Handarbaksvinnubrögð löggunnar og Almannavarna

Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall varð Suðurnesjalöggan og Almannavarnir sér til skammar vegna handarbaksvinnubragða og þekkingarleysis. Bæta má Vegagerðinni við sem lét hafa sig í að ganga erinda löggunnar. Suðurstrandavegur frá vegamótunum við Kleifarvatnsveg og allt vestur að Grindavík var lokaður um heila helgi og því borið við að skemmdir væru á veginum vegna jarðskjálfta. Það var fyrirsláttur.

Þúsundir manna vildu sjá eldgosið en löggan og Almannavarnir létu það að ganga frá Grindavík eða jafnvel Bláa lóninu. Mörgum reyndist það erfitt, meira en 20 km báðar leiðir yfir ógreiðfært hraun.

Í upphafi var með öllum ráðum reynt að tálma för fólks að gosstöðvunum. Allt fór í flækju þangað til einhverjum datt í hug að búa til bílastæði svo ekki þyrfti að skilja bíla eftir á vegkanti. 

Fullyrt var að eldgosið væri öllum hættulegt. Það var rangt. Jarðfræðingar og allir þeir sem eitthvað þekkja til jarðfræði vissu frá upphafi að engin hætta var á ferðum. Þetta var sprungugos með stefnuna suðvestur-norðaustur eins og flest önnur eldgos hafa verið á Reykjanesi. 

Aðeins ein eldsprunga opnast úr hverjum kvikugangi, ekki tvær og aldrei samsíða. Hins vegar getur sprungan verið slitrótt, ekki löng og samfelld.

Jarðeðlisfræðingur sagði gosið vera ræfil sem reyndist rétt þó svo að fjölmiðlar og fleiri reyndu að gera grín að honum fyrir vikið.

Löggan á Suðurnesjum og Almannavarnir ákváðu seint og um síðir að ryðja ekki gönguleið um Nátthagadal sem þó var einfaldasta og besta leiðin að gosstöðvunum. Fullyrt var að kvikugangur  væri undir dalnum. Það var síðar dregið til baka.

Gönguleið A reyndist torsótt fyrir flesta. Hún var löng og ógreiðfær. Versti farartálminn var löng og brött brekka sem var afar erfið fyrir flesta. Þá var brugðið á það ráð að setja langan kaðal í brekkuna til að göngufólk gæti handstyrkt sig upp. Enginn fjallamaður hefði mælt með því. Skynsamlegra hefði verið að setja upp nokkra styttri kaðla. Margir misstu takið á kaðlinum er hann sveiflaðist til og frá.

Svo datt löggunni og Almannavörnum það snjallræði í hug að sneiða framhjá kaðalbrekkunni og fara upp gil skammt austan við hana. Vissu þeir ekki af gilinu, fóru þeir aldrei á staðinn, lásu þeir ekki landakort? Uppferðin reyndist þar aðeins skárri, engan kaðal þurfti. Loks datt sófaköllum í huga að nota jarðýtu til að ryðja leiðina, gera sneiðing framhjá þessum tveimur áðurnefndu bröttu brekkum. Það var skynsamlegt.

IMGL7154Aldrei flögraði að þeim í löggunni og Almannavörum að gera gönguleið um Nátthagadal. Þess í stað var fólk þvingað um leiðir sem nefndar voru A, B og C. Svo voru sett skilti hingað og þangað sem áttu að vara fólk við því að slasa sig. Hvergi var neitt gagn af þessum skiltum og óskiljanlegt hvernig þeim var valinn staður.

Varla hefur nokkur maður í löggunni eða Almannavörnum neina reynslu af fjallamennsku. Einfaldast hefði verið að tala við Ferðafélag Íslands og biðja félaga þar um að marka bestu leiðir að gosstöðvunum. Í því er mikil reynsla af ferðalögum og gerð gönguleiða. Auðvitað datt engum í hug að tala við þá sem hafa þekkingu eða reynslu. Þess í stað remmdust þeir sófaliðinu í löggunni og Almannavörnum að finna upp hjólið. Það tókst illa.  

Tvær gönguleiðir á gosstöðvum reyndust bestar. Ókunnugir þurftu aðeins að skoða landakort og þá sást að Nátthagadalur og Langihryggur hentuðu best. Löggan og Almannavarnir virtust ekki kunna á landakort.

Um síðir rann hraun yfir allar gönguleiðir löggunnar og einnig í Nátthagadal. Aðeins Langihryggur hefur enst. Leiðin þar upp var unnin með jarðýtu og var skynsamlega að verki staðið.

Önnur gönguleið varð óvart til. Með jarðýtu voru gerðir sneiðingar upp kaðalbrekkuna sem nefnd var hér á undan. Ástæðan var sú að gera þurfti ryðja leiðigarða þar fyrir ofan. Dugðu þeir vel, stýrðu hrauni ofan í Nátthagadal.

IMGL7288Löggan þurfti samt að setja gula plastborða fyrir leiðina svo fólk færi sér ekki að voða. Fæstir létu þá trufla ferðir sínar. Um síðir fuku þeir út í veður og vind. Sprækir göngumenn gengu upp á Fagradalsfjall og fengu þaðan frábært útsýni að gosstöðvunum. Þegar gaus í Meradal fóru margir þessa leið. Löngu síðar kom löggan á eftir með jarðýtuna sína og ruddi leiðina. Það var þakkarvert þó stutt væri í goslok. Sem sagt, fólk markaði leiðina og löggan elti.

Svo ákveðin var löggan og Almannavarnir í því að bjarga fólki frá heimsku sinni að bannað var fyrir börn innan tólf ára að fara að gosstöðvunum í Meradal. Ekki reyndist lagastoð fyrir þeirri ákvörðun. Þegar kveðið var upp úr með það var gosið löngu búið en fjöldi barna hafði engu að síður farið með sínu fólki til að sjá það. Fólk virðir bjánalegar skipanir að vettugi.

Nú virðist sem að aftur muni gjósa við Fagradalsfjall. Vera má að sófakallarnir í Suðurnesjalöggunni og Almannavörum hafi lesið sér til í fjallamennsku. Það dugar hins vegar ekki. Menn læra af reynslunni. 

Sófakallarnir ættu að hringja í Ferðafélagið og biðja þá sem þar stjórna um að skipuleggja leiðir að nýjustu gosstöðvum. Vit er í að fá aðstoð, vitleysa að ana áfram. 

 


Eru líkur á eldgosi við Fagradalsfjall innan tveggja vikna?

Þriðja lota elda á Reykjanesi er hafin með mikilli jarðskjálftahrinu norðvestan við Faradalsfjall. Skjálftarnir eru án efa vegna kvikugangs sem liggur suðaustur frá Keili og í áttina að gossvæðinu frá árunum 2021 og 2022.

Samkvæmt lauslegri athugun á jarðskjálftunum á vefum Veðurstofnunnar og map.is virðast upptök skjálftanna vera dýpri rétt suðvestan við Keili, á að giska fimm km, og þar eru þeir snarpastir. Nær gosstöðvunum í Meradal veru þeir færri en grynnri, upptökin nær fjórum km á dýpt.

Þetta er svipað og fyrir gosið við Fagradalsfjall árið 2021. Færðust þá upptökin æ nær svokölluðum Geldingadal þar sem loksins gaus. Jarðskjálftahrinan árið 2021 náði til sjávar og undir hafsbotninn.

Í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Hins vegar geta jarðskjálftar verið undanfari eldgosa. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En fáir gefa þeim gaum nema jarðfræðingar sem skoða þá vandlega, og að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira sem getur bent til að gos sé að hefjast.

Jarðfræðingar hafa í fréttamiðlum sagt að skjálftavirknin milli Fagradalsfjalls og Keilis sé svo ofsafenginn að miklar líkur séu til þess að jörð sé að bresta og eldur komi upp á yfirborðið. Miðað við reynsluna af síðustu gosum er ekki ólíklegt að nú gjósi innan tveggja vikna. Möttulkvikan virðist hafa fundið kvikuganginn sinn og þrýstingur frá henni sé nægur til að hreyfa við jarðskorpunni, valda skjálftum.

IMGL0997_IMGL0999 Aur

Hvað gerist næst? Miðað við það sem gerðist árið 2021 er hægt að ímynda sér að kvikugangurinn lengist í suðvestur, og aftur gjósi á sömu slóðum. Þá fullyrtu jarðvísindamenn að hann væri undir Nátthagdal og jafnvel undir gönguleið A. Fjölmargir skjálftar mældust undir sjávarbotni og  veltu margir því fyrir sér hvort gjósa myndi í sjó. Það getur allt eins gerst núna.

IMGL0996 NeoEfri myndin hér fyrir ofan er tekin norðan við Meradalshnúk. Þar er talsverð slétta allt að fjalli sem nefnist Kistufell og er Keilir í hvarfi við það. Á miðri myndinni má greina jarðfall eða sprungu sem sést betur á þeirri neðri.  

Jarðvísindamenn hafa lengi haft mikinn áhuga á sprungunni og sett einhver mælitæki við hana. Ástæðan er sú að sprungan virðist vera í beinu framhaldi af kvikuganginum sem olli gosinu í Geldingadal og Meradal. Ef til vill er hún núna að gliðna. Hver veit.

Þarna gæti gæti gosið og það er hinn besti staður Hraun myndi fyrst og fremst renna í Meradal og fylla hann. Flæddi út úr honum rynni hraun í Skolahraun og suður til sjávar.

KortHér er kort af skjálftum síðustu dægra tekið af map.is sem er afskaplega góður vefur fyrir þá sem áhuga hafa á landafræði og ekki síður jarðskjálftum.

Ágætt er að tvísmella á myndir og kort til að stækka.

Neðsta myndin er tekin ófrjálsri hendi af vef Veðurstofunnar og sýnir upphaf eldgossins í Meradal. Eldsprungan teygir sig þarna upp í hlíð Merarfells. Sprungan sem nefnd var hér fyrir ofan og örin bendir á, er í beinu framhaldi af eldinum.

Af hverju var sprungan í Meradal svona stutt, komst ekki upp á sléttuna fyrir ofan. Skýringin er einföld, gosið var frekar kraftlítið, ekki nógur þrýstingur í kvikuganginum.

 

Screenshot 2023-03-25 at 10.36.06

 


Bloggfærslur 5. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband