Bullið og vitleysan í löggunni og almannavörnum
3.4.2010 | 01:07
Ég var inni í Básum á Goðalandi þegar nýja sprungan opnaðist á Fimmvörðuhálsi. Þá greip um sig þvílík taugaveiklun hjá lögreglu að ég hreinlega efast um að það fólk sem standa að skipulagningu og hjálparstarfi sé vandanum vaxið. Biðst fyrirfram afsökunar á þessari fullyrðingu minni en þetta er það sem gerðist.
Bannað að vera, bannaða að fara ...
Fyrst kom tilkynning um að allir ættu að yfirgefa Bása. Nokkrum mínútum seinna var tilkynnt að enginn mætti fara úr Básum. Örfáum mínútum síðar var ákveðið að allir ættu að fara í Húsadal. Fararstjóri hjá Útivist benti þá ábúðarfullum lögreglumanni á að til þess þyrfti að allir að fara yfir Hvanná, en búist var við að hún myndi vaxa.
Eftir nokkra rekistefnu kom lögreglumaðurinn aftur með þau fyrirmæli að engin mætti fara Þórsmerkurleið heldur ættu allir að fara Langadalsleið. Þessa vitleysu bergmáluðu svo hjálparsveitarmenn.
Mér var gjörsamlega ókunnugt um þessar leiðir og spurði nærstaddan björgunarsveitarmann hvort hann vissi eitthvað um þær. Hann vísaði mér á lögreglumann sem stóð ábúðarfullur og skýrði málin út fyrir fólki.
Ég heyrði strax á mæli lögreglumannsins að hann vissi ekkert um hvað hann var að tala, stagglaðist stöðug á lokun á Þórsmerkurleið og opnun á Langadalsleið eins og nærstaddir vissu allt um þær. Og þegar ég reyndi að skýra það út fyrir manninum að þessar meintu leiðir væru ekki til það varð hann pirraður.
Heyrðu góði, sagði hann og leit niður til mín. Þú ert að verða dálítið æstur.
Auðvitað hraðneitaði ég því og bauð lögreglumanninum að koma með mér niður að Hvanná. Ef hún væri tær eins og fyrr um kvöldið þegar ég kom væri óhætt að fara yfir hana. Málið væri svo einfalt.
Nei, við það var ekki komandi. Ég var bara kverúlant sem ekkert vissi um málin. Langadalsleiðin var verkefni dagsins og björgunarsveitir áttu að fara með fólk yfir í Langadal. Sami fararstjóri hjá Útivist benti lögreglumanninum á að þá þyrfti mannfjöldinn að fara yfir Krossá, sem hingað til væri nú frekar álitinn vera farartálmi en hitt.
Enn fór lögreglumaðurinn með þessar upplýsingar til yfirboðara sinna og kom með þá tilkynningu að allir ættu að halda kyrru fyrir í Básum.
Fæstir tóku mark á þessum fyrirmælum og fjöldi fólks fór á brott í sínum bílum. Aðrir voru nauðugir viljugir dregnir yfir í Langadal. Til hvers veit ég ekki, né heldur veit ég hvers vegna yfirvöld töldu fólk vera öruggarar þar.
Loks eftir langa mæðu kom í ljós að fólk hafði flest enga möguleika á að dvelja yfir nótt í Básum, hafði hvorki mat né teppi eða svefnpoka. Fólk var bara í dagsferð og gerði ekki ráð fyrir næturdvöl. Líklegast hafa yfirvöld vegið og metið kostnaðinn við að koma teppum inn í Bása eða leyfa fólki að fara sína leið. Hið síðarnefnda varð svo ofaná.
Gönguferð í myrkrinu
Hvað mig varðar þá gekk ég með nokkrum félögum upp í Ytra-Básaskarð og horfði þar til eldstöðvanna í myrkrinu. Svo gengum við niður aftur eftir að hafa gónt dágóða stund á rauðaleita birtuna á gufumekkinu og stöku eldtungur teygja sig upp í loftið.
Og þar sem ég stóð nokkru síðar við grillið í Básum og steikti hluta af svíni kom þá ekki að sami lögreglumaður og hafði pirrast yfir mér fyrr um kvöldið.
Fórst þú upp á fjall, spurði hann formálalaust.
Ég játaði því enda legg ég það ekki í vana minn að skrökva að yfirvaldinu.
Þú vissir að ég hafði bannað ferðir af svæðinu, sagði þá lögreglumaðurinn og, svei mér þá, hann var ekki að grínast.
Nei, það vissi ég ekki, svaraði ég.
Víst, sagði hann.
Nei, sagði ég.
Þú kaust þá að heyra ekki það sem ég sagði, sagði hann þá.
Nei, hvernig ég að vita um öll þín ræðuhöld? spurði ég.
Þú varst þarna nálægur, sagði lögreeglumaðurinn. Ég veit að þú heitir Sigurður og ég hef vitni að því að þú vissir um bannið.
Ég vissi ekkert um það, fullyrti ég.
Víst, sagði hann.
Nei, sagði ég.
Jú.
Nei.
Jú.
Hvað heldurðu að svona rökræða taki langan tíma og hverju heldurðu að hún skili? spurði ég og gjörðist nú þreyttur á staglinu. Hefurðu kannski ekki eitthvað annað og merkilegra að gera en að leggja mig í einelti fyrir það eitt að þú hafir verið ber að því að kunna ekki landafræði. Auðvitað átti ég ekki að segja þetta við aumingja manninn. Maður á aldrei að gera grín að fáfræði annarra og allra síst þeirra sem hafa völdin sín megin.
Og mér hefndist svo sannarlega fyrir það: Ég ætla að kæra þig fyrir brot gegn valdstjórninni, hafa farið gegn fyrirmælum um að halda kyrru fyrir á svæðinu.
Svo skiptumst við eitthvað frekar á orðum og fór hvor síðan til sinna verkefna, ég snéri svínalærissneiðunum við en löggi hélt líklega áfram að bora í nef sér eða hrella einhverja aðra ferðamenn.
Skyndilega og eins og hendi væri veifað hurfu flestir ferðamenn úr Básum og við urðum örfá eftir. Stuttu síðar fékk ég nokkur símtöl frá vinum og kunningjum sem voru í hópi þeirra sem fóru og þeir tilkynntu mér að engin breyting hefði orðið á Hvanná, hún væri jafn tær og fyrr um daginn.
Og núna, þegar ég les um afköst og iðni almannavarna, lögreglunnar og jafnvel björgunarsveita verður mér hugsað til lögreglumannsins sem kunni fátt í landafræði, Þórsmerkurleiðarinnar og Langadalsleiðarinnar sem gáfumennin hjá almannavörnum á Hvolsvelli eða í Reykjavík fundu upp til að bjarga okkur frá eldgosavánni.
Þess má þó geta að vegurinn frá gömlu Markarfljótsbrúnni og inneftir er stundum nefnd Þórsmerkurleið þó svo að hún endi í Básum. Hins vegar talar enginn um þá leið með þessu nafni heldur er yfirleitt farið inneftir eða úteftir. Og svo fara sumir í Langadal, aðrir í Húsadal og margir í Bása. Fæstir eru leiðir á þessum stöðum.
En guð hjálpi Íslandi þegar eitthvað alvarlegt gerist í náttúru landsins og þeir sem ekkert kunna fyrir sér í landafræði taka til við að skipuleggja. Líklegast er best að handtaka fyrirfram þessa kverúlanta sem eitthvað þekkja af örnefnum svo þeir flækist nú ekki fyrir.
Smala fólki af gossvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Facebook
Athugasemdir
Sigurður: alveg dæmigert fyrir valdstjórnina, að sanna að hún veit ekkert hvað hún er að gera, og við svona aðstæður er oftast betra að rangt heldur en ekkert hahaahahah.
Magnús Jónsson, 3.4.2010 kl. 01:44
Heyrðu góði ... mér þykir þú farinn að gera þig breiðann.
Mér finnst ekki fallegt af þér að úthúða lögguskinni sem hefur áreiðanlega ekkert viljað annað en gott og var bara að passa upp á að þú grillaðir ekki á þér afturendann, eins og honum hafði verið skipað að gera?
Þú verður að athuga það, Sigurður, að þegar löggan segir að maður megi hvorki né eigi að príla í burtu og fara Langadalsleið þá á maður að gera nákvæmlega það, fara Langadalsleið, burtséð frá því hvort sú leið sé til eða ekki.
Hún VERÐUR nefnilega TIL um leið og bjargvættir þínir SEGJA að hún sé til. Þannig virkar kerfið.
Og það skiptir heldur engu máli hvort maður HEYRI lögguna segja að það sé bannað að príla í burtu eða ekki.
Maður prílar einfaldlega ekki í burtu þegar löggan er að segja manni að fara Langadalsleið því þá FER maður Langadalsleið og getur einfaldlega ekki LÍKA prílað burt upp í sjóðandi eldfjöll og hraunfossa.
Það er áreiðanlega ÞAÐ sem hann var að meina, lögguskinnið. Skil hann vel.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 02:08
Gott blogg hjá þér, Sigurður. Ég hef svolítið getað fylgst með fíflaganginum í kringum þetta gos. Var ekki ein hugmyndin sú að gyrða svæðið af? Vonandi gyrða þeir öll hættuleg fallvötn, kletta, jökulsprungur og hveri á landinu í leiðinni...
Hörður Þórðarson, 3.4.2010 kl. 02:20
Grefill: er einhver von á að þú eða einhver annar geti látið þíða þetta sem þú varst að skrifa yfir á íslensku, sko engin leið að skilja þetta á hinu gamla góða ilhýra sko, hversu breiðir mega menn vera ?, er lögguskinn- einhverskonar tuska eða afsökun fyrir fávisku?, veit vegamálaráðherra af þessari visku þinni að bara við að segja langadalsleið, "pestó " þá verður hún til, vona að þú getir komið samgönguráðherra inn á þessa briljant lausn á Vaðlaheiðargöngunum?, væri ekki nær að lögreglan kynti sér málin áður en hún úttalaði sig án hroka, eða er það til of mikils mælst????
Magnús Jónsson, 3.4.2010 kl. 02:27
Þeir ættu eiginlega að gyrða Ísland bara af í heild sinni, enda eina leiðin til að halda útlendum ferðaglöðum fábjánum frá og um leið eina leiðin til að koma í veg fyrir að við, innlendu fábjánarnir, dreifum okkur um allar heim og smiti aðra jarðarbúa af fíflaskap.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 02:28
Magnús minn, voðalegt er að heyra þetta. Hvar varst þú þegar Guð gaf okkur húmörinn?
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 3.4.2010 kl. 02:33
Grefill:ég féll í gildruna þína, var greinilega smitaður síðast þegar, Soltan Gris átti leið hjá í " Mision Earth 1-10, L Ron Hubbard, 7 þúsund blaðsíður af vísindaskáldskap enfyllilega þess virði að lesa sko. vísindaskáldsaga, þú hefðir húmor fyrir henni alveg örugglega.
Magnús Jónsson, 3.4.2010 kl. 03:12
Þetta er dæmigerður HROKAPÚNGUR, og ég fullyrði að það er fullt af þeim í lögregluni,Undarlegt er það ekki vegna þess að í gegnum tíðina hafa safnast alskonar delar í þessa starfsstét,Einmitt með svona einkenni eins og þú lýsir,þykjast vita altt enn vita minna en barn.
Þórarinn Baldursson, 3.4.2010 kl. 08:14
Þetta er eiginlega tómur misskilningur á blogginu mínu. Það var ég sem var hrokagikkurinn og besserwisserinn. Þessi ágæti lögreglumaður var bara að gera skyldu sína en því miður hitti hann fyrir einbhvern rugludall sem lét sér ekki segjast og þurfti endilega að reyna að koma því að hvað hann vissi mikið en lögreglumaðurinn lítið.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.4.2010 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.