Hafa stjórnmálfræðingar spádómsgáfu?

Stjórnmálafræðingar hafa ekki neina yfirskilvitlega hæfileika frekar en við hin enda spegla þeir ábyggilega þversnið þjóðfélagsins. Engu að síður virðast stjórnmálafræðingar eiga að vera spámenn samtímans, að minnsta kosti ef trúa má fjölmiðlum.a

Spámenn 

Til eru þeir sem spá í stjörnumerki fólks rétt eins og það séu í þau ritað hver framtíðin sé. Þeir finnast einnig sem spá í spil, rýna í kindagarnir. Svo eru það einsetumennina sem sagðir voru sitja á fjallstoppum eða á öðrum afskekktum stöðum og mæla fram vísdómsorð. Þegar nánar er athugað hafa stjórnmálafræðinarnir engu betri sýn á framtíðina en aðrir, hvorki langt né skammt. Fátt er um vísdóminn en meira um almennt tal rétt eins og hjá okkur hinum.

Þekking 

Auðvitað ættu stjórnmálafræðingar að hafa þekkingu á sögunni og þróun stjórnmála til lengri eða skemmri tíma. Hins vegar eru þeir ekkert skynsamari eða betri í að ráða í samtímann heldur en hver sá sem hefur snefil af heilbrigðri skynsemi og fylgist þokkalega með. Og ekki eru allir skynsamir eða draga rökréttar ályktanir af því sem fyrir þeim liggur. Það á ekki síður við um stjórnmálafræðinganna en okkur hin. 

Áróður 

Verra er þegar hafa álitsgjafar fjölmiðla hafa ekki neitt bitastætt fram að færa. Sýnu verst er þó að sumir þeirra eru vilhallir ákveðnum stjórnmálaflokkum í útskýringum sínum og níðast á öðrum. Og þetta geta oft verið stjórnmálafræðingar sem reyna að dylja skoðanir sínar á bak við fræðihjalið.

Þetta hefur gengisfellt álitsgjafanna en engu að síður sækja fjölmiðlarnir í þá. Margir þeirra teljast vissulega fræðimenn en eru bullandi vanhæfir til að veita hlutlaust álit vegna tengsla við stjórnmálaflokka. Breytir þá engu hversu fróðir þeir eru.

Fjölmiðlarnir 

Hvers vegna leita þá fjölmiðlar í stjórnmálafræðinga til að fá skýringu á niðurstöðum kosninga? Er eitthvað í menntun þeirra sem gerir þá betur færa um að skilja aðstæður? Það getur meira en vel verið en lítum á umsagnir nokkurra stjórnmálafræðinga um sveitarstjórnarkosningar 2010.

Stefánía Óskarsdóttir í Morgunblaðinu 31. maí 2010:

... að ágreiningurinn  innan VG sé það alvarlegur að það sé raunveruleg hætta á að flokkurinn klofni. ... Hún vill þó ekki spá því að þetta gerist, en segir að hættan á klofningi VG sé fyrir hendi. ... Nú sjá menn hversu fylgið geti verið hverfult og það sé spurning hversu mikinn tíma ríkisstjórnin hafi til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd.

Birgir Guðmundsson, dósent, í Morgunblaðinu 31. maí 2010:

... telur líklegt að úrslitin muni styrkja þau öfl innan VG sem gagnrýnt hafa stefnu ríkisstjórnarinnar. ... Frá því að kreppan reið yfir hafa stjórnmálin einkennst af viðbragðapólitík og hefðbundnu pólitísku þrasi. Þessu eru kjósendur að mótmæla. Enginn vafi er á að kosningaúrsliti eru mikið áfall fyrir fjórflokkinn, en það væri mikill barnaskapur að afskrifa hann. ... Haustið gæti orðið heitt.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í Rúv. 30. maí:

... segir djarft að spá því að dagar fjórflokksins séu taldir. Fátítt sé að flokkar deyi, ... framtíð flokkanna og flokkakerfisins ráðist að miklu leyti af viðbrögðum þeirra við úrslitum kosninganna. Við höfum aldrei séð svona úrslit áður á Íslandi í nokkrum kosningum. Hann segir það vera náttúru stjórnmálaflokka að laga sig að breyttum aðstæðum.

Eiríkur Bergmann, doktor, dósent og forstöðumaður, í Pressupistli 2. júní 2010:

Fjórflokkurinn hagar sér eins og hrunið hafi aldrei átt sér stað. Hanna Birna heldur að hún sé drottning Reykjavíkur, Dagur brosir breitt og dreifir rósum, Sóley Tómasdóttir er upptekin við að endurskapa sjálfa sig og Einar Skúlason syndir yfir Nauthólsvíkina á meðan félagarnir góla; þú meinar Einar! 

Hvar eru fræðin? Hvað leggja þeir til úr menntun sinni sem við hin höfum ekki þekkingu eða kunnáttu á? Í sannleika sagt eru þetta afar flatar skýringa ... „BORING“ eins og krakkarnir eiga til að segja. Ekkert nýtt kemur fram í þeim umfram það sem þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita nú þegar.

Og nú eru alþingiskosningar yfirstaðnar og hvað höfðu stjórnmálafræðingarnir og álitsgjafarnir fram að færa? Ekkert, segi ég. Þeir eru ekkert betri en ungi maðurinn sem ég ræddi við í síðustu viku við kaffiborðið á vinnustaðnum okkar. Hann hafði dýpri skilning á stjórnmálaflokkunum og skildi t.d. vel hvers vegna Píratar eru komnir fram og hvaða fylgi þeir myndu fá. Enginn stjórnmálafræðingu hefur tjáð sig af neinu viti um þá.

Tjáning byggist á að koma hugsun frá sér svo eftir sé tekið. Hins vegar er ekki nóg að tala digurbarkalega án hugsunar. Þá verður engin útkoma.

Til fjölmiðla vil ég koma þeim skilaboðum áleiðis að ræða meira við almenning og draga svolítið úr notkun á stjórnmálamönnum. Þetta er dálítið eins og að tala um veðrið. Veðurfræðingarnir geta líklega varpað ljósi á eðli veðurfræðinnar en umræðan yrði hörmulega leiðinleg ef enginn annar fengi að tjá sig um veðrið. Hún yrði líklega eins og þegar stjórnmálfræðingur talar um pólitík ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband