til í að einfalda málið og setja lög þar sem merkur, pund, mílur, kúbikk, desilítrar, tommur, merkur og álíka orðskrípi væru bannaðar sem mælieiningar. Þetta mætti svo sem gera um leið og hinn hjálpsami og alltumgreiðasami jafnaðarmaður leggur fram frumvarp til laga um að engin laun á Íslandi megi vera hærri en þau sem forsetanum eru skömmtuð.
Mér finnst svo óskaplega mikil ástæða til að allt sem viðkemur lífi okkar sé eins, allt sé slétt og fellt, enginn fái að skara frammúr, því þá er svo mikil hætta á því að misrétti komist á í þjóðfélaginu. Getur nokkur verið verra en einfalt misrétti?
Burt með öll þessi misrétti. Niður með fjöllin, upp með dalina!
[Rakst á þenan pistil um daginn þegar ég var að rúlla í gegnum heimasíðuna mína http://web.mac.com/sigurdursig. Fannst hún bara nokkuð góð með öllum sínum kveinstöfum. Finnst voða sniðugt að birta hana hérna.]
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.