Gullið í Drápuhlíðarfjalli
16.7.2010 | 23:12
Drápuhlíðarfjall er skammt fyrir ofan Stykkishólm er eitt stórkostlegasta fjall á Íslandi. Ekki hefur það formfegurð Herðubreiðar, tign Eiríksjökuls, hrikaleika Eyjafjallajökuls, aðdráttarafl Keilis og Baulu, glæsileika Búlandstinds svo nokkur dæmi séu tekin.
Ekki er það heldur hæðin sem sker Drápuhlíðarfjall frá öðrum fjöllum. Nei, það er aðeins 527 m hátt sem þykir nú alls ekkert lítið en í samanburði við fjöllin í nágrenninu.
Munurinn er fyrst og fremst hið glóandi bjarta berg í fjallinu sem nefnist líparít. Við vissar aðstæður varpar það gullitum ljóma á umhverfið og ástæðan er einföld. Þegar ég var lítill var mér sagt að gull væri að finna í fjallinu og enn þann dag í dag trúi ég því. Til sönnunar er þessi mynd hér hægra megin sem ég tók fyrir nokkrum dögum. Fjallið hreinlega logar í kvöldsólinni og þarna glampar ekki á líparít heldur gullið.
Sagan um gullið í Drápuhlíðarfjalli er lífseig og sem betur fer hefur hún aldrei verið afsönnuð þó margir hafi leitað að því.
Eggert Ólafsson taldi forðum daga Drápuhlíðarfjall merkilegasta fjall á Íslandi eftir Snæfellsjökli. Það er auðvitað tóm vitleysa. Drápuhlíaðrfjall er hið merkilegasta í öllum heiminnum. Ekki vegna þess að þar er verið að finna gull heldur fyrst og fremst fyrir hin ótrúlegu litbrigði sem fjallið býr yfir. Því til sönnunar birti ég aðra mynd af fjallinu.
Hún er tekin daginn eftir þá fyrri. Sólin er þarna rúmlega í hádegisstað og Drápuhlíðarfjall er því í felubúningi líparíts. Ekkert bendir til þess að í því sé gull.
Annars heitir Gullberg á einum stað í Drápuhlíðarfjalli. Þarf frekari sannana við ...?
Fyrir neðan Gullberg eru Beinadalir. Þar segja munnmæli að fundist hafi hvalbein sem menn trúðu að væru frá dögum syndaflóðsins. Ekki er heldur ástæða til að efast um þá sögu. Staðreyndin hlýtur að vera sú að hvalirnir hafi drukknað í syndaflóðinu. Varla dregur nokkur að í efa.
Við Drápuhlíðarfjall eru örnefni eins og Írafell og Pekronsdalur sem benda til írskrar byggðar. Það minnir mig á að móðir mín, sem fædd var í Hvammsveit í Dalasýslu, var alla tíða sannfærð um það að hún væri komin af Auði djúpúðgu, landnámsmanni í Dölum. Hún og aðrir heimamenn kölluðu landsnámskonuna alltaf Unni og eru líkur á því að það sé réttara. Kannski að Pekron þessi hafi komið með Auði og búið að Írafelli.
Frá því ég var strákur hefur því verið haldið að mér að gull væri að finna í Drápuhlíðarfjalli og ég hvattur til að finna það. Aldrei hef ég þó gengið á Drápuhlíðarfjall en þess í stað gengið á ótalmörg önnur og ómerkilegri hrúgur víða um landið. Bragarbót ætla ég þó að gera hið fyrsta.Mér var líka sagt að gull væri að finna í litlum hólma í Maðkavík í Stykkishólmi. Hann heitir auðvitað Gullhólmi. Á sjötta eða sjöunda ári reyndi ég að finna gullið. Þó vopnaður væri þungri skóflu þurfti ég og félagi minn frá að hverfa vegna þess að kríur gerðu miskunarlausar árásir á okkur. Síðan hef ég ekki reynt að ná gulli úr Gullhólma. Tel það algjörlega kolómögulegt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.