Hnífurinn keyrður í bak Ágústar krata
20.1.2021 | 22:03
Ég hef ekki alltaf verið sammála Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. En ég ber virðingu fyrir honum í pólitíkinni. Hann er dugandi þingmaður, harður í horn að taka og á stundum rökfastur. Dálítið pópúlískur en ekki til mikils skaða. Sé engan hans líka í þingliði flokksins.
Nú er bara tími Ágústar liðinn. Hann hlaut ekki náð fyrir augum uppstillingarnefndar sem er handhafi lýðræðisins í Samfylkingunni.
Ég er alveg sammála nefndinni. Burtu með Ágúst. Og við andstæðingar flokksins fögnum víginu.
Nei, ég held að handhöfum lýðræðisins í Samfylkingunni sé ekki sjálfrátt þegar þeir vísa Ágústi út í ystu myrkur.
Líkast til heldur flokkseigendafélagið að nýkjörinn þingmaður öðlist daginn eftir kosningar allan heimsins vísdóm og þekkingu. Reynsla og þekking skiptir varla neinu í þeirra augum.
Aðferðafræðin minnir á verklagið í ríkisstjórninni sem Samfylkingin og Vinstri grænir kölluðu skjaldborg heimilanna. Að henni kom sautján manns. Sumir voru kallaðir ráðherrar en voru bara í starfsþjálfun, fengu að máta ráðherrastólinn í skamman tíma.
Svo ör var skiptingin að enginn náði að setja sig inn í verkefnin enda ekki til þess ætlast. Prófa og fara svo. Nú er fullt af fólki í þessum flokkum sem kallar sig fyrrverandi ráðherra.
Ráðuneyti stjórna þeim sem eru í starfsþjálfun sem ráðherra, ekki öfugt. Það vantaði hins vegar ekki að daginn sem nýgræðingur tók við ráðherrastöðu byrjaði hann að tala eins og valdsmaður, vissi allt, gat allt og kunni allt.
Sama virðist eiga við núna hjá Samfylkingunni. Hún byggir á því að skipta út fólki. Sækja lið í starfsþjálfun, láta það að máta rassförin í þingstólnum í þeirri von að þeir endist þangað til þeir verða reknir.
Sagan segir kratar séu fljótir að draga upp hníf sjái þeir óvarið bak samherja. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir ganga með veggjum.
Lýðræðið Samfylkingarinnar byggist á því að velja þingmenn á lista í reykfylltum bakherbergjum því almenningi er ekki treystandi fyrir því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim
20.1.2021 | 14:25
Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.