Persónugallerí, frammistöðuvandi og orðið ítrekað

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Gifti sig heima hjá sér.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Eflaust er ekki beinlínis rangt að segja að konan hafi gift sig heima hjá sér en varla hefur hún gift sig ein, einhverjum giftist hún. Þá má spyrja hvort heimilið sem um er rætt sé heimili þeirra beggja, ekki aðeins hennar.

Tillaga: Gifti sig heima.

2.

Í myndinni birtist fjölbreytt persónugalleríi og viðtöl eru tekin við ýmiss konar fólk úr bænum.“ 

Kvikmyndagagnrýni á bls. 33 í Morgunblaðinu 20.11.2018.     

Athugasemd: Ég hélt að þetta orð „persónugallerí“ væri nýyrði smíðað af starfsmönnum Morgunblaðsins en svo er ekki. Það finnst á malid.is en þar með er ekki sagt að orðið sé gott.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir að gallerí sé „sýningarsalur fyrir myndlist eða handverk. Orðið er hins vegar ekki skýrt frekar. Hins vegar má segja að það sé nokkuð gegnsætt. Hugsanlega á höfundur tilvitnunarinnar við að í kvikmyndinni Litla Moskva sé fólk af ýmsu tagi.

En ferlega er það flatt að segja að í myndinni birtist fjölbreytt persónugallerí ... Af hverju ekki að í henni séu viðtöl við fólk af ýmsu tagi og uppruna eða eitthvað álíka? Að vísu er rosalega töff að nota persónugallerí.

Ekki var nú ætlunin að agnúast neitt út í þetta orð. Ég var að lesa Moggann í tölvunni og fletti áfram. Á næstu síðu er Ljósvakinn, fastur pistill sem þeir Moggamenn fjalla um dagskrá útvarps- og sjónvarpsstöðva. Þar er segir í umfjöllun um framhaldsmyndina Flateyjargátan:

Í Flatey er þessi líka fína leikmynd sem lítið hefur þurft að breyta og þar hitti Jóhanna fyrir áhugavert persónugallerí

Einmitt þarna datt mér í hug að „persónugallerí“ væri hugarsmíði Moggamanna. 

Við nánari umhugsun finnst er orðið eiginlega óþarft þar sem hægt er að lýsa fjölbreytni fólks á margvíslegan annan hátt. Og það gerir höfundur fyrri tilvitnunarinnar á ágætan hátt er hann lagar málsgreinina lítilsháttar, sjá tillöguna hér að neðan.

Að öðru leyti er umfjöllun Moggans um Litlu Moskvu og Flateyjargátunnar bara þokkalega vel skrifuð og hvetur lesendur til að sjá á þessar myndir. 

Tillaga: Í myndinni birtast fjölbreytt viðtöl við ýmiss konar fólk úr bænum.

3.

Sex ein­stak­ling­ar voru í lyft­unni, þar á meðal ófrísk kona.“ 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Einstaklingur er dálítið skrýtið orð. Getur merkt maður, kona, barn og jafnvel eru eintök af dýrum og fiskum sögð einstaklingar, það er eitt stykki af hverju.

Allir vita hvað við er átt þegar sagt er að einstaklingur hafi verið í lyftu. Varla hann dýr eða fiskur. Af samhenginu áttum við okkur á að einstaklingarnir voru fólk, menn, karlar og konur.

Ómar Ragnarsson sagði frá því á bloggi sínu að lyfta hafi fest á 11. hæð í New York:

Það minnir á sögu, sem komst á kreik í New York fyrir mörgum árum þegar allt varð rafmagnslaust og lyftur stöðvuðust, svo að björgunarsveitarmenn og húsverðir voru sendir til þess að bjarga huga að fólki í lyftunum. 

Var þeim uppálagt að spyrja um hvort ófrísk kona væri meðal lyftufarþega þegar þeir kölluðu inn í lyftugangana til að kanna ástandið í lyftunum. 

Þegar húsvörður einn kallaði inn í einn lyftuganginn: „Er einhver í lyftunni!" kom tvíradda svar: „Við erum hér tvö." 

„Er ófrísk kona þarna?" kallaði húsvörðurinn samkvæmt því sem uppálagt var. 

„Nei!“ svaraði maðurinn. „Við erum ekki búin að vera hér nema í fimm mínútur!" 

Þá hló ég upphátt.

Hins vegar er engin ástæða til annars en að segja að sex manns hafi verið í lyftunni sem getið er um í upphafi. Ekki flækja málin. 

Á visir.is segir einfaldlega:

Hópur fólks sem festist í lyftu lifði af 84 hæða fall í turni í Chicago í Bandaríkjunum. Um var að ræða sex manns, þar á meðal kona sem er barnshafandi, sem var í lyftunni sem féll frá 95.

Þetta er miklu skárra orðalag en fjarri því gott. Takið eftir tafsinu „um var að ræða“ og nástöðu tilvísunarfornafnsins sem.

Tillaga: Sex manns voru í lyftunni og þeirra á meðal barnshafandi kona.

4.

Frammi­stöðu­vandi á­stæða upp­sagnar Ás­laugar Thelmu.“ 

Fyrirsögn á frettabladid.is.     

Athugasemd: Karlmenn sem eiga við frammistöðuvanda áttu áður fyrr varla nokkurra kosta völ. Nú á tímum vandinn er leystur með Viagra.

Allt annað mál er með konur sem eiga við frammistöðuvanda að etja. Þær standa sig hugsanlega lakar á einhverjum vettvangi en búist er við. Hins vegar munu flestir karlar lofa öllu fögru áður en frammistöðuvandi verði kenndur við þá, sérstaklega að ósekju.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

5.

Þegar lögregla kom á vettvang blæddi mikið úr manninum meðan konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Furðuskrif birtast oft á DV. Þessi frétt er illa skrifuð, óskipuleg, ruglingsleg, flausturleg og rituð á slæmu máli.

Hins vegar má hafa gaman af skrifunum eins og lýsingunni af manninum sem blæddi á meðan konan viðurkenndi. Vonandi var konan ekki langorð. Takið eftir kansellístílnum:

Brotaþoli hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og greint frá því að þegar hún hafi komið heim um klukkan 18:00 hafi kærða verið mjög ölvuð og að drekka whiskey. Hafi brotaþoli sagst hafa gert athugasemdir um að hún væri að sinna barninu svona ölvuð.

Síðar í fréttinni segir:

Maðurinn var síðar fluttur á sjúkrahús en hann reyndist ekki vera í lífshættu, þrátt fyrir að hnífurinn hafi stungist allt að 20 sentímetra inn í brjóstkassa hans. Búið var að stinga á tvö hjólbarða bíls hans og liggur tengdamóðir hans undir grun um að hafa gert það.

Með ólíkindum er að hnífurinn hafi stungist 20 cm inn í brjóstkassa mannsins án þess að hafa farið í gegn. Ef lesandinn er með A4 blað fyrir framan sig getur hann áttað sig á dýpt stungunnar því skammhlið blaðsins er 21 cm. Í brjóstkassanum eru lungu og hjarta svo fyrirferðamikil að erfitt er að stinga þar í gegn án þess að skaða þessi mikilvægu líffæri. 

Niðurstaðan er sú að fréttin er tómt bull og engu líkar en að barn hafi skrifað hana. Stundum veltir maður því fyrir sér til hvers þessi fjölmiðill er eða hvort hinn nýi eigandi hans lesi ekki blaðið eða vefsíðuna. Geri hann það hlýtur honum að ofbjóða málfarið og efnistökin rétt eins og okkur hinum.

Tillaga: Þegar lögregla kom á staðinn blæddi mikið úr manninum.  Konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.

6.

Fór á stefnumót og stakk ítrekað af frá reikningnum – Nú hefur dómur verið kveðinn upp.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Fyrirsögnin segir beinlínis að maður nokkur hafi hlaupist á brott án þess að greiða reikninginn, aftur og aftur. Hvers vegna var hann alltaf að stinga af frá sama reikningnum.

Nei, þannig er ekki málið vaxið. Hann stakk af frá þremur ógreiddum reikningum á þremur veitingahúsum.

Þetta er auðvitað stórfrétt. Og mikið er manni létt að dómur hafi verið kveðinn upp. Þó flögrar að manni að blaðamaðurinn hefði getað sagt að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir tiltækið.

Með þokkalega skýrri hugsun hefði verið hægt að orða fyrirsögnina á annan hátt án þess að misnota atviksorðið ítrekað. Orðið hefur náð feikna vinsældum meðal reynslulítilla blaðamanna og er nú notað eins og enska orðið repeatedly sem merkir aftur og aftur og jafnvel enn og aftur. Íslenska orðið merkir ekki það sama, gæti þýtt aftur, en ekki margsinnis nema það komi sérstaklega fram, ítreka eitthvað aftur og aftur eða margsinnis.

DV iðkar það að búa til langar fréttir, margsamsettar og með einhverri rúsínu í pylsuendanum sem á að vekja athygli lesandans og fá hann til að lesa meira. Þetta er aðferð sem „gula pressan“ iðkar í öðrum löndum, fjölmiðlar sem eru ekkert sérstaklega vandir að virðingu sinni. 

Fjölmiðillinn birtir afspyrnu ómerkilegar þýddar „fréttir“ eins og þá sem hér um ræða. Í sannleika sagt er ótrúlegt að sá sem vill kalla sig blaðamann vilji standa í svona framleiðslu. Verst er þó hversu þýðingarnar eru oft á slæmu máli og ruglingslegar.

Tillaga: Fór á stefnumót og stakk alltaf af frá reikningum – Hann fékk sinn dóm.


Bloggfærslur 23. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband