Helga Vala Helgadóttir þingmaður skrökvar í Moggagrein

Ég er þess líka fullviss að ef drög að samningi verða landi og þjóð ekki hagfelld þá muni hinn sami almenningur einfaldlega hafna samningsdrögunum.

Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar í Morgunblaðsgrein 11.3.23. Þingmaðurinn, Helga Vala Helgadóttir, fer annað hvort vísvitandi með rangt má eða hún veit ekki betur. Hvort tveggja er afar slæmt.

Hún talar fjálglega um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu og heldur því fram að hægt sé að gera samning sem hægt er að leggja í þjóðaratkvæði. Þetta er svo rangt sem mest má vera.

Ríki sem sækir um aðild vill aðild. Hvorki meira né minna. Evrópusambandið leyfir ekki bjölluat. Ekkert ríki fær að máta sig við aðildina og annað hvort þiggja eða hafna. Sá tími er löngu liðinn. Sá sem ekki veit þetta á ekki að taka þátt í umræðum um aðild að ESB.

Stjórnarskrá Evrópusambandsins er Lissabonsáttmálinn. Hann þurfa ríki að samþykkja, öll ákvæði hans. Engar undanþágur eru veittar ekki frekar en að undanþágur séu veittar frá stjórnarskrá Íslands eða annarra þjóða. Engir samningar eru gerðir, engin „drög að samningi“ munu liggja fyrir eins og þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir skrökvar í grein sinni.

Þegar vinstri stjórnin undir forystu Samfylkingarinnar sótti árið 2009 um aðild að ESB var  Ísland boðið velkomið. Þá hófust aðlögunarviðræður við ESB. Þetta voru ekki neinar samningaviðræður. Ástæðan er einföld. Lög og reglur Ísland átti að breyta og aðlaga 100% að lögum og reglum Evrópusambandsins og stjórnskipun þess það er Lissabonsáttmálanum.

Engin „drög“ verða til að samningi við ESB. Þegar upp er staðið verða Íslendingar að hafa breytt lögum og reglum.

Miðstjórnarvaldið verður í Brussel. Þar á brúsapalli munu Íslendingar þurfa að sækja fyrirskipanir rétt eins og þeir þurftu að gera undir stjórn Dana fyrr á öldum. Meðaltal hagsmuna Evrópusambandsins mun aldrei henta eylandinu Íslandi ekki frekar en mörgum öðrum ríkjum sem þó eru innan sambandins.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður ESB verður með grein sinni sér til skammar. Ekki ólíkt og Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra sem fór með rangt má á blaðamannafundi með Stefan Füle þáverandi stækkunarstjóra sambandsins. Sá síðarnefndi þurfti að leiðrétta rangfærslur Össurar svo eftirminnilega að undan sveið. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.

Í grein sinni í Mogganum segir þingmaðurinn:

Hvers vegna stjórnvöld þora ekki að kanna hvað fæst með aukinni Evrópusamvinnu fæst ekki skýrt nema með sérhagsmunatengslum stjórnarflokka sem þurfa ekkert að óttast nema almenning sem veit sínu viti.

Takið eftir lúmskum áróðrinum í orðalaginu. Þingmaðurinn fullyrðir ýmislegt rangt um stjórnvöld sem hún hneykslast á og þarf að leiðrétta.

Stjórnvöld „þora ekki“. Nei, þetta er rangt. Stjórnvöld vilja ekki því þau vita hvað felst í aðildinni.

Hún talar um „Evrópusamvinnu“ sem líklega er fallegra orð en aðild að ESB. Ísland tekur að fullu þátt í Evrópusamvinnu, það vita allir.

Svo er skotið inn orðinu „sérhagsmunatengslum“ algjörlega út í bláinn en það hefur andstyggilega merkingu, það veit þingmaðurinn og þess vegna er það brúklegt. Hér er það innihaldslaus áróður.

Loks verður þingmaðurinn væminn og heldur að alþýða manna verði hrifin að orðalaginu  „óttist almenning sem veit sínu viti“. Væmið orðalag, forréttindakonan viðrar sig upp við alþýðuna. Mælir fallega en meinar flátt.

Auðvitað veit almenningur sínu viti en Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar skrökvar að honum. Með lævísilegu orðalagi heldur hún því fram að allt sem miður gangi hér á landi lagist ef Ísland gengur í ESB. Þetta eru ekkert annað er ósannindi. Fótboltamaður sem skiptir um félag verður áfram sá sami þótt peysan hans verði rauð eða röndótt.

Um daginn var fjargviðrast yfir ósannindavaðli sendiherra Rússa í Mogganum. Enginn segir neitt þegar þingmaður Samfylkingarinnar fer með rakalaus ósannindi. 


Bloggfærslur 11. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband