Þingmaður Samfylkingarinnar ásakar aðra en er sjálfur engu skárri
7.4.2022 | 15:02
Við hér inni hljótum að gera skýlausa kröfu um að hann svari fyrir framgöngu sína en sýni ekki fjölmiðlum bara afturendann á sér.
Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum á Alþingi samkvæmt frétt í Stundinni. Hann æsti sig heil ósköp vegna ummæla formanns Framsóknarflokksins um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Formaðurinn baðst afsökunar enda hafði honum orðið mikið á.
Nokkrum dögum síðar treður Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar í ræðustól Alþingis og segir samkvæmt mbl.is:
En hingað kemur hæstvirtur fjármálaráðherra, nýbúinn að selja pabba sínum ríkiseign, nýbúinn að selja viðskiptafélögum sínum frá útrásarárunum eignir almennings, nýbúinn að selja fólki með dóma fyrir efnahagsbrot á bakinu, nýbúinn að selja sakborningi í umfangsmiklum mútubrotamáli eignir almennings, og segir okkur að svart sé hvítt og hvítt sé svart og þessum þvættingi eigum við bara að sitja undir.
Hvað kallast svona tvítal? Þingmaðurinn þykist gegnheilagur þegar hann talar um formann Framsóknarflokksins en leyfir sér síðar að snúa við blaðinu og tala til annarra eins og sá sem hann gagnrýndi. Hann beinlínis lýgur eins og hann er langur til.
Ljóst er að þingmaðurinn er engu skárri en formaður Framsóknarflokksins og jafnvel verri. Úthúðar framsóknarmanninum fyrir orð hans en hrakyrðir formann Sjálfstæðisflokksins.
Gættu orða þinna maður svo þú verðir ekki dæmdur fyrir sömu sakir og þú ásakar aðra um.
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar á greinilega afar örðugt með að rökræða. Honum lætur betur að hrópa og æpa svívirðingar. Jóhann Páll kann ekki að skammast sín og svona götustráka þarf Samfylkingin til að komast í fréttirnar, vekja athygli á ömurlegum málstað sínum.
Og undir svona bulli Samfylkingarinnar eigum við almenningur bara að sitja undir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)