Eyðing sálar

Skiln­ing­ur eða túlk­un Frans páfa er mun mannúðlegri og nú­tíma­legri. Hann tel­ur hins veg­ar að þeir sem sýna enga iðrun muni hverfa eða eyðast, þannig að eng­inn er stadd­ur í hel­víti. Sá sem er trú­laus og neit­ar að iðrast hlýt­ur að telja eyðingu betri kost en að brenna í hel­víti að ei­lífu.

Þetta segir Sigurgísli Skúlason, sálfræðingur, í afar fróðlegri og vel skrifaðri grein í Moggann 31.5.23. Í henni rekur hann viðtal Eugenio Scalfari við Frans páfa. Sá fyrrnefndi var áhrifamikill ítalskur blaðamaður og útgefandi. Þann síðarnefnda þarf ekki að kynna. Áhugavert er að velta ofangreindum orðum fyrir sér og jafnvel halda lengra í vangaveltunum.

Pælingin sem ofangreind tilvitnun vekur í huga mínum er flókin en í sjálfu sér hrífandi hugsun um líf eftir dauðann og tengingu við sannfæringu einstaklingsins í lifanda lífi sem jafnvel nær út yfir gröf og dauða eins og sagt er.

Iðrun og fyrirgefning er ein af stoðum kristinnar trúar. Samkvæmt henni þarf iðrun svo hægt sé að fyrirgefa. Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé af grundvallarástæðu að neita því að iðrast. Hvers góð eða traust sem ástæðan kann að vera er ekki hægt að veita fyrirgefningu.

Leið þess sem stendur hnarreistur fyrir æðri máttarvöldum, iðrast ekki og biðst ekki vægðar heldur segir; þetta gerði ég af því að það var rétt.

Dómarinn æðsti réttir úr sér og segir nærri ef til vill; „computer says no“. Viðhorf sem  þetta er ekki iðrun heldur þrákelni. Sál þess hnarreista er því annað hvort send beinusta leið til helvítis þar sem hún brennur að eilífu, eða henni sé einfaldlega eytt. Andinn hverfur, sporin hverfa, allt er ónýtt. Er þetta sanngjarnt?

Helvítiskenning kirkjunnar byggðist á tvennu, synd eða ekki synd. Vandinn er bara sá að lífið er ekki svart og hvítt. Ekki er hægt að meta lífsferil manns samkvæmt meðaltali, að sá sé hólpinn sem nái lágmarkseinkunn.

Ég velti þessu fyrir mér eftir að hafa lesið grein Sigurgísla.

Upp á síðkastið hef ég verið að hlusta á fróðlega og góða bók, Bærinn brennur eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Arnar Jónsson les hana á svo áhrifaríkan hátt að athygli hlustandans er sem límd við söguna, umhverfi nútímans breytist og samtíminn í upphafi 19. aldar verður til.

Bókin fjallar um morðin á Illugastöðum 1828. Aðdragandi þeirra er rakin á sagnfræðilegan hátt, einkum samkvæmt málsskjölum en getið er um sögusagnir og þær hraktar. Sagt frá þremenningunum sem voru sek fundin, fjölskyldum þeirra og fleirum. Upp úr stendur hversu lífsbaráttan var erfið á þessum árum, kjörin bág og lítið mátti út af bregða svo líf einstaklings yrði ekki að hræðilegri vesöld.

Óharðnaður unglingur, Friðrik Sigurðsson (18 ára), myrti Natan Ketilsson (36 ára) bónda með hamri. Hjá stóð Agnes Magnúsdóttir (33 ára) og Sigríður Guðmundsdóttir (16 ára). Þau sköpuðu sér hræðileg örlög sem ekki síst umhverfi þeirra bjó þeim og miskunnarlaus stjórnvöld. Takið eftir aldri þeirra. Öll voru þau dæmdi á höggstokkinn en litla stúlkan hún Sigríður var náðuð, hélt höfðinu en var send í ævilanga erfiðisvinnu í Danmörku og lauk lífi sínu sex árum síðar. Þannig var nú réttlæti þessa tíma.

Samkvæmt málsskjölum höfðu þau þrjú ætlað að stela peningum Natans sem þó var ekki eins ríkur og flestir ætluðu. Aðrar ástæður eru líka tilgreindar. Agnes á að hafa verið full heiftar út í Natan og líkur benda til að ástæðan sé kynferðisleg misnotkun.

Þá fór ég að velta fyrir mér því sem segir í upphafi þessa pistils, um orð Frans páfa sem heldur því fram að enginn sé í helvíti, þess í stað er hverfa sálir þeirra sem ekki iðrast. Þeim er líklega eytt í sorpu eftirlífsins. 

Þetta eru forngrýtis kenningar, hótun. Geri maður ekki það sem sagt er, liggja við limlestingar eða dauði. 

Sama gerðist við aftökur Friðriks og Agnesar á Þrístöpum árið 1830. Fólki í Húnvatnssýslu var þröngvað til að horfa á þær að viðlögðum refsingum. Eflaust hefur enginn náð sér eftir lífsreynsluna.

Víkjum nú í eftirlífið þar sem Agnes Magnúsdóttir stendur frammi fyrir æðsta dómi og er þar spurð hvort hún iðrist ekki gjörða sinna. Gefum okkar að hún neiti staðfastlega og bæti síðan gráu ofan á svart með því að segja að Natan hafi átt þetta skilið. Svo segir hún frá misnotkuninni og sárindunum sem hún olli og síðar reiði og heift.

Heyrðu nú góða mín, segir dómarinn, yfirlætislega. Annað hvort iðrastu eða ekki. Hér er enginn millivegur, kona góð. Þú varst óbeint völd að dauða Natans. Iðrunarlaus fær enginn fyrirgefningu. Hér áður fyrr hefðum við sent svona skálk eins og þig til eilífs bruna í helvíti. En þar er nú enginn lengur, eldarnir kulnaðir, svo við eru nauðbeygðir til að eyða sálu þinni.

Harðneskjulegur dómur kirkjunnar og ekkert ólíkur dómi veraldlegra yfirvalda sem dæmdi hana til að hálshöggvast. Á hvorugum staðnum er fyrirgefning í boði, aðeins refsingin ein.

Gæti verið að Friðrik hafi haft vit á því að iðrast í eftirlífinu og fengið fyrirgefningu stórsyndar sinnar og nú flögri sál hans í sæluvistinni í eilífri hamingju?

Þetta voru nú bara hugleiðingar yfir morgunverðarborðinu í gær með Moggann fyrir augunum.

 

 

 


Bloggfærslur 1. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband