Grasstrá, lóa og fluga í vandræðum
24.5.2010 | 10:27
Þá loksins eldgosinu er lokið lítur maður yfir afleiðingar þess og undrast. Magnið sem kom upp úr iðrum Eyjafjallajökuls er gríðarlega mikið. Það sést á Skógaheiði og á Fimmvörðuhálsi.
Neðar virðist gróðurinn eiga auðvelt með að stinga kollinum upp úr öskunni. Ofar er það verra. Bæði er að þar er askan þykkari og einnig er gróðurinn minni, meira um lágplöntur.
Stórkostlegt er að sjá græn strá stinga örlitlum nabba upp úr grárri ösku efst á Fimmvörðuhálsi. Í sjálfu sér er það ekkert nema kraftaverk lífsins.
Vorið er tíminn og það veit gróðurinn. Einhvers staðar fyrir ofan má finna örlítinn yl og þangað leitar eðliðshvötin.
Fyrir neðan Gígjökul er villuráfandi randafluga og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Hvergi neitt nema auðn, jafnvel það sem á að vera gróður.Hvað á hún að gera?
Þarna féll askan í nokkra daga í síðustu viku og gjörbreytti vorinu. Hvernig á hún að komast af? Hvar er bjargráðasjóðurinn fyrir randaflugur, geitunga og aðrar flugur? Eflaust er hún ekkert að velta þessu fyrir sér.
Jafnvel lóan er ráðþrota og veit ekkert hvað hún á af sér að gera. Hún ætti þó að hafa yfirsýnina en æskustöðvarnar eru á kafi í einhverjum hroða.
Þarna situr hún á steini og hlær ekki við neinum hjartans vini heldur bíður.
Framtíðin er svosem ekkert ýkja svört þó askan liggi yfir öllu. Brátt rignir eins og alltaf á Suðurlandi og ef heppnin er með verður þetta mikið rigningasumar. Þá má búast við því að askan skolist til, límist ofan í jarðveginn eða renni ofan í læki og ár.
Nú verði sumarið þurrt má búast við öskuþreifandi byljum í kringum Eyjafjallajökul og er átt við ösku þreifandi ... Það kemur alla vega öskunni af stað og er líklega betra en að hún sitji sem fastast.
Gosmökkurinn nánast horfinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Kærkomin hvíld
Sigurður Haraldsson, 24.5.2010 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.