Sko, hinir flokkarnir féllu meira en meirihlutinn ...

Það er ekki verið að kjósa þá, þeir falla meira en meirihlutinn og þegar við tökum þetta inn þá hugsa ég; hvað er það sem að borgarbúar voru að kjósa? Þeir voru að kjósa nýtt afl sannarlega en þeir voru að kjósa eftir stórum línum. Og þótt að lítill leikur hér á RÚV hafi þótt glens og gaman þegar við fórum öll oddvitarnir í já og nei spurningarnar en það var samt mjög táknrænt, þar sást það og það flugu hér um screenshot af því hvernig við sögðum já við húsnæðismálunum og borgarlínunni og samgöngusáttmálanum og það verður ekkert skýrara en það, þegar þú þarft að svara já eða nei að þá sést það, og þá eru þessar línur ansi augljósar.

Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, á ruv.is. Líklega er þetta mjög skýr afstaða en við, óbreyttur almúginn, skiljum ekki talið. Það er sosum allt í lagi en samúð alþýðunnar fær aumingja blaðamaður Ríkisútvarpsins sem skikkaður var til að hlusta á borgarfulltrúann og hnoða þessu saman í „frétt“.

Góður maður sagði einhvern tímann að hann hafi verið hæstur af þeim sem féllu í prófi. Sama segir Þórdís Lóa viðreisnarmaður, hinir féllu meira en við. Gallinn er bara sá að það er ekki rétt.

Hún Þórdís Lóa hefur lært það í meirihlutanum í borgarstjórn að tala eins og borgarstjórinn. Fara í langan hring umhverfis kjarna málsins, tala og tala og tala. Þreyta áheyrendur.

Og svo er nú komið að þessi borgarafulltrúi Viðreisnar hefur málað sig út í horn með hinum vinstri flokkunum, Samfylkingunni og Pírötum, og telur sig ekki geta unnið með neinum öðrum. Klókur stjórnmálamaður hann Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að hafa platað Þórdísi Lóu.

Já, línurnar eru ansi augljósar þegar leitað er að hinum borgarfulltrúa Viðreisnar. Sko, hann féll, hann Pavel Bartoszek. Vera má að hann hafi ekki fallið langt en fallinn er hann engu að síður og á ekki lengur sæti í flokki vinstri manna í borginni.

Kjósendur kusu þar eftir „stórum línum“, sem er „mjög táknrænt“. Ekki aðeins Pavel féll, heldur líka meirihlutinn. Fátt er skýrara. Nema ef vera skyldi sú augljósa staðreynd að borgarfulltrúum Viðreisnar fækkaði um helming í kosningunum.

 

 


Bloggfærslur 23. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband