Belgingur og hófsemd

Í sjálfu sér veldur öll nafnfrægð röskun á eðlilegu jafnvægi manns. Við eðlilegar aðstæður er nafn manns ekkert annað né meira en einkennisborðinn er vindlinum, kennimark, fánýtt yfirborðsatriði, sem á lítið skylt við raungildið, manninn sjálfan. En hljóti maður frægð hleypur ofvöxtur í nafn hans. Það losnar úr tengslum við mann, verður afl út af fyrir sig, sjálfgildur hlutur, verslunarvara, höfuðstóll sem hefur hina sterkustu gagnverkan á sálarlíf mannsins og tekur að drottna yfir honum og móta hann. Ánægðum og sérgóðum mönnum hættir þá ósjálfrátt við að leggja sjálfa sig að jöfnu við árangurinn, sem þeir hafa náð. Vegtylla, staða, heiðursmerki eða jafnvel nafnfrægð ein getur stigið þeim svo til höfuðs, að þeir freistist til að halda að sér beri sérstakur heiðursess í félagsskap manna, ríki eða samtíð. Þeir belja sig ósjálfrátt upp til að ná persónulegri fyrirferð, er samvari því sem þeir hafa afrekað. En hverjum þeim, sem hefur að upplagi takmarkað sjálfstraust finnst hvers konar vegsauka fylgja sú kvöð að gangast sem minnst upp við hann.

Úr bókinni Veröld sem var eftir Stefan Zweig, í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, Forlagið, 2010.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband