Jólasaga um vitleysisgang og hálfa kirkjuferð
26.12.2024 | 12:14
Jólin eru hjá mér tími mistaka og þá fer allt úrskeiðis en flest endar þó oftast vel. Ég gæti sagt margar hryllingssögur um atburði sem síst af öllu eru jólalegir. Þó er ýmislegt í frásögur færandi eins og þessi saga sem hér greinir frá sannar. Margir hafa skorað á mig að segja hana opinberlega því fullyrt er að hún sýni og sanni vandræða- og vitleysisganginn sem einkennir líf mitt. Sagt er að á jólunum eigi mannfólkið að gleðjast og þessi litla saga hljóti að geta skemmt sumum þó aðrir felli ef til vill tár.
Síðasta aðfangadagskvöld var ég eins og endranær boðinn í mat hjá syni mínum og fjölskyldu hans. Átti að mæta þar klukkan sjö og því fannst mér tilvalið að fara í kirkju á undan. Til að atburðarás sögunnar skiljist ber að taka það fram að ég bý lengst uppi í fjöllum eða því sem næst ... næstum því uppi í Heiðmörk. Sonurinn býr aftur á móti í Vesturbæ höfuðborgarinnar, nærri því úti við sjó. Neskirkja er skammt frá heimili hans og þess vegna ákvað ég að njóta þar helgistundar.
Ók ég nú varlega vestur í bæ. Kirkjudyrnar voru opnar er að var komið og gekk ég inn virðulegur í fasi og tók presturinn og meðhjálparinn á móti mér með handabandi því ég er heldri maður og er jafnan heilsað með virktum er ég geng til tíða. Ég var hissa á að sjá að í kirkjunni voru fáir, þó vantaði klukkuna þegar þarna var komið sögu aðeins um stundarfjórðung í sex. Fyrirfram hafði ég ekki búist við því að að fá sæti svona seint þó heldri maður sé. Svo hlédrægur og feiminn sem ég er, valdi ég mér sæti aftarlega, nærri því úti í horni, á bak við eina af súlunum sem líklega standa undir upphæðum kirkjunnar.
Svo gerðist kraftaverkið. Ég var ekki fyrr sestur en kirkjan fylltist af prúðbúnu fólki og helgihaldið hófst með fögrum og innilegum söng, tónum og ræðum presta. Mér vöknaði um augun og þurfti því að láta hugann reika langt frá athöfninni svo ég, vasaklútslaus maðurinn, færi nú ekki að skæla áður en Heimsumbólið yrði sungið.
Jú, ég var með pakkana úti í bíl, allir voru þeir að mínu mati fagurlega umvafðir skrautpappír og merktir. Sum sé, allt í góðum gír. Svo fraus ég, kólnaði allur að innan, var þó funheitt kirkjunni og ég enn í heldri manna loðfeldi. Ástæðan fyrir mínu innra frosti var að þarna í meinleysilegum hugrenningum mínum rann upp fyrir mér að gjafirnar frá dóttur minni og fjölskyldu hennar í Noregi og voru til fjölskyldu sonarins voru enn inni í skáp heima, lengst uppi í fjöllum, hálfa leið til Hveragerðis.
Nú voru góð ráð ekki aðeins dýr heldur vandfundin. Vissulega gæti ég brugðist minni elskulegu dóttur og afhent gjafirnar daginn eftir. Nei. Það var mér ekki sæmandi. Ég litaðist um í skyndi. Klukkan var tuttugu mínútur yfir sex og kórinn söng yndislega Núerglattídöprumhjörtum og á eftir átti að vera prédikun og síðan einsöngur. Sem betur fer hafði enginn beðið mig um að syngja svo ég bjó til plan eins og stjórnmálamaðurinn sagði fyrir síðustu kosningar.
Kórinn söng síðasta erindið og þá var komið að prédikuninni. Presturinn spjallaði alþýðlega við söfnuðinn, var elskulegur og sannfærandi svo klakinn innra með mér þiðnaði þó enn væri hjartslátturinn var yfir eitt hundrað slög á mínútu samkvæmt Eplaúrinu mínu.
Þarna voru taugar mínar þandar til hins ýtrasta og um leið og prestur sleppti síðasta orðinu rauk ég upp, hljóp yfir þrjár sætaraðir, stiklaði á höfði nokkurra aldraðra kirkjugesta og skaust á ofurhraða úr úr kirkjunni ... Nei, auðvitað ekki. Þó planið væri á þessa leið fór ég mér hægar.
Ég stóð varlega upp en kannski ekki nógu hljóðlega. Allir á bekkjarröðunum fyrir framan mig litu við, sumir sussuðu en lítil börn fóru að gráta. Ég fikraði mig eftir norðurvegg kirkjunnar, rakst óvart á súlu sem einhvern veginn hafði færst út á gangveginn, en hún skemmdist ekki mikið. Síðan hljóp ég út en fann um leið að augu allra kirkjugesta brunnu á baki mínu, vanþóknun þeirra var næstum heyranleg. Meira að segja einsöngvarinn gat ekki byrjað fyrr en bíllinn minn var kominn í gang. Hef ekki enn fengið þetta allt endanlega staðfest en allt bendir til að svona hafi þetta verið.
Á leiðinni upp í fjöllin braut ég nokkrar (margar) umferðarreglur á Hringbraut og Miklubraut en hirði ekki um að tíunda þær því löggan er vís með að lesa ritgerðina. Heim komst ég. Þar var sótsvört hríð en mér tókst að skríða inn um opinn glugga, sótti gjafirnar sem dóttir mín hafði pakkað svo snyrtilega inn. Í bílinn var ég aftur kominn er klukkan var sló korter í sjö.
Þetta stóð tæpt. Ég ók af stað, keyrði eins og druslan dró, skrensaði í beygjum og braut sömu umferðareglunar og áður en í öfugri röð. Tuttugu mínútum síðar var ég kominn gjóluna í Vesturbænum. Ég lagði upp á gangstétt fyrir framan heimili sonarins, hljóp út úr bílnum, varð samstundis fótaskortur á svellinu, reif sparibuxurnar og óhreinkaði skyrtuna, týndi vasaklútnum, húfan fauk og hárkollan með og Gammeldansk flaskan í buxnastrengnum brotnaði. Inn komst ég samt um síðir.
Enn var enginn sestur til borðs. Ég var nokkuð móður, lét þó ekki á neinu bera. Sagði engum frá því að ég hefði farið út úr messu í fyrri hálfleik (sem þykir nú ekki góð lenska á Meistaravöllum KR-inga). Nefndi ekki að ég hefði gleymt gjöfum dótturinnar heima heldur hlammaði mér í næsta stól og drakk sódavatn, viskí, koníak og bjór (í þessari röð) og náði þar með þokkalegu líkamlegu jafnvægi en andinn var enn órólegur.
Ýmsum þótti ég nokkuð fölur og var ég oft um kvöldið spurður um heilsufarið. Ég gaf fá svör en drafaði eitthvað um Íbettleheimerbarnossfætt og þóttust allir skilja. Gjafirnar frá fjölskyldu dóttur minnar voru vel þegnar. Og mínar einnig þó að ég hefði pakkað þeim inn í stóra kassa og þyngt með steinum og blómapottum en það er nú önnur saga og dagsannari en þessi hér.
Enginn lendir í svona hremmingum í jólastressinu á aðfangadegi jóla nema ég. Oftast hendir eitthvað álíka á hverju ári. Ástandið hefur samt ekkert lagast með hærri aldri enda fylgir honum ekki meira vit. Þvert á móti.
Í gamla daga sá ég yfirleitt um matinn á aðfangadegi eins og allir almennilegir feður gera. Eitt sinn matbjó ég kalkún heima og ók síðan á leifturhraða í gegnum bæinn til að komast til sonar míns sem hélt kvöldverðinn í nýju íbúðinni sinni. Þar biðu allir eftir aðalréttinum sem skoppaði um í aftursæti bílsins eins og bolti því hratt var ekið. Af þessu lærði ég að bíll með sósublettum í aftursæti selst við lægra verði en þeir sem enga hafa.
Eftir þetta tóku börnin mín sig til og hafa síðan búið til jólamatinn. Aldrei er ég beðinn um aðstoð. Mér er eiginlega sama, það á ágætlega við mig að éta. Þó var það eitt haustið að ég skaut ég átta rjúpur og á mig var skorað að búa til grafna rjúpu sem forrétt. Á þeim tíma þótti ég mikill veiðimaður, átti einstaklega auðvelt með að skjóta hvítar rjúpur á auðri jörð ef þær hreyfðu sig ekki mikið. Við matargerðina var mér það á að mislesa uppskriftina, notaði aðeins of mikið salt (jæja, alltof mikið) þegar ég gróf þær og forrétturinn varð þar af leiðandi óætur. Síðan hef ég ekki veitt rjúpur. Vil samt taka það fram að enginn hefur bannað mér mikið að fara á veiðar.
Í lokin er ágætt að taka það fram að fátt þykir mér betra en að gefa jólagjafir. Verst er þó að maður þarf samkvæmt siðvenjunni að pakka þeim inn í marglitan pappír sem er frekar tímafrekt, flókið og þreytandi verkefni. Læt mig þó hafa það þrátt fyrir aðhlátur enda eru jólin gleðitími. Er þaki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)