Elías Snæland Jónsson

Hann er dáinn, fréttastjórinn sem stjórnaði á Vísi þann stutta tíma sem ég var þar í blaðamennsku. Þetta var bara eitt ár en Elías Snæland Jónsson hafði meiri áhrif á mig en margur annar. Hann var snjall blaðamaður, góður íslenskumaður og hafði skýra hugmynd um hvernig ætti að skrifa frétt.

Ég var ekki eftirlæti hans á Vísi. Ábyggilega hyskinn og illa skrifandi. Á fyrsta starfsdegi mínum var ég sendur niður í miðbæ til að taka viðtal. Ég fór út og tók auðvitað strætó fram og til baka. Elías hló að mér og næst fékk ég svokallaða „beiðni“, ávísun til að afhenda leigubílstjóra sem greiðslu fyrir ferðina. 

Þannig var háttað störfum á Vísi að blaðamenn skiluðu fréttum sínum inn til Elíasar. Veit ekki um aðra en í minningunni lét hann mig stundum setjast meðan hann las fréttina yfir og strikaði oftar en ekki í hana með rauðu penna. Þá þurfti ég að fara til baka inn á básinn minn, setja nýtt blað í snjáða ritvél og skrifa fréttina upp aftur, laga villurnar og umorða. Skelfing var þetta nú leiðinlegt. En ég lærði og hafði vit á að tileinka mér það sem mér var kennt. Smám saman fækkaði fundum okkar Elíasar, oftast nægði að ég setti fréttina í bakkann hjá honum. Hann leiðrétti örugglega einhver smáatriði en var frekar sáttur með strákbjánann.

Reglur Elíasar voru meðal annars þessar, minnir mig:

  1. Skrifa á góðu máli.
  2. Skipuleggja fréttina.
  3. Byrja fréttina á aðalatriðunum, koma síðar með smáatriðin.
  4. Nota millifyrirsagnir þegar fréttin er í lengra lagi
  5. Vanda aðalfyrirsögnina.

Uppeldið var gott en þegar ég fluttist yfir á annað útgáfufyrirtæki var enginn Elías þar. Því miður og útgáfan bar þess glögg merki.

Ekki eru margir blaðamenn góðir skrifarar. Svo ótalmargir byrja frétt á aukaatriðum og loks í lokin koma aðalatriðin. Enginn leiðbeinir þeim, enginn Elías krotar í próförkina og sendir hana til baka.

Í dag virðast íslenskir fjölmiðlar sárlega „elíasarlausir“. Svo virðist sem enginn gæti að málfari, enginn sem leiðbeinir nýliðum. Fjölmargir blaðamenn, fréttastjórar og jafnvel ritstjórar eru hörmulega lélegir sögumenn, bera ekkert skynbragð á eðli sögu, frásagnar, fréttar.

Óskaplega margar fréttir eru skrifaðar í belg og biðu. Verst er þó að oft er lesandinn engu nær um efni fréttarinnar, það týnist í blaðrinu. Mismæli, tafs og hikorð viðmælenda rata í fréttaskrifin. Engu líkar er en að margir blaðamenn vilji niðurlægja viðmælendur sína með því að skrifa orðrétt upp eftir þeim. Elías Snæland hefði ábyggilega tekið getað leiðbeint liðinu.

Eftir að ég hætti á Vísi hitti ég Elías afar sjaldan. Kom einu sinni til hans á Vísi þegar fyrsta tölublað tímaritsins Áfanga kom út og afhenti honum. Hann hrósaði mér hæfilega, brosti, og síðan hef ég ekki séð hann.

Ég hef notið þeirra gæfu að hafa haft nokkra eftirminnilega og góða kennara í skóla og eftir að honum lauk - og lært af þeim. Elías Snæland er einn þeirra.  Þekkti manninn sama og ekkert en minnist hans engu að síður með hlýju vegna þess sem honum tókst að kenna mér. Fyrir það ber mér að þakka þó of seint sé. 

Jarðarförin var 29. apríl 2022.

 


Bloggfærslur 29. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband