Um leið og fer að blása, óíslenskumælandi og fólk er ekki að lesa

Orðlof

Smjörþefur

Fá smjörþefinn af einhverju. „fá að kenna á e-u, finna óþægilegar afleiðingar af e-u“. 

Orðtakið er kunnugt frá 19. öld: jafngott þó hann fengi smjerþefinn af því […] Brandur fékk ekki síður smjerþefinn af mýbitinu en aðrir. […] 

Smjörþefur er hin vonda lykt sem leggur af súru eða þráu smjöri […].

Halldór Halldórsson. Íslenskt orðtakasafn. Almenna bókafélagið. 1969.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Að þessu er mik­il óprýði, auk þess sem rusl eins og þetta fer allt af stað um leið og fer að blása.“

Frétt á mbl.is.                       

Athugasemd: Þarna er forsetningin „að“ notuð í stað af. Hægt er að komast hjá þessu með því að læra reglurnar sem segir frá á malid.is:

Að: Um stefnu eða hreyfingu til e-s staðar/í áttina til e-s: Lögreglumaðurinn gekk bílnum. Lóðin nær girðingunni.

Og:

Af: Um stefnu eða hreyfingu frá e-m stað/í áttina frá e-u: Hann datt af hjólinu. Við komum seint heim af ballinu. Það er fallegt útsýni af fjallinu. Hrifsa bókina af henni.

Mjög oft segir fólk í barnslegri einlægni að það „blási“ þegar vind hreyfir eða það hvessir. Svona orðalag er alls ekki rangt en ber vitni um frekar lítinn orðaforða. Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:

aftakaveður
andblær
andi
andvari
áhlaup
bál
bál 
bálviðri
belgingur
blástur
blær
blæs
brimleysa
derringur
drif
dúnalogn
dús
fellibylur
fjúk
fok
foráttuveður
galdraveður
gambur
garri
gerringur
gjóla
gjóna
gjóstur
gol
gola
gráð
gustur
hrakviðri
hregg
hríð
hroði
hrök
hundaveður
hvassviðri
hviða
hvirfilbylur
hægviðri
illviðri
kaldi
kali
kári
kul
kuldastormur
kuldastrekkingur
kylja
kyrrviðri
kæla
lágdeyða
ljón
logn
lægi
manndrápsveður
mannskaðaveður
músarbylur
nepja
næðingur
næpingur
ofsarok
ofsaveður
ofsi
ofviðri
ókjör
óveður
remba
rembingur
rok
rokstormur
rumba
runta
ræna
skakviðri
slagveður
snarvindur
snerra
snerta
sperra
sperringur
stilla
stormur
stólparok
stólpi
stórastormur
stórveður
stórviðri
strekkingur
strengur
streyta
streytingur
stroka
strykur
súgur
svak
svali
svalr
sveljandi
svipur
tíkargjóla
túða
veðrahamur
veðurofsi
vindblær
vindkul
vindsvali
vindur
vonskuveður
ördeyða
öskurok

Fyrst að svona mörg orð eru til um vind og vindgang í íslenskri náttúru er lítil þörf á að nota ævinlega sögnina að blása. Þegar hreyfir vind má nota orð eins og anda, kula, næða, gjóla, gusta, rjúka, hvessa, stríðhvessa, snögghvessa og ábyggilega fleiri. 

Tillaga: Mik­il óprýði er af þessu og fýkur út um allar jarðir þegar hvessir.

2.

„Íslensk­um mál­efn­um á Spotify stýr­ir starfsmaður í Svíþjóð, sem kvað vera óís­lensku­mæl­andi.

Frétt á mbl.is.                       

Athugasemd: „Óíslenskumælandi“ er ógott enda óorð sem óskrifandi nota ósjaldan (þetta er léleg tilraun til að vera fyndinn).

Í staðinn má hiklaust nota fleiri orð. Dæmi; ekki íslenskumælandi, ekki talandi á íslensku, tala ekki íslensku, ómælandi á íslensku og svo framvegis.

Blaðamaðurinn segi að starfsmaðurinn kvað vera ómælandi á íslensku.Vel gert. 

Í Málfarsbankanum segir:

Orðmyndin ku stendur fyrir kvað (3.p.et.þt. af sögninni kveða) í merkingunni: vera sagður (sögð, sagt). Hann ku vera mikill íþróttamaður. Hún ku vera farin af landi brott. Svo ku vera.

Aftur á móti segir á malid.is: 

Ku, sagnorð; stirðnað form af ’kvað’ af sögninni ’kveða’: er sagður. Dæmi: Hann ku vera í megrunarátaki. Þetta ku vera besta kaffihúsið í miðbænum.

Mér finnst þetta ekki stirðnað orð, þvert á móti heyri ég það oft og les. Ekkert að því að nota það.

Tillaga: Íslensk­um mál­efn­um á Spotify stýr­ir starfsmaður í Svíþjóð, sem er ekki sagður tala ís­lensku­.

3.

„Þetta er heilmikil skjálftavirkni sem hefur verið.

Fyrirsögn á visir.is.                        

Athugasemd: Þarna hefur orðaröðin aflagast dálítið. Það hefði ekki kostað blaðamanninn mikinn tíma eða vangaveltur að lagfæra hana, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Oftar en ekki þurfti ég að lagfæra orð viðmælenda minna þegar ég var í blaðamennsku. Öllum þótti það sjálfsagt enda ekki gott að dreifa illa orðaðri hugsun sem viðmælandinn hafði ekki tíma til að velta fyrir sér þegar viðtal var tekið.

Í dag virðast blaðamenn taka allt gagnrýnislaust sem viðmælendur segja, skrifa það samviskusamlega niður rétt eins og það sé gullaldarmál. 

Engum er greiði gerður með þannig afgreiðslu, ekki viðmælandanum, lesandanum eða blaðamanninum. Tilvitnuðu orðin eru talmál, alls ekki ritmál og eiga óbreytt ekki erindi til lesenda.

Uppáhaldsorð blaðamannsins sem skrifaði fréttina er „ómögulegt“. Orðið kemur fjórum sinnum fyrir í stuttum texta. Auðvelt er að skrifa sig framhjá svona nástöðum.

Tillaga: Þarna hefur verið heilmikil skjálftavirkni.

4.

„Greini­legt að fólk er ekki að lesa aug­lýsingarnar.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                        

Athugasemd: Eflaust er ekki rangt að nota sögn í nútíð ásamt annarri í nafnhætti; „er að lesa“. Þannig málfar er þó frekar flatt og lítt áhugavert

Stundum lendir orðaröð í setningum í rugli. Hér eru nokkur dæmi sem byggð eru á tilvitnaðri fyrirsögn: 

Greinilegt er að fólk er ekki að lesa auglýsingarnar.

Fáir myndu segja svona vegna þetta að þarna standa sömu sagnir of nálægt hvorri annarri. 

Þetta er hins vegar eðlileg orðaröð:

Greinilegt er að fólk les ekki auglýsingarnar.

Svo eru þeir til sem myndu orða þetta svona:

Greinilegt er að fólk er ekki búið að lesa auglýsingarnar.

Hér er örlítill meiningarmunur. Sleppum honum og áttum okkur á því að verið er að búa til þátíð með sögn í nútíð og búinn (vera + búin + að + nafnháttur). Hér fer betur á því að segja:

Greinilegt er að fólk hefur ekki lesið auglýsingarnar.

Eða:

Greinilegt er að fólk las ekki auglýsingarnar.

Ekki veit ég ekki hvað hefur ruglað okkur í íslenskunni og hvers vegna við förum „Fjallabaksleið“ í stað þess að tala einfalt mál. Ég stend sjálfan mig að því að segja og skrifa svona. Bít mig jafnan í tunguna á eftir, en er hættur því, enda stórsér á henni. 

Nánara um þetta í málfarsbankanum.

Tillaga: Greinilegt er að fólk les ekki auglýsingarnar.


Bloggfærslur 22. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband