Línan lögð fyrir fjöldauppsagnir hjá Reykjavíkurborg
21.10.2010 | 17:27
Án efa hefði allt orðið brjálað ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið fyrir svona hreinsunum innan Orkuveitunnar. Nú bara þegja fjölmiðlar, álitsgjafar og stjórnendur síðdegisþátta láta ekkert á sér bæra.
Engum dettur í hug að gagnrýna hinn óreynda stjórnarformann OR þegar hann segir að lækkað starfshlutfall hafi ekki hlotið hljómgrunn í stjórninni þar sem þær séu í eðli sínu tímabundnar. Verið sé að leita varanlegrar hagræðingar ...
Hvers konar bölvuð vitleysa er í manninum? Hver skyldi nú starfsmannaveltan vera hjá OR? Ætli hún leyfi ekki að bjóða upp á lækkað starfshlutfall í t.d. eitt ár og að því loknu gæti fjölmargir verið hættir störfum, t.d. vegna aldurs eða breyttra aðstæðna að öðru leyti. Fjölmörg fyrirtæki hafa vert þetta með góðum árangri, t.d. Morgunblaði, Toyota, RARIK, Fréttablaðið, Verkís o.fl. Er OR eitthvað öðruvísi en önnur fyrirtæki?
Það má vel vera að OR sé ofmannað en góðir stjórnendur reyna allt annað en að segja fólki upp, senda það út á kaldan klakann þar sem ekkert annað en atvinnuleysi bíður þeirra.
Ber þetta vott um stjórnvisku stjórnarformanns eða hins nýja forstjóra? Nei, þetta bendir bara til þess að þessir kallar ætli nú aldeilis að sýna hvað í þeim býr. Í ljós kemur að þeir eru bara stjórnendur á borð við útrásarvíkingana sem höfðu engan áhuga á fólki aðeins beinhörðum peningum hvernig svo sem þeirra var aflað.
Víkur þá sögunni að Besta flokknum og Samfylkingunni í Reykjavík. Þeir bera alla ábyrgð á þessum uppsögnum. Í ljósi úrræðisins hjá OR má búast við fjöldauppsögnum í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar en þar eru gjöldin 4,5 milljarði yfir tekjum.
65 sagt upp hjá Orkuveitunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta virðist vera mynstur sem endurtekur sig: Þeir sem lengst af hafa stjórnað hrökklast frá völdum, og nýir valdhafar uppgötva allan skítinn sem hinir fyrri skildu eftir og hefja hreinsunaraðgerðir. En hverjum er þá um að kenna? Er það óábyrgt að hagræða í rekstri sem aðrir hafa nánast keyrt í þrot? Eða hefðu þeir kannski átt að halda áfram á sömu leið og gera endanlega út um hagsmuni borgarbúa í heild?
Það er afskaplega ódýrt að kenna um eingöngu þeim sem minnst áhrif höfðu á framvinduna fram að þessu. Það má eflaust deila um hvort beita hefði átt annari aðferðafræði við hagræðinguna, en ljóst er að hún var engu að síður nauðsynleg.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.10.2010 kl. 17:40
Ég er ósammála forsendunum sem þú gefur þér, Guðmundur, og þar af leiðandi eru spurningarnar varla svara verðar.
Get ómögulega litið á uppsagnir 65 starfsmanna OR sem einhvers konar hreinsunaraðgerðir. Svona viðhorf er verulega ógeðfellt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 17:46
Það sem þurfti að koma til hjá OR var launalækkun hjá þeim launahæstu. Þessi lækkun hefði líklega þurft að vera 20-25% og sama átti að ske hjá ríkinu fyrir 20 mánuðum. Þessu átti strax fyrir 20 mánuðum að stilla upp sem valkosti gegn þeim uppsögnum nú hafa verið ákveðnar hjá OR og blasa við í öllu ríkiskerfinu.
Hins vegar sýnir stjórn OR af sér hroka sem ekki er líðandi. Lækkað starfshlutfall getur vel gengið til langs tíma, ef öll verkefni eru unnin. Það sem þó er verst, er að ekkert samráð virðist hafa verið haft við starfsfólk um stöðuna og ekki heldur við eigendur OR. Ætli yfir-Narrinn viti hverjir eiga OR ?
http://altice.blogcentral.is/
Loftur Altice Þorsteinsson, 21.10.2010 kl. 17:48
Sammála þér Loftur, eins og svo oft áður.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 17:49
En það er furðulegt að enginn af framkvæmdastjórunum eða fjármálastjóri sem lét fyrirtækið kaupa jeppa (til þess að geta komist til vinnu) var látinn fara og þau eiga að koma að uppbyggingu OR. Og fjölmiðlar sýna því engan áhuga. Er það eðlilegt að þetta fólk fái að koma að uppbyggingunni?
Kristinn Kári Kristinsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 18:03
Forstjóri orkuveitunnar "til bráðabyrgða" er víst sérfræðingur í verkefnastjórnun. Þetta er ein af þessum nýju tískuháskólagreinum.
Helsta verkefni verkefnastjóra hefur manni sýnst vera ýmis átaksverkefni (öðru nafni átakanleg verkefni).
Í tilfelli Helga bráðabyrgðaorkuveituforstjóra er hans helsta verkefni að finna leiðir til að reka fólk. Í huga manna sem kunna bara fræðilegar aðferðir í mannlegum samskiptum er mannaflinn (á fínna máli mannauður) bara "verkefni" sem þarf að ganga í.
Mannleg samskipti rúmast ekki innan fræðilegu aðferðanna. Það gerir heldur ekkert til. Bráðabyrgðaorkuveitustjórinn þarf ekkert að umgangast "verkefnin" í orkuveitunni til langframa þannig að sársaukinn við niðurskurð "verkefnanna" líður fljótt hjá honum, hann verður hvorteðer bara eftir hjá "verkefnunum".
Út frá sæmilegu siðgæði hefði verið penna að nota þá aðferð sem stungið var upp á, þ.e.a.s. skerða starfshlutfall "verkefnanna" um ákveðinn tíma, þá hefði hópur "verkefnanna" temprast af sjálfu sér með eðlilegu brottfalli.
Hilmar Einarsson, 21.10.2010 kl. 20:22
Sæll, Hilmar. Athyglisvert innlegg hjá þér.
Ég er hins vegar viss um að verkefnastjórnun er af hinu góða, oft þarf að leggja í átaksverkefni, en þá er það stóri vandinn. Hver er sá rétti fyrir starfið?
Í stjórnun er grundvallaratriðið mannleg samskipti. Þau ganga út á að nýta mannauðinn, ekki skerða hann.
Uppsagnir valda sársauka, sálarkvölum, sem ekki sjást á Excelskjölunum sem lögð eru til grundvallar því verkefni sem unnið er að.
Sá sem er ónæmur fyrir öllu þessu mannlega sem snertir rekstur fyrirtækis, honum á ekki að fela stjórnun af neinu tagi, hvorki til bráðabirgða né lengri tíma.
Stjórnarformaður og forstjóri OR fengu upp í hendurnar góðar tillögur en þeir höfnuðu þeim. Það verður báðum til æavarandi vansa, sem og Besta flokknum og Samfylkingunni.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 20:41
Samkvæmt kvöldfréttum voru flestir af þeim sem var sagt upp á "kynningar- og fræðslusviði" Orkuveitunnar. Gott og vel.
Nú stóð ég alltaf í þeirri meiningu að hlutverk Orkuveitunnar væri að flytja borgarbúum vatn, hita og rafmagn. Það væri hinsvegar hlutverk skólanna í borginni að sjá um fræðslumál, en kannski hafa þeir verið orðnir svo fjársveltir fyrir að þeir geta það ekki einu sinni. Svo skil ég ekki heldur afhverju einokunarfyrirtæki (nánast) þarf að reka sína eigin auglýsingastofu. Ég hef ekki heldur orðið var við að gæðin á vatninu eða rafmagninu hafi batnað neitt eftir að Alfreð lét reisa ofvaxinn tundurspilli á þurru landi í Árbænum.
En ég er kannski að misskilja þetta allt saman. Aldrei að vita nema Helgi Pé vilji kíkja í kaffi til mín og útskýra þetta betur, fyrst hann hefur núna mikinn frítíma á daginn. Eða er það ekki annars? Var nokkuð dóttir hans, nýráðin framkvæmdastjóri Besta, búin að leggja inn fyrirmæli um sérmeðferð?
Guðmundur Ásgeirsson, 21.10.2010 kl. 20:45
Frekar er þetta nú innihaldslaust klór hjá þér, ágæti Guðmundur. Er ekki sæmilegast fyrir þig að lát hér staðar numið?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 20:49
Það sem ég er að reyna að benda á er að þetta var löngu orðið ofvaxið bákn sem var tímabært að skera niður, og það var staðreynd löngu áður en Jón Gnarr fékk þá flugu í hausinn að bjóða sig fram til borgarstjóra.
Hinsvegar hef ég fulla samúð með þeim 65 sem bættust í dag á atvinnuleysisskrá, og býð þá jafnframt velkomna í hópinn.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.10.2010 kl. 21:07
Seint verður sagt að Orkuveita Reykjavíkur hafi sýnt fagmennsku eða tillitssemi við uppsagnir 65 starfsmanna fyrirtækisins í dag . Var öllum starfsmönnum fyrirtækisins gert að vera á starfsstöð sinni klukkan eitt í dag og svo fylgdust kollegar með þegar símar hringdu hér og þar og fólkið snéri aldrei til baka.
Beið þannig allt starfsfólk fyrirtækisins í sætum sínum í tvær klukkustundir frá klukkan eitt í dag milli vonar og ótta um að fá ekki uppsagnarbréf en hrinunni lauk klukkan þrjú og gátu þá þeir sem eftir sátu andað léttar.
Þetta er skepnuskapur og ótrúleg vinnubrögðum öðru eins tillitsleysi við uppsagnir.Það er þvert á allt sem forstjóri og stjórnarformaður hafi gefið í skyn að staðið yrði að uppsögnum með eins vægu móti og hægt vær
Rauða Ljónið, 21.10.2010 kl. 22:05
Sæll Sigurður.
Ég tel að það sé ofmannað í OR. Sem dæmi má nefna að 20 manns vinna við almannatengslamál hjá fyrirtækinu. Segjum sem svo að aðeins þurfi að hafa helming þess fjölda til þess að anna þeim málum sem upp koma á þessu sviði, á þá að lækka laun allra í fyrirtækinu til þess að þessir "auka" 10 einstaklingar haldi vinnunni? Mér finnst ekki. Það þarf greinilega að taka til í fyrirtækinu og hluti af því er að segja fólki upp, eins leiðinlegt og það er.
Einnig má horfa í annan sparnað þessu tengd, t.d. mötuneytið, þar er kostnaður sem lækkar klárlega talsvert við þessa fækkun.
Tóbías í Turninum, 21.10.2010 kl. 23:01
Með fullri virðingu þá get ég varla trúað því að Rauða ljónið fari rétt með lýsinguna á uppsögnunum í Orkuveitunni. Hvaða skoðun sem menn hafa á réttmæti uppsagnanna hljóta allir að fordæma svona aðferðir.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 23:02
Ekki ætla ég að dæma hvaða störf eru nauðsynleg í Orkuveitunni, Tóbías. Ég geri varla ráð fyrir því að starfsmenn í kynningardeildinni hafi nagað blýanta daglangt. Fulltrúar starfsmanna buðu upp á þá aðferð að minnka starfshlutfall gegn því að engum væri sagt upp. Því tilboði var hafnað af hrokafullum meirihluta stjórnarinnar. Hefði nú ekki verið mannlega að gera draga úr kostnaði á mildilegri hátt.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.10.2010 kl. 23:08
Það má vera að OR sé ofmönnuð og við vitum að mikið vantar upp á að tekjur dugi fyrir gjöldum. En það fer enginn út ú svona aðgerðir fyrr en allt annað hefur verið reynt og þá í eins miklu samstarfi við starfsmenn og hægt er. Stjórn OR virðist ekki hafa gert þetta, meira að segja virðist sem meirihlutinn hafi haldið minnihluta stjórnar nánast frá öllu.
Hinn merki maður Jón Sigurðsson fyrrum forstjóri Íslenska Járnblendifélagsins sagði eitt sinn að fyrirtækið væri fólkið, hús og búnaður væri járnadrasl sem fólkið nýtti sér til að búa til verðmætin. Ég kynntist þessum manni nokkuð vel, fyrst sem trúnaðarmaður starfsmanna og síðar sem verkstjóri í framleiðsludeild. Jón varð forstjóri ÍJ á upphafsárum þess og allt þar til Elkem fékk það gefins úr hendi Finns Ingólfssonar. Allann þann tíma voru verkföll ó.ekkt innan þessa fyrirtækis, má þar þakka hugsanahætti forstjórans en hann lét hag og velferð starfsfólksins ætið vera í fyrrirúmi.
Gunnar Heiðarsson, 22.10.2010 kl. 09:00
Gott innlegg hjá þér, Gunnar. Man vel eftir Jóni, fannst hann skynsamur maður og réttsýnn. Hann skrifaði líka talsvert um stjórnmál í dagblöð. Ég var ekki alltaf sammála honum en þrátt fyrir það fannst mér hann oftast góður.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.10.2010 kl. 09:13
Sæll. Sigurður ég var að hafa eftir starfmönnum OR hvernig var staðið að þessu.
Kv. Sigurjón
Rauða Ljónið, 22.10.2010 kl. 11:49
Auðvitað dreg ég ekkert í efa það sem þú segir, Sigurjón, og staðfesting hefur kom á þessu í fjölmiðlum í dag. Mér finnst þetta hrikalegar aðfarir ... mannskemmandi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.10.2010 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.