Veðurspár og -fréttir voru einfaldari í gamla daga
13.3.2022 | 17:50
Mjög djúp lægð er væntanleg að Hvarfi í fyrramálið. Sendir hún skil yfir landið með stormi eða roki, talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.
Svo segir í fréttum Veðurstofu Íslands á Fésbókinni. Ekki veit ég hvar á landinu Hvarf er og af því er mikið mein. Stofnunin er stundum dálítið dul með landafræðina sína, gefur takamarkaðar upplýsingar.
Til dæmis rignir aldrei í Grennd (Grend) en alltaf einhver staðar í sama hreppi, til dæmis á Stökustað sem er alræmt rigningarbæli.
Svo er að eðlisfræðin. Ekki veit ég hvað kallast kaldur loftmassi og ekki heldur heitur loftmassi. Og hvað gerist hittist svona massar tveir af ólíkum uppruna? Er það eins og þegar heitt vatn og kalt vatn blandast saman og úr verður volgt vatn? Nei, ábyggilega ekki. Miklu frekar að þá verði dómsdagsfárviðri nema auðvitað í Grennd.
Svo er það hjalið um vindinn. Aldrei hvessir á Íslandi, aldrei lægir. Vindur er ýmist mikill eða lítill, hann minnkar eða stækkar (eykst). Öll börn vissu í gamla daga hvað kul þýddi, gola, gjóla, rok, hvassviðri, stormur og fárviðri. Foreldra sóttu ekki börnin í skólann á þessum dögum, þau komu sér sjálf heim, börðust móti slagveðri, stormi og skafrenningi sem Vegagerðin kallar í dag snjórenning.
Í gamla daga hlustuðu afi og amma og pabbi og mamma og börnin á veðurspána í útvarpinu. Þá var þulan þessi (halda skal fyrir nefið meðan lesið er upphátt og draga seiminn):
Reykjavííík, rigniiing, suðaustaaaan átta vindstiiig, skyggniii fjórtán kílómetraaar, hiti fégur stiiig, loftþrýstingur hækkandiii.
Þá var talað um rigningu, afar sjaldan úrkomu, aldrei vind, enga metra á sekúndu. Loftmassar voru ekki til né heldur þrýstilínur. Engum hefði dottið í hug að tala um austurströndina, norðurströndina eða vesturströndina. Jú, suðurströndin hefur verið til frá því nokkru fyrir landnám enda ein og samfelld frá Þorlákshöfn og austur fyrir Hornafjörð.
Og aldrei sendu lægði eitt eða neitt. Þær komu bara og fóru með öllum sínum ósköpum rétt eins og farþegi úr strætó eða flugvél.
Enginn sagði suðurSTRÖNDINA, það er með áherslu á seinni helming orðsins; NorðaustanLANDS, FaxaFLÓA, VestFIRÐI og svo framvegis.
Nú er sjaldnast tala um snjó á jörðu. Vegagerðin fann upp orðið snjóþekja sem þykir víst afar gáfulegt. Þó snjór sé á Stökustað segir Vegagerðin að þar sé snjóþekja, jafnvel þó landið sé flekkótt, engin þekja allt að Grennd. Þar snjóar aldrei.
Á myndinni sjást þeir staðir á landinu sem bera örnefnið Hvarf samkvæmt upplýsingum Landmælinga. Og nú rennur loks upp fyrir mér að syðst á Grænlandi er Hvarf. Má vera að öllum hafi verið það ljóst. Ég þurfti samt að skrifa þennan pistil áður en það kviknaði á perunni hjá mér. Nenni ekki að henda honum.
En hvað varð eiginlega um veðurskipið Bravó?