Jóhannes Nordal, glæsilegasti fulltrúi veraldar sem var

Ekki fór framhjá áskrifendum og öðrum lesendum Morgunblaðsins að útför Jóhannes Nordal fyrrum seðlabankastjóra er í dag.

Gaman hefði verið að þekkja Jóhannes Nordal, það gerði ég þó ekki en hitti hann nokkrum sinnum á fundum. Samt fannst mér ég hafa þekkt manninn eins og títt er um þá sem oft eru í fjölmiðlum. Kallast það ef til vill einhliða kunningsskapur.

Nær öll uppvaxtarár mín var nafn hans nefnt í fréttatímum útvarps. Heima var það svo að þögn átti að ríkja meðan fréttir voru sagðar í útvarpinu og því lærði ungur drengur óhjákvæmilega að fylgjast með með því sem sagt var. Eftir að hafa lært að lesa tók var Morgunblaðinu flett og smám saman óx skilningur og fyrr en varði var blaðið daglega upplesið og einnig Tíminn en hann fékk afi sendan heim.

Minnisstætt er þegar gengi íslensku krónunnar var margsinnis fellt á sjöunda áratugnum og einnig þeim áttunda. Á eftir fylgdi í fjölmiðlum viðtal við seðlabankastjóra sem sagði frá myrkum en nauðsynlegu tímamótum.

Á æskuheimili mínu var mikið rætt og spjallað við matarborðið, ekki síst um stjórnmál. Þannig var víða og ekki síður á heimili Jóhannesar. 

Tímas Már Sigurðsson tengdasonur hans segir í minningargrein sinni um samkomurnar við borðstofuborðið:

Tekist var á um næstum öll mál undir sólinni. Aldrei skorti skoðanir. Og þá var eins gott að hafa sig ekki í frammi nema maður hefði kynnt sér málin og safnað góðum rökum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir:

„Lifað með öldinni“ sem góðu heilli kom út fyrir síðustu jól. Áhrif hans stöfuðu þó ekki nema að hluta frá stöðu hans sem seðlabankastjóri heldur mun frekar frá persónu hans og mikilli þekkingu á efnahags- og þjóðmálum.

„Vitsmunir“, „hófsemi“ og „góðvild“ eru orð sem samferðarmenn hans hafa valið til að lýsa honum í mín eyru. „Lagni“, „lipurð“ og „traust“ eru einnig orð sem ég hef heyrt. Þessir góðu eiginleikar gerðu Jóhannes að helsta ráðgjafa allra ríkisstjórna í vel á fjórða áratug – sama hvaða flokkar voru við völd.

Hann var ávallt rödd skynseminnar – sem því miður var ekki alltaf hlustað á.

Ingimundur Friðriksson sem var einn af seðlabankastjórunum í hruninu segir:

Einlæg vinátta Jóhannesar var mér einnig mikils virði. Vinahót sem hann sýndi mér og okkur hjónum eftir að ég lét af störfum í bankanum 2009 þótti okkur sérstaklega vænt um.

Tvennt má lesa út orðum Ingimundar sem alræmd ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hrakti úr embætti. Hið fyrra er að ekki bryddar á biturleika né óvild þrátt fyrir ruddalega meðferð og segir þetta þekkilega sögu um hjartalag hans. Hið síðara er að Jóhannes Nordal kom honum til aðstoðar og hjálpaði honum á erfiðri stundu og er það til marks um hlýju mannsins.

Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra segir:

Þekkingu hans, lagni og lipurð var viðbrugðið og naut hann óskoraðs traust, jafnt hinna íslensku yfirvalda sem viðsemjendanna.

Afköst hans þóttu með nokkrum ólíkindum, en þó gaf allt hans fas og framganga til kynna að ekkert lægi á og hann hefði endalausan tíma til að ræða mál í þaula við alla þá sem eftir því óskuðu. Og það gerðu margir, því Jóhannesi var einkar lagið að setja flókin mál fram með skýrum og skiljanlegum hætti.

Hann þurfti ekki, eins og verr gefnum mönnum hættir til, að fela sig á bak við stagl eða froðusnakk fræðisetninga.

Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra segir:

Eftir að ég hætti í bankanum 1983 og fór inn á vettvang stjórnmála var gott að geta stöku sinnum leitað ráða hjá Jóhannesi um ýmis mál.

Síðast áttum við mikilvægt samtal í október 2008 þegar forystumenn þjóðarinnar börðust fyrir efnahagslegu lífi hennar og sjálfstæði. Þá drukkum við saman te á Laugarásveginum eitt sunnudagssíðdegi fyrir milligöngu Ólafar dóttur hans. Gekk ég brattari af þeim fundi en til hans.

Hrundið var án vafa mikið áfall fyrir Geir en Jóhannes var honum betri en enginn á erfiðum tímum og ekki síður Ólöf Nordal sem síðar varð varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra.

Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra segir:

Við ritun bókar sinnar hlýtur Jóhannes oft að hafa glaðst yfir árangrinum af sannfæringu hans um gildi þess að opna íslenska þjóðarbúið fyrir erlendri samkeppni. Þá varði hann kröftum sínum ekki síður til að styrkja menningarlega innviði samfélagsins. Opið samfélag krefst sterkra menningarstoða.

Jón Sigurðsson fyrrum ráðherra:

Jóhannes var slyngur samningamaður. Hann var þægilegur í viðmóti, maður kurteis, umtalsfrómur, fróður og viðræðugóður. Lagni hans, lipurð og þekkingu á samningsefni hverju sinni var við brugðið.

Hann ávann sér ávallt fyllsta traust bæði umbjóðenda sinna og viðsemjenda. Jóhannesi var einkar lagið að setja jafnvel hin flóknustu mál fram á einfaldan og skiljanlegan hátt því að hann var maður orðvís. Hann var mikilvirkur án þess að fara sér óðslega.

Ritsmíðar hans – oftast unnar við hlið mikilla embættisanna – eru miklar bæði að vöxtum og gæðum.

Hann var maður sem gott var að eiga að þegar að kreppti, því hann hafði rósemi hugans þegar úr vöndu var að ráða.

Hannes H. Gissurarson prófessor segir:

Var Jóhannes þó mildastur í dómum. Þegar háskólamaður einn, sem einnig hafði haft nokkur afskipti af stjórnmálum, barst í tal, sagði hann aðeins: „Já, hann hefur aldrei skrifað djúpan texta.“

Jóhannes talaði aldrei illa um aðra, það kemur greinilega fram í minningagreinunum. Eitthvað verður þó að segja þegar vatnið er grunnt.

Pétur Hrafn Árnason sagnfræðingur segir:

Fyrir rúmum áratug leitaði Salvör Nordal til mín um hvort ég væri til í að liðsinna föður sínum við að rita endurminningar. Hvort ég var! Fyrir fræðimann í íslenskri samtímasögu mætti líkja því við að þeim sem væri að rannsaka Sturlungaöld byðist samstarf með Snorra Sturlusyni.

Pétur ritaði endurminningarbók Jóhannesar Lifað með öldinni.

Hjörleifur Guttormsson fyrrum ráðherra segir:

Í samstarfi okkar Jóhannesar fólst m.a. að skoða landið og aðstæður á framkvæmdaslóðum Landsvirkjunar syðra og síðar á Austurlandi. Í slíkum ferðum var hann hrókur alls fagnaðar, hlýddi á ólík viðhorf og setti sig sem best inn í aðstæður. Friðun Þjórsárvera 1981, svo langt sem hún náði, sýndi hann skilning og setti sig inn í flókinn undirbúning Blönduvirkjunar og sjónarmið náttúruverndarráðs og heimamanna.

Jafnvel vinstri menn eins og Hjörleifur mæra Jóhannes.

Þorvarður Elíasson fyrrum skólastjóri Verslunarskólans segir frá vandræðum við að fjármagna nýbyggingu skólans og hann leitaði til Jóhannesar. Þorvarður segir:

Nordal tók á móti mér með þeim orðum að eiginlega mætti hann ekki tala við mig en gerði það fyrst Ágústa hefði bókað mig. Seðlabankinn lánaði ekki fé eins og ég ætti að vita. Ágústa hafði gert grein fyrir erindinu svo ég spurði beint hvernig hann gæti aðstoðað.

Þá segir Nordal: Þú ákvaðst að fara í skólamálin. Þau eru líka mikilvæg. Komdu á morgun og þá færðu að vita, ekki hvað, heldur hvort eitthvað verði fyrir þig gert.

Daginn eftir kom niðurstaðan: Ég á ekki og má ekki gera neitt fyrir þig. Farðu á almenna markaðinn.

Þetta er eftirminnilegasta afgreiðsla sem ég hef fengið og Jóhannesi lík. Skýrt talað og ein ráðlegging.

Skólinn gaf út skuldabréf og setti á markað. Ég vissi að skólinn átti marga fjársterka velvildarmenn en kom þó á óvart að einn aðili keypti öll bréfin og að ég komst upp með að prútta vaxtamun niður í næstum ekki neitt. Ekki veit ég enn hver kaupandinn var.

Þetta er skemmtilega skrifað. Hver skyldi kaupandi skuldabréfsins hafa verið. Böndin berast að ákveðinni stofnun. 

Ólafur Ísleifsson fyrrum starfsmaður Seðlabankans og síðar þingmaður segir:

Meðal fyrstu verkefna á þessu sviði var samningur um bankalán. Jóhannes fylgdist vel með samningaviðræðum við hinn erlenda banka og lagði línur.

Þegar viðsemjendur reyndust á einu stigi erfiðir sagði Jóhannes: „Nú væri kannski rétt að taka kúnstpásu.“

Þegar heppilegum samningi hafði verið landað eftir að kúnstpásan skilaði sínu þótti mér sem ég hefði lokið sveinsprófi í fræðunum undir handleiðslu Jóhannesar eftir undirbúning af hálfu Sigurgeirs [Jónssonar aðstoðarbankastjóra]. 

Já, kúnstpása getur gert sitt gagn, það þekkja margir.

Hér hafa verið rakin eftirminnileg ummæli þekktra manna úr þjóðlífinu um Jóhannes Nordal.

Líklega fer vel á því að ljúka umfjölluninni með orðum Björns Bjarnasonar sem sagði í minningargrein sinni:

Jóhannes er í mínum huga einn glæsilegasti fulltrúi veraldar sem var.

 

 

 


Bloggfærslur 17. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband