Nú væri gaman að vera Ómar Ragnarsson

100418_loni_kl_1703.jpg

Eldsumbrotin í Eyjafjallajökli valda miklum breytingum á landslagi. 

Lónið og umhverfi Gígjökuls hefur mér lengi fundist vera heillandi. Á löngum tíma gekk jökullinn fram, ýtti hægt og rólega upp jökulgörðunum, mótaði þá í hring sem aðeins er rofinn á einum stað, þar var útfallið úr lóninu.

Á einum degi, fylltist lónið af aur og ösku, framleiðslu eldgossins í toppgígnum.

Þá komum við að því sem mér finnst skipta máli og vantar. Mig langar til að sjá hvernig umhverfið þarna hefur breyst. Taka myndir og ganga um svæðið.

Meðfylgjandi er mynd úr vefmyndavél Vodafone, nokkuð stækkuð. Tveir bílar sjást hægra megin við miðja mynd. Vegurinn var nokkuð fyrir neðan þá, þannig að þeir eru að aka þarna á grónu landi. Gjörsamlega löglaust ... Án gríns held ég að þarna hafi verið einhverjir vatnamælingamenn eða jarðfræðingar að kanna aðstæður.

Mikið óskaplega öfunda ég þá. Ég velti því fyrir mér hvernig flóðið Gígjökli hefur farið með veginn inn í Þórsmörk og Goðaland. Held að hann hljóti að vera nokkuð illa farinn, t.d. innan við Langanes, jafnvel horfinn á þeim slóðum.

dsc00055.jpg

Svo er það jökullinn sjálfur. Rétt eins og margir aðrir hef ég gengið oft yfir hann. Langoftast svokallaða Skerjaleið. Hún liggur upp frá Grýtutindi og síðan með Skerjunum og upp að Guðnasteini.

Hér hægra megin er mynd sem ég tók árið 2007 við Guðnastein. Horft er yfir toppgíginn í suðaustur.

Lengst til vinstri er Hámundur, hæsti hluti Eyjafjallajökuls. Til hægri er tindur sem ég held að beri ekkert nafn. Vinstra meginn við hann er núna eldgosið. 

Þarna, við Guðnastein, væri heillandi að vera um þessar mundir. Kostur væri ef vindur stæði af norðvestri, annars væri frekar óhollt að vera á þessum slóðum. Við Guðnastein myndi maður horfa því sem næst beint ofan í gíginn.

Annars væri um þessar mundir skemmtilegast að vera Ómar Ragnarsson, geta flogið að vildi að eldstöðvunum og taka myndir. Verst að hann tekur ekki myndir af réttum stöðum, er alltaf að mynda mökkinn ekki umhverfið.

Að öðru leyti langar mig ekki til að líkjast Ómari Ragnarssyni nema ef vera skyldi að hann er svo fjandi hagmæltur en ég ... leirmæltur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband