Magnús Guðlaugsson

Við vinirnir stóðum á bílastæðinu fyrir utan hús í iðnaðarhverfinu í Árbæ þann 2. maí og spjölluðum saman eftir fund. Napur norðanvindur blés og við mjökuðum okkur í skjól við bílinn hans. Samt var kalt.

Hvað sagði Magnús í hinsta sinn er við sáumst? Um hvað töluðum við? Ég hef reynt að rifja þetta upp en minnið svíkur mig aftur og aftur. Ég minnist bara stóra sviphreina mannsins með góðlegu augun. 

Við töluðum dálítið um heilsuna. Hann kvartaði undan ökklanum, sagði hann ferlega slæman. Það er nú allt í lagi, sagði ég, og nefndi til huggunar að sennilegra væri skárra að hafa hausinn í lagi en ökklann, svona ef upp kæmi sú staða að velja þyrfti á milli. Magnús hló. Svo spjölluðum við eitthvað fleira sem líklega var svo algjörlega hversdagslegt að maður steingleymdi því. Við spauguðum. Slæmt að vera í frábæru líkamlegu formi og fá svo heilablóðfall eða verða fyrir bíl. Um það vorum við sammála.

Hvar kynntumst við? spurði Magnús, allt í einu. Hann mundi það ekki alveg. Ekki ég heldur. Heimdalli, Vöku í Háskólanum, MR? Það skipti engu máli. Leiðir okkar höfðu legið þarna saman og svo ótal oft síðar. Vináttan bast snemma. Alltaf var þótti mér gaman að Magnús. Hann var aldrei á hlaupum heldur gaf sér tíma. Var rólegur og yfirvegaður og veitti óspart góð ráð. Engu að síður hreinskilinn.

Af fésbókinni að dæma naut hann lífsins, unni mat og víni. Fór víða um lönd, snæddi á frægum veitingahúsum og sagði svo vel frá að maður dauðöfundaði hann. Engu að síður var hann hófsamur, gortaði aldrei.

Tveimur árum munaði á okkur. Hann var ungi maðurinn en hokinn af reynslu og þekkingu eins og sagt er. Gott var að leita til hans. Vinsamlegt bros lék jafnan um varir hans sem endurspeglaði innri mann, geðugan og greiðvikinn. Hann var drengur góður.

Vonlaust var að deila við Magnús. Ég reyndi það stundum. Hann hafði alltaf rétt fyrir sér og það vissi ég um síðir. Nei, sagði hann. Víst, sagði ég. Og svo hélt þetta áfram í nokkrar sekúndur þangað til við hlógum.

Við kvöddumst: Sjáumst aftur. Ég gekk niður fyrir húsið þar sem ég hafði lagt bílnum. Magnús ók niður götuna og framhjá mér. Hvarf mér út í eilífðina.

Magnús er einn af þeim lífsins samferðamönnum sem maður mun sakna. Ég sendi ástvinum hans samúðarkveðjur.

Jarðarförin var í dag, 24. maí 2022.


Bloggfærslur 24. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband