Suðaustanáttin er verst á Hálsinum
10.4.2010 | 11:12
Á Fimmvörðuhálsi er núna suðaustan slagveðursrigning og jafnvel snjóar uppi. Þessi átt er sú alversta fyrir ferðir á Hálsinn. Vindinn legur upp með Skógaheiði og verður æ verri eftir því sem ofar dregur.
Við félagarnir höfum lent í svona veðri. Langur tími þar til við áttuðum okkur á því að þegar spáð var suðaustanátt var ástæða til að hætta við ferð á Fimmvörðuháls.
Hins vegar veit lögreglan á Hvolsvelli ekkert um þessar staðreyndir mála vegna þess að hún þekkir ekki Fimmvörðháls. Hennar verkefni er að loka, hafa vit fyrir fólki, jafnvel því fólki sem veit meira en hún. Það skiptir engu máli.
Finnur einhver neikvæðan tón í þessum skrifum? Sé svo er enn dálítil fýla í mér vegna viðskipta við lögregelumanninn í Básum þann 31. mars sl. Sérstaklega er ég fúll yfir því að hafa ekki fengið kæruna sem hann lofaði mér fyrir að hafa brotið gegn reglum valdsstjórnarinnar um fjallaferð. Þetta gerðist þegar á einum hálftíma var ýmist opið eða loka fyrir ferðir úr Básum og lögreglumaðurinn gerði sér enga grein fyrir því hvar Húsadalur eða Langidalur eru. Engu að síður ætlaði hann, með skipun lögreglu og almannavarna á Hvolsvelli, að flytja mannfjöldann þangað, fólkið sem var í Básum og þá sem komu af Hálsinum.
Hann hélt því blákalt fram að öryggi fólks væri best borgið í Húsadal og þangað ætti að flytja fólk. Ekki vissi hann að þá þyrfti fólk að fara yfir Hvanná, sem búist var við að myndi hlaupa vegna vatnavaxta. Þegar honum hafði verið gerð grein fyrir því vildi hann að fólk færi í Langadal. Þá var honum sagt frá því að aka þyrfti yfir Krossá.
Líklegast sendi hann þessar upplýsingar jafnóðum til yfirboðara sinna sem vissu greinilega ekki heldur hvað ætti að gera. Get ímyndað mér handapatið í höfðustöðvunum þegar þeir sem ætluðu að bjarga okkur leituðu uppi landakort og reyndu að lesa í það - án árangurs.
Loks var öllum heimilað að fara úr Básum. Og núna, tíu dögum síðar, þegir lögreglan og almannavarnir yfir þessu klúðri. Mjög skynsamlegt af þeim.
Mér er svo sem alveg sama. Sakna bara kærunnar.
Ófært á gosslóðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.