Það var ekki sett Sophiu í skanna og það singallaði einhvernveginn

Orðlof

Óþarfa lýsingarorðaflaumur

Oft eru sagðar fréttir af ófærð og tilgreint að mikil ófærð sé hér og þar. Hér finnst mér orðið mikil óþarfi. Ef ófærð er stundum mikil er hún þá ekki stundum lítil? Ef það er ófærð er þá ekki nánast ófært? Þarf að segja mikil eða lítil? 

Það væri hægt að segja þæfingur, þung færð, erfið færð. En ófærð er ófærð og það þarf ekkert að styrkja það með aukaorðum. 

Á sama hátt er stundum talað um mannfjölda og sagt mikill mannfjöldi. Er ekki mannfjöldi frekar margir menn? Fjöldi manna. Fjöldi manna safnaðist saman hér eða þar – óþarfi að segja mikill fjöldi… 

Við gengisfellum stundum góð og gild nafnorð sem eru mjög lýsandi með óþarfa lýsingarorðaflaumi.

Molar Eiðs Guðnasonar, bréf frá „JT“

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Bill Gates vill temja orku sólarinnar og bjarga jörðinni okkar.“

Fyrirsögn á dv.is.              

Athugasemd: Líklega á blaðamaðurinn við að ætlun sé að virkja orku sólarinnar, nýta hana. Það kemur berlega fram í fréttinni. 

Tillaga: Bill Gates vill virkja orku sólarinnar og bjarga jörðinni okkar.

2.

Það var ekki sett Sophiu í skanna né tekið sýni úr henni …“

Frétt á dv.is.              

Athugasemd: Málgreinin bendir til þess að blaðamaðurinn sé átta ára og óvanur skrifum.

Önnur skýring á orðalaginu er vandfundin.

Tillaga: Sophia var ekki sett í skanna né tekið sýni úr henni …

3.

„Guðný María segir að gluggaopin séu allt of þröng til að hægt sé að henda hlutum út um gluggana, en meðal eiga Ítalans var skrifborð.“

Frétt á dv.is.              

Athugasemd: Eigur eru það sem er eign, einhver á til dæmis skrifborð. Yfirleitt er orðið notað í fleirtölu og svo ætti það að vera í ofangreindri tilvitnun. Þar er orðið þó í röngu falli, ætti að vera eigna. 

Tillaga: Guðný María segir að gluggaopin séu allt of þröng til að hægt sé að henda hlutum út um þau, en meðal eigna Ítalans var skrifborð.

4.

„Maðurinn er grunaður um að hafa ekið fullur og vímaður og var stungið í steininn.“

Frétt á ruv.is.               

Athugasemd: Gott hjá fréttamanni Ríkisútvarpsins. Hann segir hlutina eins og þeir eru, ekkert hjáorðavændi hér. Aðdáendur löggumáls hefðu sagt að maðurinn „hafi ekið undir áhrifum áfengis og vímuefna og verið vistaður í fangageymslu“.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Það singallaði einhvernveginn að málið væri mikilvægt og ég man ekki eftir að hafa séð þau rífast mikið,“ segir Atli.

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Verkefni blaðamanns er öðrum þræði að koma hugsun viðmælandans á skiljanlegt mál en ekki að útbreiða rugl. Hann á að skrifa fyrir lesendur.

Ómögulegt er að vita hvað átt er við með orðskrípinu „singallaði“. Vera má að þarna hafi runnið saman sögnin að sinna og nafnorðið súkkulaði en málsgreinin er engu skiljanlegri fyrir vikið. 

Þekkt er orðalagið að galla sig, það er að fara í galla, til dæmis kuldagalla, pollagalla eða álíka en málsgreinin verður ekki heldur skiljanlegri fyrir vikið.

Enska orðið „singalong“ er til en dugar ekki hér til skilnings. Eftir er að skoða aðrar „útlenskur“ en það bíður betri tíma. Alltof oft sjást svona furðuskrif á Vísi. Þau eru eflaust merki um eitthvað sem fólk utan ritstjórnarinnar skilur ekki.

Rita á einhvern veginn, ekki einhvernveginn.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

 Að því er fram kemur á vef Guardian undirbýr nefndin nú að ljúka þeim hluta rannsóknarinnar sem snýr að því að finna út allar staðreyndir málsins.

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Hér má segja að blaðamaður sjóði ólystilegan orðagraut. Viljandi reynir blaðamaðurinn að flækja frásögnina í orðavaðli sem bendir til þess að hann ráði ekkert við skrif sín.

Hvað er eftir þegar búið er „að finna út allar staðreyndir“? Væntanlega er þá rannsókninni lokið. Búast má við að þegar rannsókn sé lokið liggi staðreyndir ljósar fyrir. Það segir sig sjálft.

Margt þyrfti að bæta í fréttinni. Orðalagi er óboðlegt og fljótfærnislegt.

Tillaga: Samkvæmt vef Guardian stefnir nefndin að því að ljúka rannsókninni.


Bloggfærslur 2. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband