Flöt lína á Fimmvörðuhálsi
12.4.2010 | 23:37
Eftir tuttugu og tvo eða þrjá daga er eldgosinu á Fimmvörðuhálsi líklega endanlega lokið.
Ekki er ég jarðfræðingur og enga þekkingu hef ég á línuritum eins og hér er birt og fengið af óróleikavef Veðurstofunnar. Hins vegar get ég sagt eins og maðurinn: Ég hef séð nógu marga sjúkrahúsaþætti í sjónvarpinu til að vita hvað flat line merkir.
Auðvitað er ekkert að gerast á óróamælinum við Goðabungu. Hann er flatari en gígsvæðið var fyrir gos. Mælir ekki einu sinni bílaumferð. Og það þýðir að eldgosið er búið.
En til að sýnast nú sennilegur verður maður að hafa borð fyrir báru. Því segi ég háalvarlegur; en það er aldrei að vita hverju náttúran tekur upp á enda geta eldgos geta tekið sig upp aftur. Og nú er ég farinn að líkjast Haraldi Sigurðssyni óþarflega mikið.
Nú ætlar Umhverfismálastofnun að laga göngustíga norðan megin við Fimmvörðuháls. Ég hef það sterkt á tilfinningunni að stofnunin mun klúðra þessu mikilvæga verkefni. Hún ætlar líklega að hella möl ofan í hnédjúpa troðningana og láta þar við sitja.
Ágætu lesendur, í fæstum tilviku er það nein lagfæring, í besta falli einungis frestun á umhverfisslysi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.