Nú á að fjarlægja Litla-Sandfell og á eftir raka yfir með hrífu
1.2.2022 | 15:00
Við efnistökuna mun ásýnd fellsins óhjákvæmilega breytast og að lokum mun fjallið hverfa.
Fjallið er ekkert sérstaklega fallegt. Mörgum finnst það ljótt. Flatmagar á hraunsléttu rétt eins og kúadella, aðeins um eitt hundrað metra hátt yfir umhverfinu. Hverjum er ekki sama?
Okkur ber skylda til lagfæra landslag. Bæta sköpunarverkið sem drottni allsherjar mistókst. Fjarlægja ljót og ónýt fjöll, drekkja óþarfa landi, og leggja víra sem víðast svo fólk komist nú leiðar sinnar og geti hlaðið bíla sína.
Gaman er að aka Þrengslin og enn meira fjör er að ganga úr þeim á almennileg fjöll eins og Meitlana, Stóra og Litla. Skoðum Lambafell sem áður var ansi gallað og lítil fyrir augað. Nú eru fjallasnyrtifyrirtæki í óða önn að laga það og gengur bara vel. Ljótu agnúarnir á fellinu eru horfnir og aðeins er eftir að fjarlægja Lambafellshnúk.
Nei, nei, það er rangt sem þessi umhverfisnáttúruverndarvitleysingar segja. Enginn er að eyðileggja fjöllin, bara snyrta þau, líkt og rakarar snyrta hár. Samt dálítið fyndið að líkja fjallasnyrtifyrirtækjum við rakara sem snyrta hár fólks en eiga það jafnvel til að taka af annað eða bæði eyrun í fegurðarskyni.
Einu sinni var reynt að lagfæra lítinn og ljótan gíg vestan við Þrengsli. Hann hefur ekkert almennilegt nafn kallast bara Nyrðri-Eldborg. Gígurinn gaus árið 1000 en frá gosinu segir í Kristnisögu. Skafið var utan af honum en hætt í miðjum klíðum og nú er þar bara ljótt sár. Enginn sæi neitt ef fjallasnyrtifyrirækið hefði fengið að halda áfram.
Tvö fjöll eru í hrauninu sunnan Þrengsla, Geitafell og Litla-Sandfell. Bæði forljót og er brýn nauðsyn á að þau verði fjarlægð. Fyrirtækið með útlenska nafninu Eden Mining ehf er öflugt fjallasnyrtifyrirtæki og hefur lengi snyrt Lambafell í Þrengslum. Það ætlar nú taka að sér það þjóðþrifaverk að fjarlægja fjallið með íslenska nafninu, Litla-Sandfell. Geitafell bíður betri tíma enda stærra.
Ásýnd Litla-Sandfells mun breytast, rétt eins og segir í upphafi og er fengið úr skýrslu Eflu. Sko, já, eiginlega mun það mun hverfa. Þetta er svona svipað eins og rakarinn sem ætlar að snyrta hár en verður það á, viljandi eða óviljandi, að fjarlægja höfuðið. Slíkt er nú ekkert stórmál því margir munu fríkka til muna væru þeir höfuðlausir.
Svo segir í skýrslu Eflu að framkvæmdin verið afar umhverfisvæn því úr Litla-Sandfelli verður unnin svokölluð flugaska sem notuð er í sementframleiðslu. Sem sagt jákvæð hnattræn áhrif. Húrra. Unnið er þó í fellinu með dísilvélum og dísilrafmótorum. Kosturinn er þó sá að þegar Litla-Sandfell er horfið verður strax slökkt á díselvélunum. Húrra.
Þegar fjarlægðir hafa verið 15.000 rúmmetra úr Sandfelli, það er fellið allt, verður rakað yfir með hrífu og sáð grasi, melgresi, lúpínu eða birki, jafnvel öllu þessu. Og allir sáttir. Er þaki?
Næst fjarlægjum við Helgafell í Mosfellsbæ. Það er líka ljótt og gagnslaust. Miklu betra að moka því í landfyllingar í Kollafirði. Svo fjarlægjum við Þorbjörn við Grindavík því alltaf eru jarðskjálftar í kringum hann og sláum þá tvær flugur í einu höggi. Losum okkur við ljótt fjall og alla þessa jarðskjálfta. Seljum síðan Kirkjufell í Grundarfirði fyrir offjár til útlanda. Útlendingar vilja ólmir kaupa myndir af fjallinu en rosalega myndu þeir gleðjast ef þeir fengju nú að kaupa það allt.
Sko, við getum allt. Tæknin er orðin svo fullkomin að hægt er að fegra landið með minniháttar snyrtingum. Og allir saman nú: Ekki láta staðar numið með Litla-Sandfell. Fleiri hrúgur bíða.
Myndirnar af Litla-Sandfelli skýra sig sjálfar.
Hér er linkur á skýrslu Eflu á vef Skipulagsstofnunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2022 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)